Tvær hátíðir á Austur-Grænlandi

Liðsmenn Hróksins halda á fimmtudag til Kulusuk, næsta nágrannabæjar Íslands, þar sem slegið verður upp hinni árlegu sumarhátíð Air Iceland Connect og Hróksins. Með í för verða tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson, sem áður hafa unnið frábært starf með börnum á Grænlandi.

Frá Kulusuk liggur leiðin til Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands með um 2000 íbúa. Þar verður á laugardag haldið mót til minningar um Gerdu Vilholm, sem lést á síðasta ári. Gerda rak einu bókabúðina í bænum, sem var í senn félagsmiðstöð og griðastaður barnanna í bænum. Hún var heiðursfélagi í Hróknum, og börnin sátu löngum stundum að tafli í litlu búðinni hennar. Setningarræðu mótsins flytur Justus Hansen, þingmaður og sérlegur vinur Hróksins á Austur-Grænlandi.

Minningarmót Gerdu átti upphaflega að fara fram í febrúar á þessu ári, og marka þar með hápunkt Polar Pelagic-hátíð Hróksins 2018, en veðurguðir hindruðu Hróksliða að komast frá Kulusuk til Tasiilaq.

Hróksliðar munu að vanda heimsækja dvalarheimili aldraðra í Tasiilaq, fangelsið og heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum. Fjölmargir leggja til vinninga, gjafir og verðlaun, auk aðalbakhjarlanna, AIC og Polar Pelagic, ekki síst hannyrðafólk, og því eiga margir hlýlegar kveðjur í vændum frá Íslandi.

Facebook athugasemdir