„Þegar ég hef hvítt, þá vinn ég vegna þess að ég er með hvítt – Þegar ég er með svart, þá vinn ég vegna þess að ég er Bogoljubov.“

Alexander Aljekín varð fyrst heimsmeistari árið 1927 eftir sigur í einvígi við José Raúl Capablanca. Fljótlega eftir einvígið samþykkti Aljekín að tefla annað einvígi við Capablanca með sömu skilyrðum og hann sjálfur þurfti að samþykkja fyrir fyrra einvígið. Skilyrðin voru að áskorandinn (Capablanca) varð að leggja fram $10.000 í gulli og að heimsmeistarinn (Aljekín) fengi rúman helming þess, jafnvel þótt hann tapaði einvíginu.

Capablanca tókst að tryggja féð strax árið eftir (1928) þegar hr. Bradley Beach frá New Jersey bauðst til að halda einvígið og leggja til verðlaunaféð. Þrátt fyrir það runnu samningaviðræður út í sandinn vegna deilna um ýmis smáatriði.

Aljekín ákvað því að taka áskorun frá Rússa nokkrum; stórmeistaranum Efim Bogoljubov (1889-1952). Efim þessi var sókndjarfur skákmaður sem gat unnið hvern sem er, en átti einnig til að tapa illa þegar glanspartýið gekk ekki upp. Efim hafði árið 1928 unnið mót í Bad Kissingen í Þýskalandi og það þrátt fyrir að Capablanca væri meðal þátttakenda – að vísu tapaði hann fyrir Capa í mótinu, en það kom ekki að sök.

Tefldar skyldu 30 skákir eða sá sigraði sem fyrr ynni 6 skákir. Í fyrstu virtist einvígið nokkuð jafnt og unnu þeir félagar sitthvorar tvær skákirnar af fyrstu sex; þá kom babb í bátinn því Aljekín vann næstu sex skákirnar í röð og náði þar með forystu sem Bogoljubov tókst ekki að vinna til baka. Einvígið endaði því eftir „aðeins“ 25 skákir og Aljekín hélt titlinum.

Bogoljubov varð aldrei heimsmeistari, en nafn hans er þó rækilega skráð í skáksögubækur því eftir honum var nefnd byrjun – Bogo-Indversk vörn.

Þrátt fyrir að hafa tapað einvíginu, þá vann Bogoljubov fimm skákir. Við lítum á eina þeirra. Efim er með hvítt.

Facebook athugasemdir