Svarti dauði lagður að velli

Johannes Zukertort var einn litríkasti og hæfileikamesti skákmaður 19. aldar, fæddur í Lublin í Póllandi 7. september 1842 og lést 1888, aðeins 45 ára gamall. Sitthvað er óljóst um ævi þessa snillings, en víst er að hann var kominn á unglingsár þegar hann lærði mannganginn. Hann varð lærisveinn hins mikla Adolfs Anderssens og náði að leggja hann í einvígi 1871. Á næstu árum vann Zukertort marga glæsta sigra, en hann stússaði líka við sitthvað fleira, var um hríð í læknanámi en óvíst er um prófgráðu.

Zukertort og Steinitz mættust í fyrsta opinbera heimsmeistaraeinvíginu árið 1886. Zukertort byrjaði með látum og komst í 4-1 en mulningsvélin Steinitz sneri taflinu við og vann sannfærandi sigur, trúlega ekki síst vegna heilsubrests töframannsins frá Lublin. Hann var tungumálagarpur þótt óvíst sé að hann hafi talað 12 tungumál eins og sumar heimildir halda fram. Þá ganga miklar sögur af hermennsku Zukertort, en þar er sömuleiðis nokkur vafi um innistæðuna.

En ekki þarf að efast um snilld hans í skák dagsins, sem tefld var gegn Joseph Henry Blackburne 1883. Blackburne (1841-1924) var í hópi fremstu meistara á sínum tíma og var annálaður blindskákmaður. Hann var kallaður Black Death, en hér mátti sjálfur svarti dauði sín lítils gegn Zukertort!

Facebook athugasemdir