Sterkasta skákmót allra tíma: Setja óeirðir strik í reikninginn, eða Bárðarbunga? – Vinnur Nakamura gegn Carlsen?

2013-09-14_220924

Höfuðbúnarður Hikaru Nakamura dugði ekki til sigurs í fyrra

Í næstu viku, eða þann 27. ágúst, hefst Sinquefield Cup sannkallað ofurmót í borginni Saint Louis í Missouri í Bandaríkjunum. Mótið er framhald frá í fyrra, en mótið það ár markaði tímamóti í bandarískri skáksögu, bæði sem sterkasta skákmót allra tíma þar í landi og sem fyrsta ofurstórmeistaramótið í borginni Saint Louis.

Keppendalistinn var ekki af lakari endanum í fyrra; þátt tóku í aldursröð: Gata Kamsky, Levon Aronian, Hikaru Nakamura og Magnús Carlsen. Magnús sigraði nokkuð örugglega með 4,5 vinningum af 6 sem jók sjálfstraust hans þónokkuð fyrir næstu átök þess árs, heimsmeistaraeinvígið við Viswanathan Andand sem fram fór tveim mánuðum síðar, eða í nóvember. Frægt er hvernig sú orrusta fór. Lokastaða mótsins í fyrra var: Magnús Carlsen með 4,5 af 6, Hikaru Nakamura 3,5, Levon Aronian 2,5 og Gata Kamsky rak lestina með 1,5.

Sinq Cup logo with spaceMótið í ár verður heldur sterkara en í fyrra og í þetta skiptið taka sex ofurstórmeistarar þátt. Mótshaldarar lýsa mótinu sjálfir sem sterkasta skákmóti allra tíma enda eru meðalstig þátttakenda 2802 stig! – Höfundur lætur kyrrt liggja að greina þá staðhæfingu nánar, en bendir þó á meinta skákstigaverðbólgu sem skekkir samanburð við mót fyrri tíma, eftir stendur að mótið er vissulega sterkasta mót allra tíma ef skákstig eru notuð sem mælikvarði.

 

Veglegur verðlaunapottur er í mótinu. Þannig fær sigurvegarinn 100.000 $ eða 11.570.000 krónur! Potturinn er í heildina 315.000 $ eða 36.445.500 krónur sem skiptast þannig:

 1. 100.000 $
 2. 75.000 $
 3. 50.000 $
 4. 40.000 $
 5. 30.000 $
 6. 20.000 $

Líkt og sagði er keppendalistinn í ár ekki keyptur í Bónus, hann skipa:

 1. Magnus Carlsen frá Noregi – 23 ára
 2. Levon Aronian frá Armeníu – 31 árs
 3. Fabiano Caruana frá Ítalíu og Bandaríkjunum – 22 ára
 4. Hikaru Nakamura frá Bandaríkjunum – 26 ára
 5. Vaselin Topalov frá Búlgaríu – 39 ára
 6. Maxime Vachier-Lagrave frá Frakklandi – 23 ára.
ferguson

Bærinn Ferguson er ofarlega til vinstri á kortinu.

Ekki er hægt að minnast á mótið án þess að líta á mótsstaðinn, borgina Saint Louis í Bandaríkjunum, en mótið fer fram í „Chess Club and Scholastic Center of Saint Louis“. Borgin hefur verið nokkuð í fréttum undanfarið vegna mikilla óeirða sem átt hafa sér stað eftir að eftir að lögreglumaður skaut til bana óvopnaðan blökkumann á unglingsaldri í bænum Ferguson. Mikil reiði blossaði þá upp meðal fólks sem endaði í óeirðum í bænum Ferguson í útjaðri Saint Louis og kalla þurfti til heimavarnarlið Bandaríkjanna til að lægja öldurnar. Ástandið er enn ótryggt.

Það sem gæti haft áhrif á mótshaldið er risinn undir Vatnajökli sem virðist vera að vakna af værum blundi. Það yrði ekki í fyrsta sinn sem íslenskt eldfjall hefur áhrif á stórmót í skákheimum, en árið 2010 þurfti þáverandi heimsmeistari að láta sér lynda það að keyra til Búlgaríu þegar Eyjafjallajökull steinrotaði flugsamgöngur í Evrópu.

Gaman er að segja frá því að Saint Louis borg hefur verið útnefnd Skákhöfuðborg Bandaríkjanna en Öldungadeild Bandaríska þingsins samþykkti tillögu þess efnis í maí og tilkynnti ákvörðun sína við upphaf bandaríska meistaramótsins í skák sem ávallt er haldið í Saint Louis. Útnefningunni er ætlað að auka við skákáhuga landsmanna ásamt því að vera liður í stefnu stjórnvalda í átaki til að hvetja skóla og samfélagsmiðstöðvar til að taka upp skákkennslu.

