Vel heppnað skákmaraþon til styrktar börnum frá Sýrlandi

■ Hrafn Jökulsson tefldi 222 skákir ■ Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga lagði söfnuninni lið ■ Framlögin munu koma í afar góðar þarfir í Sýrlandi og nágrannaríkjunum

skakmarathon_001_fatimusjodur_2016

Um þrjár milljónir króna söfnuðust í skákmaraþoni Hrafns Jökulssonar, Skákfélagsins Hróksins og Skákakademíu Reykjavíkur til styrktar börnum frá Sýrlandi. Maraþonið fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur á föstudag og laugardag og tefldi Hrafn Jökulsson við gesti og gangandi. Hann hafði sett markið á 200 skákir en tefldi alls 222 skákir á tæpum 30 klukkustundum.

Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafði í aðdraganda maraþonsins heitið á Hrafn. Þetta voru GAMMA, Landsbankinn, Íslandsbanki, Vodafone, TM, Kvika, Nova, Logos, Dominos, Hagar, Vilhjálmur Þorsteinsson, Vignir S. Halldórsson og Viggó Einar Hilmarsson. Einn velunnari sem ekki vildi láta nafns síns getið greiddi 1.000 krónur fyrir hverja skák og annar 2.000 krónur. Söfnunarféið fer í neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum en milljónir barna búa þar við skelfilega neyð.

Á laugardeginum kom í Ráðhúsið drengur sem fermdist í vor og gaf 40.000 krónur af fermingarpeningunum sínum. Að auki lögðu gestir og gangandi henni lið með frjálsum framlögum.

Við erum ein fjölskylda

skakmarathon_005_fatimusjodur_2016
Skákmaraþonið var haldið í samvinnu við Fatimusjóðinn og UNICEF á Íslandi og fjöldi fólks gaf vinnuna sína svo það mætti verða að veruleika.

 

„Við erum innilega þakklát öllum þeim sem gerðu viðburðinn mögulegan,“ segir Bersteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

 

„Framlögin sem söfnuðust munu koma í afar góðar þarfir. UNICEF er í Sýrlandi, var þar fyrir stríðið og verður áfram. Við höfum hjálpað milljónum sýrlenskra barna en neyðin er gríðarleg. Því er framtak eins og skákmaraþon Hrafns Jökulssonar óskaplega mikilvægt. Við erum innilega þakklát.“

 

skakmarathon_007_fatimusjodur_2016

Margt var um að vera í Ráðhúsinu samhliða skákmaraþoninu. Krakkar úr Rimaskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík komu til dæmis og tefldu fjöltefli, Ragnheiður Gröndal flutti eigin lög ásamt Guðmundi Péturssyni, barnakór Langholtskirkju kom fram undir stjórn Bryndísar Baldvinsdóttur og fjöldi fólks fór í fjögurra mínútna langt ferðalag í flóttamannabúðir í Jórdaníu með hjálp sýndaveruleika.

 

 

„Mér er efst í huga þakklæti til allra sem tóku þátt í þessu með okkur – mættu á staðinn, lögðu okkur lið, létu eitthvað af hendi rakna og hvöttu okkur áfram. Ég mun minnast þessa dásamlega viðburðar með mikilli gleði. Og hlakka til næstu verkefna í þágu góðs málstaðar. Gens una sumus – við erum ein fjölskylda,“ segir Hrafn Jökulsson.

 

Enn er hægt að leggja söfnuninni lið. Hægt er að gera það með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða leggja inn á reikning Fatimusjóðsins: 512-04-250461, kt 680808-0580

Myndagallerí

Facebook athugasemdir