Taflborðs-morðinginn: Skrímslið sem ætlaði að drepa jafn marga og reit­irn­ir eru á skák­borðinu

Alexander Yuryevich

,,Get ekki hugsað mér lífið án þess að drepa.“

Alexander Yuryevich Pichushkin fæddist 9. apríl 1974 í grennd við Moskvu. Hann var kallaður Sasha og þótti ljúft barn. Árið 2007 var hann dæmdur fyrir 49 morð. Sjálfur sagðist hann hafa myrt mun fleiri. Hann hafði einsett sér að drepa 64 — eitt fórnarlamb fyrir hvern reit á taflborðinu.

Sasha litli þótti ósköp venjulegt barn, en hegðun hans tók gagngerum breytingum eftir að hann féll aftur fyrir sig í rólu, 4ja ára, og fékk hana af miklu afli í höfuðið. Sérfræðingar telja að slysið kunni að hafa valdið heilaskaða, og svo mikið er víst að hegðun Sasha litla gjörbreyttist. Hann varð uppstökkur og árásargjarn, svo móðir hans sá þann kost vænstan að setja hann í skóla fyrir börn með námserfiðleika.

Þetta var afdrifarík ákvörðun, því nú varð Sasha skotspónn krakka í hverfinu sem gengu í  ,,venjulegan“ skóla. Hann varð fyrir stöðugu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu krakkanna, sem aldrei kölluðu hann annað en ,,fávitann“. Eineltið lagðist þung á Sasha, og ól á beiskju hans og reiði.

Þegar pilturinn var að komast á unglingsár áttaði móðurafi hans sig á því að Sasha var hreint enginn fáviti, heldur þvert á móti eldklár. Sasha flutti til afa síns, sem hvatti hann til þess að taka þátt í uppbyggjandi tómstundum utan skólans.

1030_pichushkin

Skrímslið í glerbúrinu. Dæmdur í ævilangt fangelsi, þar af 15 í einangrun. Er nú í öryggisfangelsi í Síberíu.

Og þar varð skákin í aðalhlutverki. Hann fór að venja komur sínar í Bitsa-garðinn, sem er um 20 ferkílómetra skemmtigarður og skógur rétt við Moskvu. Þar tefldi Sasha við eldri og reyndari skákmenn, en sýndi fljótt að hann var bráðefnilegur og ekkert lamb að leika við. Hann mátti hinsvegar áfram þola einelti út táningsárin, og varð fyrir þungu áfalli þegar afi hans dó.

Hann flutti aftur til móður sinnar, en var nú byrjaður að drekka vodka af miklu kappi, eins og flestir sem sátu að tafli í Bitsa-garði. Því hefur verið haldið fram að vodkadrykkjan hafi ekki haft nein áhrif á getu hans við skákborðið, en ástæða er til að taka slíkum staðhæfingum með fyrirvara.

Og um þetta leyti var Alexander Pichushkin farinn að hegða sér vægast sagt óhugnanlega. Hann var nú jafnan með upptökuvél ef hann vissi að hann kæmist í snertingu við börn eða ungmenni. Á einu hrollvekjandi myndbandi sést hann lyfta litlu barni upp á öðrum fætinum um leið hann segir: ,,Nú hef ég þig á mínu valdi… Ég ætla að henda þér út um gluggann… Og þú fellur 15 metra og deyrð.“

Pichushkin naut ,,valdsins“ og horfði á myndböndin aftur og aftur. En þegar hann var orðinn 18 ára var honum ekki nóg að kvelja og pína. Hann framdi fyrsta morðið árið 1992.

Sama ár var einhver illræmdasti raðmorðingi Rússlands, Andrei Chikatilo, dæmdur fyrir 52 morð og rússneskir fjölmiðlar hafa leitt að því getum að Pichushkin hafi viljað slá þetta hroðalega ,,met“.

Taflborðið

Taflborð dauðans.

Flest af fórnarlömbum Pichushkins (en alls ekki öll) voru húsnæðislausir eldri karlmenn, sem hann bauð ókeypis vodka. Eftir að hafa drukkið og spjallað um stund dró Pichushkin fram hamar, og drap fórnarlömbin með því að mola sundur höfuðkúpuna. Hann tróð síðan vodkaflösku í gapandi sárið. Það varð hans ,,vörumerki“.

