Veitingamenn Hróksins: Skákfélag fæðist á Grandrokk

2 Grandrokk Klapparstíg

Grandrokk við Klapparstíg. Litríkur heimur á litlum stað.

Össur Skarphéðinsson félagi nr. 125 í Hróknum rifjar upp frumbernsku félagsins á Grandrokk, og segir frá einstæðu og andríku mannlífi á þessum fræga stað sem Karl Hjaltested og Jón Brynjar Jónsson ráku

1 Jón Brynjar Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Birta Össurardóttir og Karl Hjaltested á flugvellinum í Kulusuk.

Binni, Össur og Kalli koma frá skákferð til Kulusuk. Birta Össurardóttir kankvís í bakgrunni.

Á Grandrokk stóð Karl Hjaltested veitingamaður vaktina árum saman, ásamt hægri hönd sinni, Jóni Brynjari Jónssyni. Saman sköpuðu þessir skilningsríku veitingamenn skjól fyrir ógleymanlegt samfélag nátthrafna sem kusu sameiginlega glímu við manntafl á Grandrokk fremur en takast á við nóttina einir síns liðs. Seint mun heldur Pétur Kristjánsson gleymast, kankvís sögumaður sem tók sig glæsilega út báðu megin barsins.

Við taflborðin í skjóli barsins á Grandrokk safnaðist saman kjarni, sem var þverskurður af samfélaginu.

Bókmenntasinnaðir drykkjumenn, ölþyrstir taflhrókar, atvinnumenn í skák, sundlaugarverðir, höstlarar, lífskúnstnerar, sölumenn, einfarar, myndlistarséní, verkamenn, húsasmíðameistarar, gjaldþrota bisnessmenn, gamlar barnastjörnur og lífsreyndir lögmenn.

4

Grandarar. Hlynur Jón Michelsen og Einar Ólafsson.

Það bar við að dæmdir skúrkar unnu við taflborðið ódauðlega sigra yfir dómurunum sem höfðu þústað þá í nafni óskeikullar réttvísi.

Í anda Che Guevara, sem sagði að það væri skemmtilegra að tefla eða gera byltingu í Suður-Ameríku, fremur en stýra ráðuneyti, átti ríkisstjórn landsins á þessum árum yfirleitt sinn fulltrúa í hinum andríka hópi á Grandrokk – og jafnan þegar mikið lá við.

Angistin, sem stundum golaði um mannskapinn á Grandrokk, leið frá við freyðandi ódáinsveigar sem þeir félagar seldu okkur af hugsjónaástæðum á lægra verði en áður þekktist í skáksögunni.

7

Þröstur Þórhallsson fær lögfræðilega aðstoð í víxlskák.

Af örlæti hjarta síns og skilningi á mannssálina leyfðu þeir sérhverjum heiðarlegum skákmanni að drekka upp á krít ef svo bar undir, og áunnu sér langvinnt þakklæti í staðinn. Guldu flestir sínar skuldir um það er lauk.

Upp úr þessum litríka afkima mannlífsins spratt Hrókurinn. Hann var í fyrstu óformlegt félag gleðimanna á Grandrokk sem tefldu burt mótlæti daganna eða skoluðu því niður með gnótt af bragðsterkum þýskum kornbjór sem veitingamenn Hróksins báru fram á örlætisverði – og stundum á kostnað hússins.

5

Snillingar. Stefán Kristjánsson stórmeistari og Jón Proppé listfræðingur rýna í sameiginlega stöðu.

Saman gerðu þeir Karl Hjaltested og Jón Brynjar Grandrokk að vin í eyðimörkinni þar sem bæði áhugamenn um skák og einfarar næturinnar áttu athvarf.

Binni, fámáll, með stóiskan svip gamals víkings, bjó yfir ódauðlegum sögum af mafíunni í Pétursborg, þar sem hann vann í frægu íslensku brugghúsi, og sagði þær af og til af magnaðri kúnst með rödd sem var stundum röspuð af fullmörgum sígarettum.

Félagi hans Karl Hjaltested lægði allar öldur, hlustaði á raunasögur ráðherra og útigangsmanna með sama jafnaðargeðinu, var í senn skriftafaðir og bankastofnun ef nauðsyn krafði, og tók undir hvers manns bagga.

6

Haraldur Blöndal stjórnar spurningakeppni á Grandrokk. Hann var einn af stofnendum Hróksins.

