STOFNUN SKÁKSÖGUFÉLAGS

Í tengslum við 150 ára afmælismót Einars Benediktssonar, skálds, hinn 1. nóvember sl.,  á veitingastaðnum Einari Ben við Ingólfstorg,  sem sem ber nafn hans í miðborg Reykjavíkur, var að frumkvæði Hrafns Jökulssonar og fleiri, stofnað sérstakt áhugamannafélag til að vinna að því að sögu manntaflsins og skáklistarinnar á Íslandi verði haldið sem allra best til haga og á lofti.  

Skáksögufélaginu er falið að vinna að  varðveislu og skráningu skákminja og muna sem og að stuðla að því að gögn sem varða íslenskt skáklíf að fornu of nýju verði flokkuð og saga þess og mestu skákmeistara skráð, standa fyrir sýningum ofl. 

Stofnskrá og lög Skáksögufélagsins. 2.11.2014 23-19-20

Stofnskrá og lög Skáksögufélagsins

Stofnskrá Skáksögufélagsins undirrituðu þeir: Friðrik Ólafsson; Hrafn Jökulssson; Björn Jónsson; Guðmundur G. Þórarinsson og Einar S. Einarsson, sem jafnframt var kjörinn fyrsti forseti þess.

Á þriðja tug áhugamanna gerðust stofnfélagar á fundinum.

Í stofnskrá og lögum Skáksögufélagsins, segir m.a.:

Félagið heitir Skáksögufélag Íslands.

Tilgangur félagsins er að stuðla að rannsóknum og fræðslu sem varða skáksögu Íslands að fornu og nýju.  Þá skal félagið beita sér fyrir varðveislu hverskonar skákminja og að gögn sem varða íslenskt skáklíf verði flokkuð og saga þess og mestu skákmeistara skráð.  Félagið gengst fyrir og styður  útgáfu, málþing og sýningar sem varða sögu manntaflsins á Íslandi og helstu skákviðburða.   

Allir áhugamenn um sögu skáklistarinnar  á Íslandi geta gerst félagar í Skáksögufélaginu. Áhugasamir geta skráð sig sem stofnfélaga til áramóta með tölvupósti til stjórnarmanna eða i kommentareit við fréttina.

Stjórn Skáksögufélagsins skal skipuð 5 mönnum:  Forseta, varaforseta, ritara, gjaldkera og minjaverði. Forseti skal kjörinn  á aðalfundi til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn eru kjörnir til 1 árs og skipta með sér verkum. Forseti boðar stjórnarfundi að jafnaði einu sinni í mánuði en annars eftir því sem  þurfa þykir.  Stjórnin er ályktunarfær séu þrír stjórnarmenn mættir til fundar.  Daglega umsjón félagsins og eigna þess annast forseti og er firmaritun jafnframt í hans höndum.

stjórn Skáksögufélagsins 2014 3.11.2014 13-19-20

Stjórn Skáksögufélagsins

Stjórnar- og reikningsár Skáksögufélagsins er almanaksárið. Á aðalfundi félagsins, sem haldinn skal í mars mánuði ár hvert,  skal stjórn gera upp árangur liðins árs og leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins.   Fundinn skal boða með tryggum hætti með 14 daga fyrirvara. Aðeins fullgildir félagsmenn eru atkvæðabærir á aðalfundi

Stjórn Skáksögufélagsins ákveður hæfilegt árgjald skráðra félaga. Þeir sem eru 67 ára greiða hálft gjald en þeir sem eru yfir áttrætt skulu vera gjaldfrjálsir, en er eigi að síður heimilt að styðja félagið með framlögum. Jafnframt skal stjórnin leitast við að afla félaginu styrkja og stuðningsaðila til að efla hag þess og kosta verkefni á þess vegum.

Fyrstu stjórn Skáksögufélagsins skipa: Einar S. Einarsson, fv. forstjóri og fv. forseti SÍ; Jón Þ. Þór, sagnfræðingur; Róbert Lagerman, forseti Vinaskákfélagsins, Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fv. forseti SÍ og Jón Torfason, íslenskufræðingur og skjalavörður.

Facebook athugasemdir