 

Spáð fyrir um úrslit

Appelsínusafinn verður vafalítið á borðinu

Appelsínusafinn fær vafalítið að fljóta með til Ameríku

Fyrirfram hlýtur Magnús Carlsen að vera sigurstranglegastur, þó með fyrirvara um súrefnismettun skákstaðarins enda grundvallarforsenda skýrrar hugsunar. Það er þó ekki endilega sjálfgefið, Magnúsi hefur gjarnan gengið brösuglega gegn vini sínum Fabiano Caruana; á þessu ári hefur Caruana unnið þrjár gegn Magga: hraðskák og atskák í Zurich Chess Challenge í upphafi árs og kappskák í minningarmótinu um Gashimov í apríl s.l.. Magnús hefur þó unnið heldur fleiri á árinu eða fimm í heildina, kappskákir í Zurich, minningarmótinu um Gashimov í apríl og fyrr í ágúst vann Magnús öruggan sigur á Ólympíumótinu. Þess fyrir utan vann Maggi hraðskák gegn Caruana í No Logo mótinu í Noregi og atskák á heimsmeistaramótinu í atskák í Dubai. 5 – 3 fyrir Magga í ár og 13 – 5 fyrir Magga í heildina. Höfundur spáir Magnúsi sigri.

SONY DSC

Hikaru Nakamura

Hikaru Nakamura sem er búsettur í Saint Louis, skákhöfuðborg Bandaríkjanna, er mikið ólíkindatól og til alls líklegur. Hann virðist samt ekki eiga roð í Magnús, en líkt og frægt er þá hefur sá fyrrnefndi aldrei unnið Magga í kappskák. Nakamura er líklegur til þess að vaða yfir aðra keppendur og er honum því spáð öðru sætinu, eftir tap gegn Magnúsi.

Levon_Aronian_2011

Levon Aronian

Levon Aronian, gjarnan nefndur nr. 2, er augljóslega rótsterkur. Það hefur þó alltaf háð honum að hann hefur of gaman aðessu, þykir skemmtilegt að tefla en litlu breytir hvort hann vinnur eða ekki, vantar „killerinn“ í hann. Honum er spáð þriðja sæti eða neðar!

topalov03

Veselin Topalov

Aldursforsetinn Veselin Topalov er í hörkuformi, vann Ólympíugull fyrir árangur á fyrsta borði í Tromsö og virkar frískur. Hann hefur fá markmið önnur en að hafa gaman að þessu og tefla hressilega en hann er einn beittasti skákmaður samtímans, leiðist lítið að fórna sem endar gjarnan í flugeldasýningu. Dagsformið kemur til að skipta miklu máli í hans tilfelli, kannski meira en annarra enda skákstíllinn háður listrænu innsæi. Höfundur spáir Tópa í 2.-4. sæti.

phpWr9GOR

Fabiano Caruana

Fabiano Caruana er fæddur á Miami í Flórída og er þvi bandarískur ríkisborgari. Hann er jafnframt ítalskur ríkisborgari enda foreldrar hans ættaðir þaðan. Hann fluttist frá Bandaríkjunum til Ítalíu 10 ára gamall og teflir nú undir fána Ítalíu. Hann býr þó í smábæ á Spáni og þykir það ágætt. Frami Fabianós er örlítið frábrugðinn hinum ungu mönnunum, en hann varð stórmeistari mun seinna (eldri) en þeir og er í raun fyrst nú hin síðari ár að taka stökk í hóp þeirra bestu. Hann getur augljóslega unnið hvern sem er en getur líka verið brokkgengur á köflum. Höfundur spáir honum fimmta sætinu og tapi fyrir Magnúsi og Hikaru Nakamura.

Maxime Vachier-Lagrave

Maxime Vachier-Lagrave

Maxime Vachier-Lagrave hefur ekki enn stimplað sig inn í elítuna og er spáð neðsta sætinu.

Hver niðurstaðan verður breytir reyndar ekki öllu. Ljóst er að mótið verður ein alsherjar skákveisla sem allir ættu að fylgjast með og skrifað verður um hér á hrokurinn.is.

Hver er þín spá? Lesendum er boðið að taka þátt í skoðanakönnun um mótið hér neðarlega á forsíðunni.

 

Heimasíða mótsins

Tilkynning Öldungadeildar Bandaríska þingsins um Skákhöfuðborg

Facebook athugasemdir