Stekkjarstaur og félögum var ákaft fagnað við komuna til Kulusuk.

Stekkjarstaur á Grænlandi: Hrókurinn og Kalak færðu öllum börnum í Kulusuk jólagjafir

Jóhann Ingi og Vala Agnes með gjöf fyrir ungan grænlenskan vin.

Öll grunnskólabörnin í Kulusuk voru mætt á flugvöllinn nú á laugardag, þegar liðsmenn Hróksins og Kalak mættu með jólagjafir handa öllum börnum í bænum. Stekkjarstaur var laumufarþegi og sá um að útdeila gjöfunum með dyggri aðstoð starfsmanna Air Iceland Connect. Þetta er fjórða árið í röð sem Hrókurinn og Kalak færa börnunum í Kulusuk, sem er næsti bær við Ísland, glaðning í tilefni jólanna.

Íbúar í Kulusuk eru nú um 250 og þar af eru 64 börn. Um helmingur er á leikskólaaldri og þau fengu gjafirnar sendar heim, en grunnskólabörnin flykktust á flugvöllinn til að hitta Stekkjarstaur og félaga. Hrafn Jökulsson og Stefán Herbertsson, sem báðir eru liðsmenn Hróksins og Kalak, fóru í þennan stórskemmtilega leiðangur og nutu ómetanlegrar aðstoðar áhafnar Air Iceland Connect, þeirra Ragnars Arnarssonar flugstjóra, Jóhanns Inga Sigtryggssonar flugmanns og Völu Agnesar Oddsdóttur flugfreyju.

Blómin vöktu mikla gleði, enda sjaldséð á Grænlandi í skammdeginu.

Móttökunni í Kulusuk var stjórnað af Justine Boassen skólastjóra og Frederik eiginmanni hennar, kennara við skólans, en þau hafa um árabil verið mestar hjálparhellur Hróksins í þessu fallega grænlenska þorpi, sem státar af einum besta skóla Grænlands. Justine og Frederik voru leyst út með blómum, sem og starfsmenn flugvallarins, frá Grænum markaði. Vart er hægt að hugsa sér betri gjöf í skammdegismyrkri Grænlands en litríkan blómvönd.

Í pökkunum til barnanna í Kulusuk kenndi margra grasa, enda gáfu bæði fyrirtæki og einstaklingar góðar og nytsamlegar gjafir, leikföng, föt, gotterí og fleira sem tilheyrir jólunum. Þar átti prjónahópurinn góði í Gerðubergi, og aðrar íslenskar hannyrðakonur stóran hlut. Veglegust var gjöf frá Heiðbjörtu Ingvarsdóttur, eins af máttarstólpum Hróksins, sem lagði út fyrir spjaldtölvum fyrir níu börn í 9. bekk, og er þetta sannarlega ekki í fyrsta sinn sem Heiðbjört sýnir veglyndi í garð grænlenskra barna.

Ferð Hróksins og Kalak til Kulusuk nú í dag var sú sjöunda á árinu, og fjölmargar ferðir og hátíðir eru fyrirhugaðar á næsta ári.

Facebook athugasemdir