Trilluskákin sló í gegn: Næst er það skákmót á skemmtiferðaskipi á Miðjarðarhafi!

IMG_3266Skákljónið Róbert Lagerman fór á kostum á Menningarnótt þegar gestum var boðið að taka eina bröndótta um borð í glæsifleyinu Óskar Matt VE 17. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Róbert teflir á skipsfjöl — hann varð á sínum tíma heimsmeistari með skáksveit Flugleiða um borð í risastóru skemmtiferðaskipi í Karíbahafinu!

Skákáhugamaðurinn Auðunn Jörgensson eyddi 33 mánuðum í að gera Óskar Matt upp, en báturinn var smíðaður í Hafnarfirði 1959. Óskar er nú eins og nýr úr kassanum, og er tvímælalaust með glæsilegri fleyjum íslenska flotans.

Róbert kunni vel við sig um borð:  ,,Það var stórgaman að þessu og fjölmargir tóku áskorun um taflmennsku — börn, ungmenni, lögmenn, sjómenn, þingmenn, allt litrófið. Trilluskák er tvímælalaust það sem koma skal!“

Skákmeistarinn starfaði á árum fyrri hjá Flugfélagi Íslands og leiddi hina frægu sveit Flugleiða, sem varð oftsinnis heimsmeistari flugfélaga. Viðureignirnar fóru fram um veröld víða — Hawai, Las Vegas, Malasía svo dæmi séu tekin — og einu sinni tefldi Róbert með Flugleiðasveitinni á skemmtiferðaskipi Í Karíbahafi!

,,Ég held að næsta skref sé tvímælalaust að skipuleggja skákmót á skemmtiferðaskipi,“ segir Róbert. ,,Ég á Miðjarðarhafið alveg eftir.“

[slideshow_deploy id=’2071′]

Facebook athugasemdir