Skák býður upp á fleira en að telja peðin: Yngsti Íslandsmeistari sögunnar skrifar frá Bratto á Ítalíu

Héðinn Steingrímsson skrifar.

Ítalir eru að sækja í sig veðrið á skáksviðinu, en Fabiano Caruana er þegar þessar línur eru skrifaðar í 2. sæti á stigalista skákmanna á eftir Magnúsi Carlsen og er með tveggja vinninga forskot á sterkasta skákmóti allra tíma, sem fram fer í Saint Louis í Bandaríkjunum þegar þessar línur eru skrifaðar eftir að hafa unnið fjórar fyrstu skákirnar, þar á meðal sjálfan Carlsen.

Ég tefldi í Porto Mannu á Sardiníu árið 2007 og tefldi þá við Caruana og náði að bera sigur úr bítum í spennandi skák. Mótinu lauk síðan með sigri mínum og mínum fyrsta stórmeistaraáfanga, en Caruana varð að láta sér lynda annað sætið.

Verdlaunaafhending2Í dag lauk síðan skákmóti í Bratto á Ítalíu, en skipuleggjendur þar tefldu sumir á mótinu í Porto Mannu. Mótið var eins og við mátti búast ágætlega skipulagt og öllum til mikils sóma. Ég varð í þetta sinn í fimmta sæti. Mótið fór fram í ítölsku Ölpunum, sem að hentaði mér ágætlega, en ég fór í þó nokkrar fjallgöngur. Þá eru Ítalirnir miklir listamenn á sviði matargerðar og kunna almennt vel að meta listir, skáklistin þar með talin..

Eftirfarandi skák var tefld í dag í síðustu umferðinni.

Skák er margslunginn leikur þar sem ýmis element skipta máli. Þar er liðsafla hrært saman við virkni mannanna kryddað með stöðulegum veik- og styrkleikum, kóngstöðu og samhæfingu.

Í skák finna allir eitthvað við sitt hæfi. Sumir telja undantekningarnar frá reglunum vera einna mest spennandi. Í þessari skák fórnaði ég tveimur peðum fyrir góð færi að hvíta kónginum. Yfirleitt eru slík færi skammvirk og felst í aukinni virkni mannanna, sem fjara út ef rólega er teflt.

Í stöðunni sem kemur upp eru bæturnar þó langtíma í eðli sínu og sterkasti leikurinn er oftar en ekki að tefla rólega og láta eins og maður sjái ekki að maður er liði undir. Ég gerði harða atlögu að því að sækja vinning, en varð þó að lokum að sættast á skiptan hlut.
Athyglisverð skák, sem sýnir að skák býður upp á fleira en að telja peðin!

Heimasíða Héðins

Facebook athugasemdir