Sterkur biskup Artúrs í Reykjavík

Reykjavíkurskákmótið stendur nú sem hæst. Enn eitt árið hefur fjöldi keppenda náð nýjum hæðum og allt stefnir í afar spennandi mót. Teflt er í glæsihýsinu Hörpu og veislunni er útvarpað og sjónvarpað um allan heim. Mótið í ár er tileinkað goðsögninni og heiðursborgara Reykjavíkur, Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara íslendinga sem nýverið fagnaði 80 ára afmæli.

Hægt er að fylgjast með útsendingum á heimasíðu mótsins.

Önnur goðsögn í lifanda lífi er meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu – stórmeistarinn Artúr Mayakovich Yusupov (2573). Artúr, sem er fæddur í Moskvu þann 19. febrúar árið 1960, varð heimsmeistari ungmenna árið 1977 og hlaut að launum sæmdarheitið alþjóðlegur skákmeistari (IM). Árið 1980 var hann svo útnefndur stórmeistari. Strax var ljóst að hann myndi ekki láta þar við sitja, enda varð hann fljótlega einn af sterkustu skákmönnum heims. Í þrígang féll hann úr keppni í fjórðungsúrslitum á áskorendamótum, sem voru undanfari heimsmeistaraeinvígis. Artúr varð aldrei heimsmeistari.

Artúr er enn virkur skákmaður og sinnir einnig skákfræðiskrifum af miklum móð og er á þeim velli einn af virtustu fræðimönnum heims. Hann sinnir jafnframt skákþjálfun og er í sérflokki á því sviðinu.

Víkur nú sögunni að 2. umferð Reykjavíkurskákmótsins 2015. Vinur okkar var með svart gegn Júlíu Kochetkovu (2288), stórmeistara kvenna frá Slóvakíu. Upp kemur spánskur leikur (Ruy Lopez – 1.e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5) og virðist sem skákin ætli að taka friðsamlega stefnu. Eftir uppskipti í endatafl kemur þó annað í ljós – fræðimaðurinn ber strax kennsl á veikleika hvítu stöðunnar – svörtu reitina. Það var líklega ekki tilviljun ein sem réði uppskiptunum!

Facebook athugasemdir