Það er bara einn Skákjólasveinn: Róbert sigraði á jólamótinu í Vin!

IMG_4496Róbert Lagerman sigraði á hinu árlega jólaskákmóti Vinaskákfélagsins og Hróksins, sem haldið var í Vin mánudaginn 8. desember, og hlaut að launum endurnýjað umboð sem Skákjólasveinninn. Róbert, sem var ríkjandi meistari, hlaut 5,5 vinning af 6, næstur kom Skagamaðurinn knái Magnús Magnússon með 5 vinninga. Hinir stórefnilegu Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir urðu í 3.-5. sæti  með 4, ásamt Víkingnum vinalega, Gunnari Frey Rúnarssyni.

IMG_4460Mótið var vel skipað og keppendur alls 17. Helgi Ólafsson stórmeistari, heiðursgestur mótsins, lék fyrsta leikinn fyrir Árna Jóhann Árnason gegn Herði Jónassyni. Bökunarilmur úr hinu fræga eldhúsi í Vin lá í loftinu þegar klukkurnar fóru af stað og í hönd fór stórskemmtilegt mót, sem einkenndist af góðum tilþrifum og eldglæringum á skákborðinu.

Vert er að geta vasklegrar framgöngu Björgvins Kristbergssonar sem hlaut 3 vinninga og skákaði valinkunnum kempum.

IMG_4464Róbert tók forystu strax í upphafi og hélt henni fyrirhafnarlítið til loka, jafnframt því að stýra mótinu af alkunnri snilld. Góðir gestir fylgdust með taflmennskunni, m.a. Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands og séra Gunnþór Ingason sem kallaður er skákklerkurinn.

Í mótslok var boðið upp á rjúkandi kakó með rjóma og nýbakaðar smákökur. Í verðlaun voru splunkunýjar jólabækur frá Sögum útgáfu.

Vinaskákfélagið og Hrókurinn þakka keppendum og öðrum vinum. Næsta mót á dagskrá er Jólamót Stofunnar á fimmtudagskvöld kl. 20

Sæti Nafn Vinningar
1 Róbert Lagerman 5,5
2 Magnús Magnússon 5
 3-5 Björn Hólm Birkisson 4
 3-5 Bárður Örn Birkisson 4
 3-5 Gunnar Freyr Rúnarsson 4
 6-7 Arnljótur Sigurðarson 3,5
 6-7 Hrafn Jökulsson 3,5
 8-11 Hörður Jónasson 3
 8-11 Hjálmar Sigurvaldason 3
 8-11 Björgvin Kristbergsson 3
 8-11 Héðinn Briem 3
 12-13 Hörður Garðarsson 2,5
 12-13 Úlfur Orri Pétursson 2,5
 14-16 Finnur Kr. Finnsson 2
 14-16 Óskar Einarsson 2
 14-16 Haukur Halldórsson 2
17 Árni Jóhann Árnason 1

 

Facebook athugasemdir