Frá félagsheimili aldraðra, Vesturgötu 7.

Toyota styður starf Hróksins meðal eldri borgara á Íslandi og barna á Grænlandi

Hrókurinn og Toyota hafa gengið til samstarfs í því skyni að efla skáklíf meðal eldri borgara, auk þess sem Toyota mun styðja starf Hróksins í þágu barna á Grænlandi árið 2016.

Verkefninu var hleypt af stokkunum mánudaginn 7. desember þegar Hrókurinn heimsótti félagsmiðstöð eldri borgara Vesturgötu 7 þar sem Hrafn Jökulsson tefldi við gesti og var þar glatt á hjalla. Á miðvikudag lá leiðin svo í hjúkrunarheimilið Mörk sem fékk nokkur taflsett að gjöf frá Toyota og Hróknum auk þess sem Hrafn tefldi við heimafólk. Fleiri heimsóknir eru fyrirhugaðar á næstu vikum, og verður séð til þess að hvergi skorti taflsett, auk þess sem efnt verður til námskeiða og skákviðburða.

Þá mun Toyota verða meðal bakhjarla skákhátíðar í Nuuk, höfuðborg Grænlands, en Hrókurinn hefur síðan 2003 unnið þrotlaust að útbreiðslu þjóðaríþróttar Íslendinga meðal okkar næstu nágranna, og alls farið um 50 ferðir til Grænlands.

Hrókurinn metur mikils stuðning Toyota, en fyrirtækið hefur á liðnum árum stutt ötullega við skáklíf eldri borgara á Íslandi og árlega staðið að stórmóti fyrir eldri kempur.

Facebook athugasemdir