Hrafn og Justus Hansen, þingmaður og sveitarstjórnarfulltrúi. Tillaga hans um skákkennslu í öllum skólum fjölmennasta sveitarfélags Grænlands hefur nú verið samþykkt.

Stórtíðindi í skáklandnámi Hróksins á Grænlandi: Skák verður kennslugrein

Hrafn á fundinum með utanríkisráðherra num.

Liðsmenn Hróksins og Kalak áttu í morgun fund með Ane Lone Bagger, utanríkis-, mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands. Hrafn Jökulsson, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt og Stefán Herbertsson hittu ráðherrann og flesta æðstu embættismenn hennar. Fundurinn var afar ánægjulegur og margt bar á góma: Fimmtán ára starf Hróksins á Grænlandi, sundkrakkaverkefni Kalak og ýmis samfélagsverkefni sem félögin standa að.

Hrafn sagði í upphafi fundar að markmiðið væri ekki einungis að útbreiða skák á Grænlandi, og bjóða grænlenskum börnum til Íslands, heldur að efla vináttu og samvinnu nágrannaþjóðanna í norðri á sem flestum sviðum. Íslendingar gætu margt af Grænlendingum lært, og vonandi væri það gagnkvæmt.

Meðal þess sem bar á góma á fundinum var að taka upp skákkennslu í grunnskólum Grænlands, enda sýna fjölmargar rannsóknir að skákkunnátta bætir námsárangur, fyrir utan að vera bráðskemmtilegt alþjóðlegt tungumál sem allir geta tileinkað sér. Þá voru ræddar leiðir til að Grænland geti orðið fullgildur aðili að FIDE, alþjóðlega skáksambandinu, og sent lið til keppni á Ólympíumótinu í skák.

Ráðherrann og samstarfsmenn hennar sýndu mikinn áhuga á að skákvæða grunnskóla Grænlands og koma landinu á heimskortið í skák. Jafnframt voru ýmis önnur mál rædd, ekki síst leiðir til að auðvelda ferðalög milli landanna, og auka samskiptin á öllum sviðum, allt frá menningu til viðskipta.

Hrafn, Ane utanríkisráðherra, og Stefán með kópaskinnið góða sem er mjög eftirsótt í grænlenska þjóðbúninga.

Leiðangursmenn færðu ráðherranum að gjöf útskorinn hrók eftir handverks- og listamanninn Valgeir Benediktsson frá Árnesi í Trékyllisvík og skinn af íslenskum landselskópi, sem mjög eru eftirsótt í grænlenska þjóðbúninga.

Nú stendur fyrir afgreiðsla fjárlaga á Grænlandi, og mestur annatími ársins hjá stjórnmálamönnum, en ráðherrann gaf sér góðan tíma með liðsmönnum Hróksins og Kalak. Hún lýsti yfir stuðningi við skákvæðingu grænlenska skólakerfisins, sem og sérstakri hrifningu á sundkrakkaverkefninu, en síðustu 13 ár hefur Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, boðið 11 ára börnum til Íslands að læra sund og kynnast íslensku samfélagi, en það er einmitt Stefán Herbertsson sem er upphafsmaður og drifkraftur þess verkefnis.

Þegar fundinum lauk gengu Hróksliðar beint í fangið á Justus Hansen, þingmanni frá Tasiilaq og fulltrúa í sveitarstjórn Sermersooq, langfjölmennasta sveitarfélags Grænlands. Justus hefur árum saman verið einn dyggasti

Birte Nielsen formaður Krabbameinsfélags Íslands veitir viðtöku 1000 slaufum frá Krabbameinsfélagi Íslands, til að selja í fjáröflunarskyni.

liðsmaður Hróksins á Austur-Grænlandi, og nú gat hann fært þau gleðitíðindi að tillaga hans um skákkennslu í öllum grunnskólum sveitarfélagsins verði tekin upp.

Þetta eru sannkölluð tímamót í skáklandnáminu á Grænlandi. Í framhaldinu munu Hróksliðar vinna með sveitarfélaginu, námsgagnastofnun Grænlands, skákfélögum á Grænlandi og fleirum að því að útbúa kennsluefni og hefja þjálfun kennara.

Aðeins fimm sveitarfélög eru á Grænlandi, og fylgi hin fordæmi Sermersooq verður Grænland eina landið í heiminum, fyrir utan Armeníu, til að vera með skák á stundatöflunni.

Heimsókn Hróksins og Kalak til Nuuk er undir merkjum Air Iceland Connect, og á laugardag mun Hrafn tefla fjöltefli í verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar.

Eitt af fjölmörgum sérverkefnum leiðangursmanna var að færa Krabbameinsfélagi Grænlands 1000 bleikar slaufur frá Krabbameinsfélagi Íslands. Birte Nielsen formaður félagsins tók við gjöfinni, og verða slaufurnar seldar í fjáröflunarskyni, en krabbamein færist mjög í vöxt á Grænlandi og dánartíðni af völdum krabbameins er sú langhæsta á Norðurlöndum.

Kristjana Motzfeldt og Vivian Motzfeldt forseti grænlenska þingsins og fv. utanríkisráðherra.

Fyrstu slaufuna hlaut Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, og fv. utanríkisráðherra sem einmitt flutti setningarræðu á Air Iceland Connect hátíðinni í Nuuk í vor. Vivian kvaðst mundu bera slaufuna á öllum þingfundum, og hvetja landa sína til að taka þátt í þessu fjáröflunarátaki í boði hinna íslensku systursamtaka.

Þetta er sjötta ferð Hróksins og Kalak til Grænlands á þessu ári, og sú sjöunda verður 12. desember þegar Hrókurinn, Kalak, Air Iceland Connect og fjöldi einstaklinga og fyrirtækja færa öllum börnum í Kulusuk, sem er næsti bær við Ísland, jólagjafir.

 

Facebook athugasemdir