Strákurinn úr Grímsey sem bakaði biskupinn

15 (2)

Grímsey er útvörður Íslands í norðri. Þar hafa löngum gengið sagnir um sterka skákmenn.

Miklum sögum hefur farið gegnum aldirnar af skáksnilld Grímseyinga. Willard Fiske heillaðist af goðsögninni um skáksnillingana á heimskautsbaugi, og safnaði öllum tiltækum heimildum um skáklíf í Grímsey. Hér er bráðskemmtileg þjóðsaga, sem Íslendingar í Kaupmannahöfn létu Fiske fá. Hér segir frá ungum skáksnillingi úr Grímsey:

Fjórtán ára gamall drengur kom í fylgd föður síns heim á biskupssetrið á Hólum. Þetta var fyrsta ferð drengsins til lands og hann hafði ekki tileinkað sér almenna mannasiði og sýndi tignarfólki ekki tilhlýðilega virðingu.

En eitt hafði hann lært og það var að tefla. Þeir feðgar námu staðar fyrir framan biskupssetrið ásamt fleira fólki. Þegar biskupinn gekk hjá tóku allir ofan nema strákurinn. Þegar einn viðstaddra ávítaði hann spurði hann föður sinn hver þetta væri.

2222 2 118

Willard Fiske 1831-1904, hinn mikli velgjörðarmaður Íslands og vinur Grímseyjar.

„Þetta er biskupinn, kjáninn þinn,“ sagði faðir hans, „æðstur allra prestanna á Íslandi.“

„Nú já, biskupinn. Teflir hann vel?“ sagði strákur en bætti svo við,,jú hann hlýtur að gera það því presturinn okkar er næstbesti skákmaðurinn í Grímsey.“

Þessi ummæli bárust til eyrna biskupnum og hann sendi eftir stráknum og spurði hann: „Um hvað varst þú að spyrja hérna áðan?“

Drengur svaraði: „Ég spurði bara hvort þú værir góður í skák því ef þú ert það vildi ég gjarnan fá að tefla við þig.“

Nú vildi svo til að biskupinn henti skemmtan að tafli og þóttist kunna talsvert fyrir sér í þeirri list. Hann hafði gaman af þessum frakka strák og mælti svo fyrir að sótt yrði tafl handa þeim. Þeir tóku nú til að tefla og vann strákur þrjár skákir í röð.

lewis_chess_pieces

Lewis taflmenn. Kannski teflu Grímseyingar með slíkum mönnum fyrr á öldum?

Það þykknaði nokkuð í biskupi við ófarirnar og hann spurði hvar strákur hefði lært að tefla.

„Út í Grímsey, hjá föður mínum og öðru fólki þar,“ svaraði strákur.

„Mér finnst trúlegra,“ sagði biskupinn með þjósti, „að þú hafir lært skákina af djöflinum og þú hafir ekkert sinnt um bænirnar þínar.“

„Nú, ef svo er,“ sagði strákur, „ætti ég að geta unnið þann náunga því ég get unnið prestinn, sem er mjög góður og lítillátur, en hann getur unnið alla aðra en mig.“

Þegar biskipinn heyrði svar drengsins komst hann aftur í gott skap og bauð honum að dvelja á Hólum um hríð. Það kom svo í ljós að drengur var vel gefínn og var hann þá settur til mennta í stólsskólanum og gerðist síðar góður klerkur.

Facebook athugasemdir