Birna og Bakkakot

Viðtal við Birnu Norðdahl: ,,Spenningurinn heillar mest í skákinni — hvort maður lifir eða deyr“

1 MYND 1991 Birna Norðdahl - forsíða SKÁKStórfróðlegt og skemmtilegt viðtal sem Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir tók við Birnu Norðdahl og birtist í SKÁK 1981. Birna var merkilegur brautryðjandi í íslenskri skáksögu. Myndir með viðtalinu tók þriðja skákdrottningin, Áslaug Kristinsdóttir.

Á sólríkum sumardegi átti ofanrituð eftirfarandi viðtal við Birnu Norðdahl, núverandi Íslandsmeistara kvenna í skák.

Það var auðséð að húsmóðirin í Bakkakoti hafði ekki með öllu setið auðum höndum þennan daginn. Þegar við Áslaug Kristinsdóttir ljósmyndari renndum í hlað var heyskapur í algleymingi á bænum. Hey lá í flekk á túninu, auk þess sem kominn var upp myndarlegur galti. Orfið og ljárinn voru upp við húsvegg. Í dag viðraði vel til þurrkar og einnig til smiða.

Við rákum augun í allskyns smíðatól sem Birna hafði notað til að smíða nýja girðingu umhverfis snyrtilegan blómagarðinn kringum húsið.

Birnu er margt annað til lista lagt en að tefla. Í henni blundar bóndinn, smiðurinn og listmálarinn, um það vitna fjölmörg falleg málverk sem birtast manni í hverju herbergi er inn kemur.

Eftir að hafa þefað af heyinu, litið til lofts og horft til fjalla, knúðum við á dyr og hófum viðtal við skákkonuna Birnu.

Það sem mér lætur best að gera og það eina sem ég hef gert vel um dagana er allt í sambandi við gripahirðingu og heyskap með orfi og hrífu.

Það sem mér lætur best að gera og það eina sem ég hef gert vel um dagana er allt í sambandi við gripahirðingu og heyskap með orfi og hrífu.

,,Ég er fædd á bænum Hólmi hérna hinum megin við ána 30. mars 1919. Bjó í Reykjavík árin 1947-54. Þá var ég búin að byggja Bakkakot og hér hef ég nú búið síðan. Börnin mín 6 eru uppkomin, barnabörnin eru 19 og barnabarnabörnin 2.“

— Hvenær lærðir þú að tefla?

,,Mér finnst ég alltaf hafa kunnað mannganginn. Bróðir minn kenndi mér að tefla þegar ég var mjög ung og teflum við enn mikið saman. Hann er nú 83 ára gamall og núna er ég loksins farin að hafa aðeins betur.“

— Hvert var fyrsta skákmótið sem þú tefldir í?

Birna 21 árs. Um þetta leyti tók hún þátt í Skákþingi Reykavíkur. Þá hafði hún teflt síðan hún mundi eftir sér, en hafði aldrei séð skákklukku eða skrifað niður skákir.

Birna 21 árs. Um þetta leyti tók hún þátt í Skákþingi Reykavíkur. Þá hafði hún teflt síðan hún mundi eftir sér, en hafði aldrei séð skákklukku eða skrifað niður skákir.

,,Það var Reykjavíkurskákmótið 1940, að mig minnir, sem fram fór í Bárunni við Tjörnina. — Þegar ég settist að skákborðinu hafði ég aldrei séð skákklukku og aldrei skrifað skák. Frændi minn plataði mig til þess að taka þátt í mótinu. — Þá var sungið á öllum borðum.“

— Sungið?

,,Já, Suður um höfin var vinsælt þá, það var raulað og flautað. Þá var selt inn á mótið, margir áhorfendur og þéttur hópur kringum kerlingarangann sem var eini kvenþátttakandinn. Ég varð neðst í mínum flokki, en vann þó sigurvegara flokksins. — Mikil veisla var í mótslok og fékk ég verðlaun, en skýrt tekið fram að ekki væri það fyrir frammistöðu, heldur þátttöku.“

— Það vakti undrun mína að á æfingamóti Ólympíusveitarinnar í Kópavogi sl. haust hittust þið Sturla Pétursson í fyrsta skipti í 40 ár, en hann tefldi einmitt í Heiðursflokki á því móti. Manstu eftir einhverjum skákmönnum sem tefldu fyrir 40 árum og tefla enn?

,,Þeir eru nú margir dánir, en þá voru einnig Ásmundur Ásgeirsson, Guðmundur Ágústsson, Baldur Möller og Ólafur Einarsson.“

— Þú ert ein stofnfélögum kvennadeildar Taflfélags Reykjavíkur. Var tilkoma þessarar deildar ástæðan fyrir því að þú hófst að tefla á ný?

