Viktor grimmi afhausar Caruana

Hann er goðsögn: Viktor Lvovich Korchnoi tefldi tvisvar sinnum um heimsmeistaratitilinn, varð fjórum sinnum skákmeistari Sovétríkjanna, sex sinnum í sigurliði á ólympíuskákmóti. Hann fæddist 23. mars 1931 í Leníngrad, af gyðingaættum eins og svo ótrúlega margir af fremstu skákmönnum sögunnar. Korchnoi flúði Sovétríkin 1976 og skildi fjölskylduna eftir — Friðrik Ólafsson frelsaði það góða fólk þegar hann var forseti FIDE 1978-82. Barátta Friðriks í þágu fjölskyldu Korchnois kostaði hann forsetaembættið — þetta var hápólitískt mál í ísköldu stríði.

Korchnoi hefur viðurnefnið ,,hinn grimmi“ og það vísar bæði til skákstíls hans og persónu. Korchnoi tefldi síðast á Íslandi árið 2003 á Stórmóti Hróksins á Kjarvalsstöðum og sýndi frábæra takta. Árið 2011 — þegar hann var 80 ára! — mætti Korchnoi ungum Ítala á opna stórmótinu á Gíbraltar. Og þar sýndi gamli maðurinn klærnar. Fabiano Caruano er án nokkurs vafa efni í heimsmeistara en þennan dag á Gíbraltar varð hann að lúta í gras fyrir goðsögninni. Korchnoi hefur svart.

Facebook athugasemdir