Kjarninn í hópnum sem varð til í kringum Hrókinn voru vitaskuld þeir Hrafn Jökulsson, sem gerður var að forseta félagsins til enda veraldar, og Róbert Lagerman, varaforseti, að ógleymdum hinum frábæra skákmanni, Dan Hansson, áður en hann féll sviplega frá. Lögfræðilegur ráðunautur félagsins frá upphafi var Haraldur Blöndal, hrl. og steig ölduna af miklum þrótti, hvort sem var í átökum við Skáksambandið fyrir hönd Hróksins, eða á gleðistundum í lífi félagsins.

11

Dan Hansson: ,,Af hverju stofnum við ekki skákfélag…“

Í þessari valhöll skáklistarinnar sem þróaðist á Grandrokk risu einherjar jafnan upp heilir að morgni. Stundum svolítið rykaðir, en hvorki mannlífinu né stjórn landsins varð meint af. Í þessu litríka félagi var lífsreynsla að vera „félagi 125“.

Grandrokk sem Kalli Hjaltested ætlaði upphaflega að gera að píluklúbbi að enskri fyrirmynd varð í staðinn að lifandi goðsögn í veröld skáklistarinnar. Þangað lögðu leið sína velflestir, ef ekki allir, erlendir skákmeistarar, sem hingað komu til að þreyta list sína á keppnismótum. Líklega hafa engir veitingamenn í sögu heimsins átt jafn marga stórmeistara og skáksnillinga að vinum og þeir Kalli og Jón Brynjar.

Við barinn hjá þeim hristi Timman hinn hollenski lokka sem enn voru bjartir og sá roða af nýjum degi. Tomas Oral, hinn káti Tékki sem varð fyrstur stórmeistara til að tefla undir merkjum Hróksins. Þarna man ég líka eftir Nick deFirmian, margföldum Bandaríkjameistara sem sagði skemmtisögur af mikilli kúnst.

8

Kalli og Freyr Eyjólfsson, sem var potturinn og pannan í hinu auðuga tónlistalífi Grandrokk.

Ég man eftir Luke Mcshane sextán ára í fylgd með pabba sínum og vitaskuld mörgum, mörgum fleiri. Hrókur alls fagnaðar í litríkri flóru erlendra skáksnillinga sem heiðraði okkur nóttum saman á Grandrokk var Bosníumaðurinn snjalli, Ivan Sokolov, sem enn í dag er sérlegur vildarmaður Hróksins.

Allir íslensku stórmeistararnir litu við á Grandrokk. Þar hóf Friðrik Ólafsson endurkomu sína inn í skákina á sérstöku stórmeistaramóti sem við héldum honum til heiðurs, þar sem Hrafn skipaði mér að halda heiðurstöluna yfir mínum gamla samstarfsmanni af Alþingi.

10

Sögumaðurinn Jón Brynjar kominn í gírinn. Henrik Danielsen stórmeistari og Hróksmaður fylgist me.

Ég var þá nýkominn frá Rússlandi með Friðriki, þar sem við hittum í Dúmunni silfurhærðan öldung, sem sagði okkur að einu sinni hefði hann hitt „Grandmaster Olafsson from Iceland who must be dead now.“

Þá ræskti Friðrik sig og sagði: „Ég hygg að það sé ekki allskostar rétt.“

Undir verndarhendi hinna örlátu veitingamanna á Grandrokk þróaðist Hrókurinn hugsanlega á fleiri prómillum en önnur skákfélög í heiminum – sem breytti engu um það, að félagið varð sigursælasta taflfélag sinnar tíðar, og hætti keppni á toppnum, eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitil Skáksambandsins þrjú ár í röð.

12

Hin samvirka forysta: Hrafn og Róbert.

Sú saga verður annars staðar skráð. Sama gildir um afrek Hróksins eftir daga Grandrokk við skákþróun íslenskrar æsku og landnám manntafls í Grænlandi undir forystu Hrafns forseta og Róberts Lagerman.

Fræið, sem leiddi til alls þessa, var hins vegar gróðursett í Grandrokk af nærfærnum höndum tveggja merkilegustu veitingamanna í skáksögu Íslands, Karls Hjaltested og Jóns Brynjars Jónssonar.

Össur Skarphéðinsson er félagi nr. 125 og alþingismaður.

Facebook athugasemdir