6 MYND Guðmundur Ágústsson bakari og skákmeistari hvatti Birnu óspart til að tefla.

Guðmundur Ágústsson bakari og skákmeistari hvatti Birnu óspart til að tefla.

,,Já, Guðmundur Ágústsson á sök á því! Um það leyti sem þetta var í bígerð vann maðurinn minn hjá Guðmundi og kom daglega með skilaboð frá honum að ég skyldi vera með. En Guðfinnur Kjartansson og Benedikt Jónasson voru frumkvöðlar að stofnun deildarinnar. Stofnfélagar voru 45.“

— Hverja telur þú ástæðuna fyrir dræmri þátttöku kvenna í skákhreyfingunni?

,,Ég held að þær hafi einfaldlega ekki áhuga á að iðka skák, hafi meiri áhuga á öðrum greinum íþrótta.“

Íslenskar konur tóku þátt í Ólympíuskákmóti í fyrsta sinn í Argentínu 1978 og var það framtakssemi Birnu og elju fyrir að þakka, því að snemma árs 1978 kom Birna á fjársöfnun fyrir konur eingöngu til að fara þessa ferð. Þetta var erfiðleikum bundið þar sem ferðin var mjög kostnaðarsöm. — Birna tefldi einnig á Ólympíuskákmótinu á Möltu í fyrra. — Ég spurði því hana hvort hún áliti að framhald yrði á þátttöku íslenskra kvenna á Ólympíumótum.

,,Já, ég er bjartsýn á framhaldið. Eftir frammistöðuna á Möltu tel ég það alveg sjálfsagðan hlut framvegis.“

1980 - Malta - Áslaug, Sigurlaug, Birna

1980 – Malta – Áslaug, Sigurlaug, Birna

— Hvernig hefur þú náð þínum skákstyrkleika?

,,Með því að tapa. Ég hef aldrei litið á sjálfa mig sem alvöru skákmann. Hef aldrei lesið skákbækur. — Ég er ólæs á skák.“

— Hin áhugamálin?

,,Það sem mér lætur best að gera og það eina sem ég hef gert vel um dagana er allt í sambandi við gripahirðingu og heyskap með orfi og hrífu, en ég hætti búskap í fyrra. — Hestamennska var mitt áhugamál hér áður fyrr. Ég hef málað síðan 1965 og teiknað alla mína ævi, svo finnst mér öll handavinna skemmtileg.“

Keppendur í 2. flokki B á Skákþingi Reykjavíkur 1940.

Keppendur í 2. flokki B á Skákþingi Reykjavíkur 1940.

— Hvað er það við skákina sem heillar þig mest?

,,Spenningurinn. Hvort maður lifir eða deyr.“

Birna hefur teflt í mótum á hverju ári síðan 1975. Hún varð Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari kvenna 1976 og Íslandsmeistari 1980.

Tefldi í Sexlandakeppninni í Svíþjóð 1975 og Ólympíuskákmótinu í Argentínu og Möltu 1980.

— Eitthvað mót sérlega minnisstætt?

,,Mótin erlendis eru minnisstæðust fyrir þá hluta sakir að það eru einu utanlandsferðir mínar. Skák sem ég tefldi við ungverska skákkonu í Argentínu er mér minnisstæðust, ég tapaði henni reyndar!“

— Birna, hvenær mætumst við við skákborðið næst?

9 Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir var samherji Birnu í íslenska kvennalandsliðinu og tók þetta skemmtilega og fróðlega viðtal.

Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir var samherji Birnu í íslenska kvennalandsliðinu og tók þetta skemmtilega og fróðlega viðtal.

,,Ég tefli á næsta Íslandsmóti en hef ekki ákveðið meira. Ég er hins vegar ákveðin að gefa ykkur ekki drottninguna orustulaust, þótt möguleikar séu litlir að ég haldi henni, sem betur fer… Það þýðir að þið hinar hafið bætt ykkur.“

— Eitthvað að lokum?

,,Ég óska bara konum góðs gengis við skákborðið eins og annars staðar.“


Eftir að hafa drukkið kaffisopa og setið stundarkorn við skákborðið fórum við út og Birna tók fyrir okkur nokkrar sveiflur með orfinu á slægjunni. Við spjölluðum svo um heima og geima drykklanga stund, en okkur verður sjaldan umræðuefna vant.

Loks þökkuðum við Birnu greinargóð svör og skemmtilega stund og héldum á brott með þá ósk í huga að Birna haldi áfram að vera skákkona — okkur til samlætis.

TÍMARITIÐ SKÁK 9.-10. tbl. 1981

Birna Norðdahl tefldi þessa ágætu skák gegn Mary Klingen í Sex landa keppninni 1975

Myndagallerí

Facebook athugasemdir