Vináttan er okkar leiðarljós: Margar skákhátíðir á Grænlandi framundan!

Skákfélagið Hrókurinn undirbýr nú heimsóknir til margra bæja og þorpa á Grænlandi, á haustmisseri 2014. Það sem af er ári hafa Hróksmenn sent þrjá leiðangra til Grænlands, og efnt til hátíða sem mörg hundruð börn hafa tekið þátt í. Alls hefur Hrókurinn skipulagt næstum 40 skákferðir til Grænlands síðan 2003, og hafa þúsundir barna og ungmenna kynnst töfraheimi skáklistarinnar. Markmið Hróksins frá upphafi hefur ekki einasta verið að útbreiða skákina, heldur að efla tengsl og vináttu Grænlands og Íslands á sem flestum sviðum.

Tólfta starfsár Hróksins á Grænlandi hófst með heimsóknum í febrúar til Kulusuk, Tasiilaq og Sermiligaq á Austur-Grænlandi. Um páskana var haldin hátíð í Ittoqqortootmiit, sem er afskekktasta þorp austarstrandarinnar, og í maí var efnt til hátíðar í höfuðborginni Nuuk, sem tileinkuð var minningu Jonathans Motzfeldt, fyrsta forsætisráðherra Grænlands.

Framundan eru ferðir til Kulusuk, Tasiilaq og fleiri þorpa á austurströndinni, og í haust liggur leiðin til Sisimiut á Vestur-Grænlandi, sem er næststærsti bær Grænlands. Þorp á bæir í grennd við Sisimiut verða jafnframt heimsótt, og efnt til skákhátíða fyrir börn og ungmenni. Sisimiut er höfuðstaður sveitarfélagsins Qeqqata, sem er minnsta sveitarfélagið á Grænlandi en samt talsvert stærra en Ísland! Þetta verður fyrsta heimsókn Hróksins til Qeqqata, en íbúar þar eru tæplega 10 þúsund, og vonast Hróksmenn til að kynna skákina fyrir sem allra flestum börnum og ungmennum á þessum slóðum. Efnt verður til sérstakrar söfnunar, svo sem allra flest börn fái taflsett að gjöf.

Fleiri ferðir eru í undirbúningi og vonast Hróksmenn til að komast aftur til Upernavik, en þar var haldin frábær skákhátíð í svartasta skammdeginu í vetur. Upernavik, sem er á 72. breiddargráðu, hefur verið kallaður ,,gleymdi bærinn á Grænlandi“. Íbúar þar eru um 1200 og er sáralítið um heimsóknir til bæjarins eða hátíðir fyrir börn.

Þá munu Hróksmenn halda áfram að byggja upp skáklífið í Nuuk, en á síðustu 18 mánuðum hafa liðsmenn félagsins farið í fimm heimsóknir til höfuðborgarinnar, heimsótt skóla og athvörf, efnt til skákmóta og fjöltefla. Hundruð barna í Nuuk hafa fengið taflsett að gjöf frá Hróknum og Flugfélagi Íslands.

Starf Hróksins á Grænlandi er í senn gefandi og árangursríkt. Ótal ánægjustundir hafa orðið til og þúsundir grænlenskra barna tefla nú sér til ánægju. Gleðin og vináttan eru leiðarljós Hróksins í starfinu á Grænlandi!

Facebook athugasemdir