Þjóðskáldið og skákgyðjan: ,,Ein mesta skemmtun Einars var að tefla skák við kunninga sína“

Einar Benediktsson 2

Einar Benediktsson

Afmælismót Einars Ben fer fram á laugardaginn kl. 14 á samnefndum veitingastað við Ingólfstorg. Skák skipaði stóran sess hjá þjóðskáldinu, eins og glöggt kemur fram í endurminningum eiginkonu hans, Valgerðar Benediktsson. Hún segir:

,,Ein mesta skemmtun Einars var að tefla skák við kunningja sína, og gerði hann það oft í tómstundum sínum. Hann sagði mér, að hann hefði teflt við Sigurð Jónsson fangavörð og Pétur Pétursson, föður dr. Helga Pjeturss, en þessir menn munu hafa verið taldir mjög góðir skákmenn á sinni tíð.

Valgerður Benediktsson

Valgerður Benediktsson

Síðar tefldi hann við hina yngri menn eins og Pétur Zóphóníasson og Eggert Gilfer. Einnig tefldi hann oft við bræðurna Sturlu og Friðrik Jónssyni, sem komu oft á heimili okkar.

Þess má geta að Einar var einn af stofnendum Taflfélags Reykjavíkur. Skömmu eftir aldamótin var tvívegis tefld skák með lifandi mönnum á Landakotstúni í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn 2. ágúst. Voru reitir markaðir sem á skákborði og mennirnir klæddir í einkennisbúninga eftir því, hvað hlutverk þeir höfðu í taflinu. Í seinna sinnið, — mig minnir það væri 1904 [rétt: 1901], tefldi Einar skák þessa móti Péturi Zóphóníassyni, og varð hún jafntefli.“

Facebook athugasemdir