Stríðshetjan sem vann Fischer — Drepinn á skrifstofu skáktímarits og troðið inn í peningaskáp

Shakespaere

Turner vann Fischer tvisvar, en tapaði aldrei. Hér er eina jafnteflisskák þeirra. Síðasta umferð bandaríska meistaramótsins 1958. Jafntefli tryggði Fischer fyrsta titil Bandaríkjameistara.

Hann lærði að tefla þar sem hann lá 19 ára gamall á hersjúkrahúsi í seinni heimsstyrjöldinni árið 1943. Hann hafði barist af hreysti, fengið í sig sprengjubrot og lá nú í sjúkrarúminu og hafði ekkert við líf sitt að gera. Hann drap tímann með skák.

Sjaldgæft er að þau sem læra skák svo seint nái langt, en Abe Turner var meðal undantekninganna. Hann varð góður. Hann náði kannski ekki í alveg fremstu röð, en hann var lærimeistari Fischers um hríð og tefldi oft á bandaríska meistaramótinu. Turner var myrtur á ritstjórnarskrifstofum Chess Review í New York. Morðinginn sagðist starfa á vegum bandarísku leyniþjónustunnar.

Turner náði um 2400 bandarískum skákstigum og var án vafa með styrkleika alþjóðameistara í betri kantinum. Skákstíll hans þótti reyndar ekki sérlega hrífandi: Hann reyndi allt til að vinna peð, skipti svo upp á sem allra flestum mönnum, og nuddaði fram vinning í endatafli.

Hann náði frábærum árangri í hraðskák og var alræmdur bragðarefur. Hann var fastagestur í Skák og Kotruklúbbnum við Times Square í New York, sem skákmenn kenndu reyndar við flær… Þarna kom Bobby Fischer oft þegar hann var gutti og var ,,lærisveinn“ hjá Turner.

Þeir Fischer og Turner tefldu þrjár kappskákir. Turner vann 2 og 1 lauk með jafntefli. Svo sannarlega glæsilegt skor gegn hinum mikla Fischer!

Sigurskákir Turners gegn Fischers voru báðar tefldar 1956, þegar Fischer var 13 ára. Hann var þá kominn í fremstu röð bandarískra meistara, en átti vitaskuld sitthvað ólært. Kannski bar ungur Bobby óttablandna virðingu fyrir gömlum læriföður. Skákirnar eru báðar stórskemmtilegar — við birtum þær hér í lokin.

turner

,,Harmleikur.“ Frétt af morðinu.

Þriðja skákin var þó sögulegust, þótt um væri að ræða bragðdauft 18 leikja jafntefli. Fischer hafði nú hvítt í fyrsta sinn gegn Turner, en þessum 15 ára slána var ekki efst í hug að hefna ófaranna gegn gamla hermanninum.

Skákin var nefnilega tefld í síðustu umferð á sjálfu bandaríska meistaramótinu 1958, og jafntefli dugði Fischer til að verða Bandaríkjameistari í fyrsta sinn.

Hann tók því enga áhættu gegn Turner, sem örugglega hefur verið ánægður með hlutdeild sína í ævintýralegum sigri piltsins frá Brooklyn.

Turner tók virkan þátt í skáklífinu í New York og varð ekki sjaldnar en fimm sinnum í 2. sæti á hinum sterku meistaramótum  Manhattan Chess Club . Sjálfur taldi hann 4. sæti á US Open 1955 vera sinn besta árangur. Skömmu síðar varð hann efstur á móti í San Diego, ásamt  William Lombardy og James T. Sherwin.

Haustið 1962 tók Turner til starfa á skáktímaritinu Chess Review sem Al Horowitz gaf út. Turner var 38 ára, ógiftur og barnlaus, og bjó með öldruðum föður sínum.

Turner hafði aðeins starfað á tímaritinu í þrjár vikur þegar húsvörðurinn sá blóðslettur á stífbónuðum ganginum. Blóðslóðin lá að peningaskáp á skrifstofu. Þangað hafði hinum 140 kílóa Turner verið troðið. En fyrst var búið að stinga hann 9 sinnum.

Skömmu eftir að lögreglan kom á vettvang var samstarfsmaður Turners handtekinn. Hann hét Theodore Smith og hafði nýlega útskrifast af geðsjúkrahúsi. Hann viðurkenndi fúslega að hafa drepið Turner — og hafði óvæntar skýringar á ódæðinu.

Morðið var framið í lyftu í byggingunni þar sem skáktímaritið var til húsa. Smith dró líkið úr lyftunni, eftir gangi og inn á skrifstofu þar sem hann faldi það í peningaskápnum. Blóðpollarnir í lyftunni og á ganginum komu hinsvegar húsverðinum á sporið, svo aðeins leið hálftími frá því Smith myrti Turner þangað til líkið fannst.

Morðinginn sagði lögreglunni jafnframt að leyniþjónusta Bandaríkjanna hefði gefið sér fyrirmæli um að drepa Turner, þar sem hann væri kommúnisti.

Útför Turners var hin virðulegasta, að viðstöddum 200 gestum.

 

Facebook athugasemdir