Yfir skákborðinu: Dominic Lawson ræðir við Rex Sinquefield – Von á fleiri ofurstórmeisturum til BNA?

Blaðamaðurinn Dominic Lawson bryddar upp á sérdeilis skemmtilegri útgáfu af útvarpsþætti í seríunni „Across the board“ sem mætti kannski kalla „Yfir skákborðinu“ á hinu ilhýra. Þáttaröðin telur nú þrjár seríur og viðmælenda hópurinn stækkar ört.

Lawson, er bróðir sjónvarpskokksins Nigellu Lawson, er þéttur skákmaður og hefur m.a. komið að skipulagningu heimsmeistaraeinvígis þeirra Karpovs og Kasparovs árið 1984, skrifað bókina „The inner game“ sem fjallar um einvígi Kasparovs og Nigel Short ásamt því að skrifa vikulegan skákdálk í tímaritið Standpoint.

Í þættinum ræðir Lawson við skákfrömuðinn Rex Sinquenfield, sem ætti að vera flestum kunnur. Hann er stofnandi og aðal bakhjarl Skákfélags í Saint Louis [Chess Club and Scholastic Center of Saint Louis] og hefur komið borginni Saint Louis á kortið, en hún var nýlega gerð að skákhöfuðborg Bandaríkjanna.

Þá er vitað að Rex kom við sögu í vistaskiptum Fabiano Caruana, sem nýverið skipti um skáksamband og teflir nú fyrir það Bandaríska. Fram kemur í viðtalinu að Rex útilokar ekki að von sé á fleiri ofurstórmeisturum til BNA, en nú þegar státar landið af 3 ofurstórmeisturum af 10 sterkustu í heimi!

Rex fer yfir sögu sína í viðtalinu, en hún er að mörgu leyti mjög merkileg.

Þægilegt er að smella á reitinn e2 á skákborðinu, en þá spilast skákin í rólegheitum á meðan hlustað er.

Facebook athugasemdir