Um áhrif eldgosa á skáksöguna

Andri Hrólfsson

Andri Hrólfsson

HelgiOl18_thumbÞað var söguleg stund þegar Helgi Ólafsson og Andri Hrólfsson settust að tafli í Vestmannaeyjum laugardaginn 23. janúar 1993. Þeir voru nefnilega að útkljá 20 ára gamla skák. Þeir mættust í síðustu umferð meistaramóts Vestmannaeyja 22. janúar 1973, og fór skákin í bið. Um nóttina hófst eldgosið mikla í Heimaey og allir íbúarnir voru fluttir burt með hraði.

Helgi Ólafsson, sem er fæddur og uppalinn í Eyjum, var 16 ára og einn efnilegasti skákmaður landsins. Hann varð þriðji stórmeistari Íslendinga, á eftir Friðriki Ólafssyni og Guðmundi Sigurjónssyni, hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari og unnið marga frækilega sigra.

Helgi sigraði Andra í ,,lengstu biðskák sögunnar“ og vann svo kempuna Arnar Sigurmundsson í frestaðri skák. Þar með varð Helgi — loksins! — skákmeistari Vestmannaeyja 1973, 20 árum eftir að mótið hófst!

photo_verybig_108962Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði líka áhrif á skáksöguna. Heimsmeistaraeinvígi Anands og Topalovs var þá rétt í þann mund að hefjast í Búlgaríu. Anand sat fastur á Spáni, enda lá flugumferð niðri eins og frægt er orðið. Heimsmeistarinn bað skipuleggjendur um þriggja daga frest, en þeir ákváðu að fresta því aðeins um einn dag.

Anand brunaði því yfir þvera Evrópu ásamt fylgdarliði sínu, og komst móður og másandi til höfuðborgar Búlgaríu — þar sem hann steinlá fyrir Topalov í 1. skákinni, og vildu margir að sjálfsögðu kenna Eyjafjallajökli um hrakfarir heimsmeistarans.

Anand var þó fljótur að ná sér, jafnaði metin í 2. skákinni og vann nauman sigur í einvíginu.

 

Skák Anands og Topalovs

Facebook athugasemdir