Stórfréttir: Judit Polgar hætt – Besta skákkona sögunnar – ,,Þú ert ekki stúlka, þú ert undantekning!“

5490938

Judit hefur sigrað Spassky, Kasparov, Karpov, Anand og Carlsen.

Judit Polgar fremsta skákkona sögunnar hefur upplýst að hún ætli að hætta atvinnumennsku eftir Ólympíumótið í Tromsö, sem lýkur á fimmtudag. Judit, sem er 38 ára, hefur verið besta skákkona heims í 25 ár, og sigrað flesta bestu skákmenn heims, m.a. KarpovKasparov, Anand og Carlsen.

Í viðtalinu við Times lýsir Judit Polgar bernsku sinni og æskuárum. Hún er yngst þriggja systra en engin þeirra fór í venjulegan skóla. Hámenntaðir foreldrar þeirra kenndu þeim heima og þar var aðaláherslan lögð á skák. Judit varð stórmeistari aðeins 15 ára, og sló þar með met sem sjálfur Bobby Fischer átti. Það var einmitt Fischer sem eitt sinni sagði í viðtali: ,,Þær eru lélegar, allar konur. Þær eru heimskar í samanburði við karlmenn. Þær ættu ekki að tefla skák.“

Judit er eina konan sem komist hefur yfir 2700 stiga múrinn. Hæst náði 2735 stigum árið 2005. Hún var þá í 8. sæti heimslistans.

033 Polgár portraits

Undrasysturnar Susan, Judit og Sofia.

Polgar-systurnar komu til Íslands ásamt foreldrum sínum árið 1988 og tóku m.a. þátt í Reykjavíkurskákmótinu.

Illugi Jökulsson, skákbókahöfundur, rifjaði heimsókina upp í samtali við Hrókinn.is. Judit var þá á tólfta ári, Sofia var 14 ára og Susan 19 ára.

,,Það er ógleymanlegt þegar Polgar-sirkusinn kom í fyrsta sinn til Íslands. Þær tefldu þá í kjallaranum á Loftleiðahótelinu og létu stórvaxna íslenska karla svitna og pínast við skákborðið. Þær léku leiftursnöggt og gengu svo pískrandi um og flissuðu og teiknuðu prinsessumyndir á skólatöflur sem voru þarna í kjallaranum.“

Þess má geta að einn ungur maður náði að sigra Judit Polgar á Reykjavíkurmótinu, og er Tómas Hermannsson eini Íslendingurinn sem hefur sigrað ungversku skákdrottninguna í kappskák.

Judit segir í viðtalinu við enska stórblaðið að hún ætli nú að helga sig Judit Polgar Foundation, sem vinnur að útbreiðslu skákarinnar meðal barna og ungmenna.

10403403_830277296983650_7499300014092475684_n

Judith og Ernő Rubik. Hún komst hæst í 8. sæti heimslistans.

Þá kveðst hún nú fá tíma til að sinna börnum sínum betur. Polgar er gift og á 10 ára son og 8 ára dóttur. Atvinnumennsku í skák fylgja endalaus ferðalög, vítt og breitt um heiminn.

Af viðtalinu má ráða að fremsta skákkona heims telur djúpstæða karlrembu ríkja í skákhreyfingunni. Karlaveldið í skákheiminum er nánast algjört, og Judit upplifði sig sem nokkurskonar viðundur. Þjálfarinn hennar sagði eitt sinn: ,,Þú ert ekki stúlka — þú ert undantekning!“ Judit segist hafa áttað sig á því með árunum að mannkynið skiptist í karla, konur og Judit Polgar!

Judit segir að til þess að konur geti látið meira að sér kveða í skákinni eigi að hætta aðgreiningu kynjanna, og láta stúlkur og drengi tefla á sömu mótum. (Slíkt er reyndar alsiða á Íslandi, þótt líka séu haldin sérstök skákmót fyrir stúlkur og konur.) Sjálf hefur Judit nær alfarið sniðgengið skákmót sem eru eingöngu ætluð konum.

Aðspurð um hvenær kona verði í fyrsta sinn heimsmeistari segir hún: ,,Ég vona einhverntíma næstu 20 árin. En ég er samt ekki viss um að hún sé fædd ennþá.“

[slideshow_deploy id=’1540′]

 

Bobby Fischer - Benson

Bobby Fischer: ,,Konur geta ekkert í skák.“ Judit leiðrétti þann misskilning.

Væntanlega munu einhverjir álykta að Judit hafi ákveðið að draga sig í hlé áður en Hou Yifan næði af henni hásætinu. Kínverska undrastúlkan er ekki bara heimsmeistari — hún nálgast Judit óðum á stigum.

Sjálf segir Judit að erfitt sé að viðhalda þeirri gríðarlegu einbeitingu, sem hafi komið henni í fremstu röð.

Hún ætlar því að hætta á toppnum.

Það verður gaman að sjá hvort hún verður í ungverska liðinu í lokaumferðinni í Tromsö.

Og það verður ævintýralegur endir á ævintýralegum skákferli ef Judit Polgar stígur á verðlaunapall í Tromsö ásamt liðsfélögum sínum í ungversku sveitinni.

Hún segir: ,,Þú þarft að vera sigurvegari. Þú þarft að vera ákveðnari, þú þarft að vinna meira, og ef þú tapar áttu að standa upp og berjast aftur og aftur.“

Meira:

Skák Tómasar Hermannssonar við Judit Polgar

[slideshow_deploy id=’1580′]

 

Facebook athugasemdir