Eftir hvert morð fór hann heim til sín og setti nýtt númer á taflborðið sitt: Hann hafði einsett sér að drepa 64 — sem er tala reitanna á taflborðinu.

Síðasta fórnarlamb hans var Marina Moskalyova, 36 ára kona frá Tatarstan, sem hann bauð í lautarferð í Bitsa-garðinn. Hann sagði síðar við yfirheyrslur að hann hefði verið lengi að ákveða hvort hann ætti að drepa hana — og svo dró hann fram hamarinn…

Þetta var 16. júní 2006.

Íbúar í grennd við garðinn höfðu árum saman lifað í ógn og skelfingu við óþekkta ,,skrímslið í Bitsa-garði“ eins og morðinginn var kallaður í fjölmiðlum. Reyndar grunaði engan hve mörg fórnarlömb skrímslisins voru, enda hafði hann ýmist grafið þau eða hent í skolpræsi.

En líkið af Marinu fannst, og lögreglan komst á sporið með því að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum í neðanjarðarlestarkerfinu. Þar sást Marina ganga á vit örlaga sinna ásamt ungum karlmanni.

tumblr_lykxbw3UzV1r8c8t1o1_500

Hluti fórnarlamba ,,Taflborðs-morðingjans“.

Lögreglan hafði fljótlega hendur í hári Pichushkins, sem var handtekinn og húsleit gerð í íbúð hans. Fyrst taldi lögreglan að hann væri hugsanlega sekur um allt að tíu morð, en yfirheyrslurnar höfðu ekki staðið lengi þegar Pichushkin leysti frá skjóðunni. Hann sýndi enga iðrun og hann sagði að morðin væru margfalt fleiri en lögregluna grunaði.

Pichushkin leiddi nú lögregluna um Bitsa-garðinn, og sýndi þeim hvar hann hafði drepið fórnarlömb sín með hamrinum. Sumum hafði hann varpað lifandi í holræsin.

,,Ég get ekki hugsað mér lífið án þess að drepa,“ sagði skrímslið í Bitsa-garði, sem fjölmiðlar voru nú byrjaðir að kalla taflborðs-morðingjann. ,,Mér fannst eins og ég væri faðir þessa fólks, því það var ég sem opnaði þeim dyr að öðrum heimi.“

Hinn 24. október 2007 var Alexander Pichushkin dæmdur í ævilangt fangelsi. Búið var að afnema dauðarefsingu í Rússlandi og varð mál hans til þess að margir kröfðust þess að hún yrði tekin upp aftur.

Hann var dæmdur fyrir 49 morð og 3 morðtilraunir. Sjálfur sagðist hann hafa drepið 11 til viðbótar, alls 60, fyrir utan þá þrjá sem sluppu lífs úr klónum á honum.

Meðan á réttarhöldunum stóð var Pichushkin hafður í skotheldu glerbúri.

Vladimir Usov dómari var heilan klukkutíma að lesa dómsorðið. Pichushkin á enga möguleika á náðun og mun sitja fyrstu 15 árin í einangrun í öryggisfangelsi í norðurhluta Síberíu.

information_items_1352

Natalya kveðst ætla að giftast skrímslinu: Hann kom eins og sólargeisli inn í líf mitt.

Því er svo einu við að bæta að í febrúar á þessu ári sagði ljóshærð kona, búsett í Síberíu og eingöngu er nafngreind sem Natalya, að hún og skrímslið úr Bitsa-garði ætluðu að gifta sig.

Natalya upplýsti að hún hefði átt í bréfaskiptum við Pichushkin, og að þau væru afar ástfangin. Sjálf hefði hún átt erfitt í kjölfar ömurlegs hjónabands og erfiðs skilnaðar. Það hefði allt breyst þegar hún sá Pichushkin í sjónvarpinu.

,,Það var ást við fyrstu sýn. Hann varð sólargeislinn minn. Ég byrjaði að skrifa, hann svaraði, og við skiptumst á bréfum. Í bréfunum sínum sagði hann mér í smáatriðum frá morðunum sem hann framdi, og hve ,,áhugavert“ það væri fyrir hann að breyta lifendum í dauða…“

Facebook athugasemdir