VATNSDALSHÓLASLAGUR 2015 – Sunnanmenn unnu Norðanmenn í hörku keppni.

IMG_4664Skákfylkingum sameinaðs liðs eldri skákmanna af höfuðborgarsvæðinu og jafningja þeirra af Norðurlandi laust saman í 13. nú um helgina þegar liðsveitir þeirra mættust í Þórdísarholti, hinu glæsilega veiðihúsi við Vatnsdalsá, sem kennt er við Þórdísi Ingimundardóttir hins gamla, fyrsta Vatnsdælingsins.

Það eru Skákfélag eldri borgara Æsir og Skákfélag Akureyrar sem hafa haft veg og vanda af þessum árlega stórviðburði og annast mótstjórnina til skiptis. Fyrst var keppnin haldin á Akureyri 2003 og síðan í Reykjavík árið eftir og þannig til skiptis fyrstu 6 árin, svo á Blönduósi þar sem liðin mættust á miðri leið árið 2009. Síðan þá þá hefur hún verið haldin í Vatnsdalshólum, með fyrirgreiðslu Karl Steingrímssonar, matsveins á Akureyri og konu hans Soffíu, sem matreitt hafa ofan í mannskapinn.

IMG_4666Liðstjóri Norðanmanna hefur lengst af verið Þór Valtýsson og Birgir Sigurðsson fyrir Sunnanmenn, í síðustu tvö árin Garðar Guðmundsson formaður Ása tekið við keflinu og verið fyrirliði hins sameiginlega liðs Sunnanmanna úr Ásum, Riddaranum, KR, TR og Huginn. Guðfinnur R. Kjartansson, riddari, hefur verið skákstjóri og annast tölvumálin síðustu árin.

Viðureignir þessar hafa ávallt verið nokkuð jafnar og spennandi og svo var einnig nú. Telft var á 11 borðum í tveimur flokkum. Sunnanmenn unnu atskákina með 3 v. í A-flokki og 2 v. í B-flokki, eða alls með 35.5 v. gegn 30.5. v. Í hraðskákkeppninni þar sem allir kepptu við alla í hvoru liði höfðu Norðanmenn 3 vinningum betur eftir æsilegar lokaumferðir og unnu með 62v. gegn 59v. Samanlagt unnu þó Sunnanmenn þennan orraslag að þessu sinni með 2 vinningum, 94.5 gegn 92.5

Frá upphafi keppninnar hafa Norðanmenn unnið 7 sinnum en Sunnanmenn 5 sinnum en einu sinni orðið jafntefli. Heildarstaðan er nú eftir 13 mót 860 – 789 fyrir Norðanmenn að hraðskákinni meðtalinni. Segja má að engin skortur á heildrænni vísindalegri hugsun hafi háð keppendum í þessum mótum þó stundum hafi vafist fyrir sumum að raungera stöðuyfirburði sína.

– ESE

Facebook athugasemdir