Stórskemmtileg skemmtikvöld hjá T.R.

Jón Viktor með félagsfánann í bakgrunni. Jón er nýgenginn aftur í sitt uppeldisfélag.

Jón Viktor með félagsfánann í bakgrunni. Jón er nýgenginn aftur í sitt uppeldisfélag.

Taflfélag Reykjavíkur hefur farið vaxandi á síðustu misserum undir styrki stjórn hins metnaðarfulla Björns Jónssonar formanns. Eftir mögur ár er félagið að styrkjast og eflast á öllum sviðum. Í gær varð félagið Hraðskákmeistari Taflfélaga árið 2014 eftir harða baráttu í úrslitaviðureign við Huginn. Einnig virðist félagið ætla að blanda sér í baráttuna á Íslandsmóti Skákfélaga en nokkuð er síðan félagið vann titilinn síðast eftir að hafa verið nánast áskrifandi að titlinum á síðustu öld.

Barnastarfið og öll þjálfun er einnig í miklum vexti og metnaðurinn þar ekki síður mikill og flottur. Eins virðist starfsemin í húsnæðinu öll vera að styrkjast. Gallerí Skák hefur tekið yfir fimmtudagskvöldin og eru þar með sín skemmtilegu 10 mínútuna mót sem henta vel áhugaskákmönnum af flestum ef ekki öllum styrkleikastigum. Mótahaldið hefur einnig verið á uppleið. Haustmótið og Skákþingið á sínum stað auk þess sem alþjóðleg mót var haldið fyrir ekki svo löngu og WOW-Air mótið kom einstaklega sterkt inn í dagskránna.

Félagið hefur einnig staðið fyrir skemmtikvöldum sem fara fram að jafnaði einu sinni í mánuði. Á þessum kvöldum hefur jafnan verið boðið upp á frumleg og skemmtileg mót. Hin svokallaða ‘Fischer Random’ skák hefur fengið sitt mót, bæði í einstaklings og liðakeppni og eins hefur hið skemmtilega form Heili & Hönd fengið sitt mót. Síðastliðið föstudagskvöld var boðið upp á ansi skemmtilegt mót sem fékk heitið „Mórinn 2014“

Mótið var byggt upp á skemmtilegum skákstíl Alexanders Morozevich frá Rússlandi. Sá hefur alla tíð verið þekktur fyrir skemmtilegan og hvassan sóknarstíl og frumlegar hugmyndir í byrjunum. Mórinn eins og hann er kallaður hefur teflt á Íslandi og deilir jafnframt afmælisdegi með Hannesi Hlífari Stefánsson, Jóni Viktori Gunnarssyni og Sævari Bjarnasyni. Athyglisvert er að að Hannes og Jón Viktor röðuðu sér í efstu sæti mótsins!

Fyrirkomulag var þannig að í hverri umferð voru tefldar tvær skákir við hvern andstæðing. Fyrir hverja umferð var tveimur stöðum varpað upp á skjá:

Morinn2014_5

Hátturinn var svo þannig að sá er hafði svart valdi hvora stöðuna skildi tefla! Þannig var hægt að e.t.v. velja stöður sem hentuðu hverjum og einum en að sama skapi voru flestar stöðurnar með miklar flækjur og t.a.m. var undirritaður þvingaður til að hefja leik á mannsfórn í seinni skák 1. umferðar!

Hvað er í gangi? Keppendur höfðu bæði gagn og gaman af

Hvað er í gangi? Keppendur höfðu bæði gagn og gaman af

Niðurstaðan var ansi skemmtilegt mót og mörg óvænt úrslit litu dagsins ljós. Á endanum var þó Hannes Hlífar of sterkur og hafði sigur með 11 vinninga af 12 mögulegum! Fékk hann að launum sæmdarheitið „Mórinn 2014“ ásamt forláta heimatilbúinni kórónu!

Morinn2014_1Stórskemmtilegt mót og eitthvað sem hægt er að mæla með. Stöðurnar sköpuðu skemmtilegar umræður eftir mót og margir þurftu að fara tölvuert út fyrir sinn þægindaramma í skákstíl! Þó þessir skákmenn hafi haft gaman af mótinu var einróma stuðningur við að halda svipað mót með stöðum úr skákum Ulf Andersson…hver myndi ekki vilja vera „Úlfurinn 2014 „!

Skemmtilegt fyrirkomulag og örugglega hægt að fá svipaða stemmningu með einhverskonar þemamótum úr völdum byrjunum. Undirritaður hvetur Taflfélög og heimaklúbba til að krydda starfsemina með skemmtilegum nýjungum í þessum dúr, getur ekki klikkað!

 

Allar myndir: Björn Jónsson

Facebook athugasemdir