Þriggja þorpa hátíð Hróksins, Kalak og FÍ á Austur-Grænlandi

2015-hatid-i-kulusuk-3Liðsmenn Hróksins og Kalak heimsækja þrjú þorp á austurströnd Grænlands dagana 16.-23. nóvember og efna til hátíða fyrir börn og ungmenni. Þetta er sjöunda ferð Hróksmanna til Grænlands á þessu ári, að útbreiða skák, gleði og vináttu. Leiðin að þessu sinni liggur til Kulusuk, Tasiilaq og Kuummiut.

Kulusuk er næsti nágrannabær Íslendinga og þangað hefur Flugfélag Íslands haldið uppi áætlunarferðum um árabil. FÍ hefur verið helsti bakhjarl Hróksins frá því að skáklandnámið hófst á Grænlandi sumarið 2003. Íbúar í Kulusuk eru nú um 250 og eru 40 börn í skólanum, sem 2015-hatid-i-kulusuk-7öll munu taka þátt í hátíðinni. Þorvaldur Ingveldarson mun kenna skák, vera með tónsmiðju fyrir börn og efna til myndasamkeppni með veglegum verðlaunum.
Þrír liðsmenn Hróksins og Kalak fara til Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands með um 2000 íbúa. Róbert Lagerman, Stefán Herbertsson og Max Fürstenberg munu kenna í grunnskóla bæjarins, efna til fjöltefla og meistaramóts. Þá munu þeir heimsækja heimili fyrir aldraða, börn sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum, fangelsið og fleiri staði. Frá Tasiilaq liggur leið þremenninganna til Kuummiut, þar sem um 50 börn eru í skólanum.

2015-hatid-i-kulusuk-6Fjölmargir leggja Hróknum og Kalak lið við skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar. Helstu bakhjarlar eru Flugfélag Íslands, Bónus, Krumma, Tiger, Sólarfilma, Íslenskir fjallaleiðsögumenn, HENSON, Ísspor, Nói Síríus og Travel Lodge Greenland. Þá er ótalinn prjónahópurinn í Gerðubergi, sem gerir liðsmenn Hróksins út með mikið af vönduðum og góðum prjónaflíkum fyrir börnin á Grænlandi.

Auk leiðangursmanna eru í undirbúningshópi þriggja þorpa hátíðarinnar þau Hrafn Jökulsson, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt og Jón Grétar Guðmundsson.

Hægt verður að fylgjast með fréttum af leiðangrinum

á Facebook-síðu Skákfélagsins Hróksins.

Facebook athugasemdir