Spennan nálgast suðumark í Tromsö: Kínverjar í dauðafæri fyrir síðustu umferð —  Úkraína sigraði Rússa í kvennaflokki! — Ísland efst Norðurlanda!

220px-Yu_Yangyi

Nei, hann lék ekki aðalhlutverkið í kínversku útgáfunni af Me, Myself and Irene (Yu, Ming and Yifan). Vann engu að síður.

Þvílíkur dagur í Tromsö! Hinn tvítugi undradrengur Yu (2668) tryggði Kína sigur á firnasterkri sveit Frakklands, og fyrsta ólympíugull Kínverja er innan seilingar. Síðasta umferð mótsins verður tefld á fimmtudag.

Meðan Kínverjar murkuðu líftóruna úr franska liðinu gerðu Úkraínumenn og Azerar 2-2 jafntefli, en Ungverjar unnu góðan 3-1 sigur á Rúmeníu. Ungverjar eru nú komnir upp í 2. sætið, stigi á eftir Kínverjum.

Kúbverjar gjörsigruðu öfluga Georgíumenn, Pólverjar unnu Búlgara með minnsta mun og Bandaríkin lögðu Argentínu í viðureign þar sem bandaríski meistarinn Shankland vann enn einn sigurinn.

Kínverjar ríghalda í efsta sætið og eru með 17 stig, Ungverjar koma fast á hæla þeirra með 16 stig en átta! þjóðir koma þar á eftir með 15 stig og geta aðeins jafnað Kínverja, bregðist þeim bogalistin í lokaumferðinni. í 3.-10. sæti með 15 stig eru: Frakkar, Úkraína, Rússar, Bandaríkin, Úsbekistan, Indland Aserar og Pólverjar.

Strákarnir okkar!

Strákarnir okkar!

Íslendingar eru í 27. sæti með 13 stig og tróna á toppi „norðurlandamótsins“ eftir að hafa gert jafntefli við stórmeistarasveit Tyrkja. Hannes Hlífar vann sína skák gegn Dragan Solak og er nú með 6 vinninga eftir 8 skákir sem er árangur sem samsvarar heilum 2693 stigum! Hannes og Hjörvar Steinn eru báðir taplausir á mótinu — Helgi Ólafsson er það reyndar líka!

Fráfarandi Ólympíumeistarar Armena gerðu aðeins 2-2 jafntefli við unga og ferska sveit Víetnam. Akopian (2655) vann sína skák fyrir Úkraínu á 4. borð,i en alþjóðlegi meistarinn Nguyen (2507)  sigraði Movsesian (2655) á 3. borði. Skák er í stórsókn í Víetnam, eins og víðar í Asíu. Þeirra besti maður er Le (2710) sem er 23 ára.

[slideshow_deploy id=’1437′] (Myndir www.chess24.com)

R10_Erna_Solberg_Magnus_Carlsen_Ivan_Saric_000

Erna Solberg forsætisráðherra Noregs lék fyrsta leiknum fyrir Magga — Vonandi hefur hún leikið réttu peði!

Carlsen heimsmeistari mátti sætta sig við annað tap sitt á mótinu, nú gegn Króatanum Saric (2665) sem er í 71. sæti heimslistans. Saric er jafnaldri Carlsens, fæddur 1990, og varð heimsmeistari 18 ára og yngri 2008. Carlsen og Saric höfðu aldrei reynt með sér áður, en Króatinn tefldi eins og sá sem valdið hefur og beinlínis lék sér að heimsmeistaranum.
Noregur tapaði viðureigninni, sem þýðir að Íslendingar eiga mjög góða möguleika á að verða efstir Norðurlandaþjóða í Tromsö. Ísland gerði 2-2 jafntefli við Tyrkland, þar sem Hannes Hlífar Stefánsson var hetja okkar manna, lagði Solak (2632). Guðmundur Kjartansson tapaði, en Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson gerðu jafntefli í sínum skákum. Mjög góð úrslit fyrir íslenska liðið, sem var talsvert stigalægra á öllum borðum.

Olympiad round 10 592

Yfan vann en sveitin missti af tækifærinu!

Stórtíðindi urðu í kvennaflokki, þar sem sveit Rússlands tapaði fyrstu viðureign sinni á mótinu — fyrir Úkraínu! Lagno (2540) tefldi á 1. borði fyrir Rússa en hún var til skamms tíma ein besta skákkona Úkraínu, en skipti í vor yfir í herbúðir erkióvinanna. Lagno komst ekkert áleiðis gegn  Önnu Muzychuk (2555) og lyktaði skák þeirra með jafntefli. Úrslitin réðust á 4. borði, þar sem Zhukova (2468) sigraði Girya (2484).

Kínverska kvennasveitin, undir forystu heimsmeistarans Hou Yifan fékk því tækifæri til að komast upp að hlið Rússa, en mun stigalægra lið frá Spáni var kínversku stúlkunum erfiður ljár í þúfu. Yifan vann skák sína á 1. borði, en Tan tapaði á 3. borði. Jafntefli varð á öðrum borðum, og því fór viðureignin 2-2. Kínverska liðið klikkaði þannig í dauðafæri.

Dálítil tölfræði: Keppendur í opnum flokki og kvennaflokki eru samtals 1555. Þá eru ótaldir liðsstjórar, dómarar og fulltrúar á FIDE-þinginu, en alls eru skákgestir í Tromsö á þriðja þúsund.

Olympiad round 10 631

Sam Shankland heldur áfram að koma á óvart – 8,5 af 9 takk fyrir !

Alls eru 882 keppendur frá 172 löndum skráðir til leiks í opnum flokki.

256 stórmeistarar eru í þessum hópi, þar af 35 sem hafa 2700 skákstig eða meira.

Auk þess sitja 140 alþjóðameistarar að tafli í Tromsö, 113 FIDE-meistarar, 1 stórmeistari kvenna og 2 alþjóðameistarar kvenna.

Í kvennaflokki eru sveitir frá liðlega 130 löndum og keppendur þar eru alls 673.

Þarna eru 20 stórmeistarar, 38 alþjóðameistarar og 3 FIDE-meistarar. Auk þess 71 stórmeistari kvenna og 113 alþjóðameistarar kvenna.

Ólympíumótið í Tromsö nálgast nú hápunktinn. Á fimmtudag mun skákgyðjan Caissa ákveða lokaniðurstöðuna

Við verðum hinsvegar á vaktinni áfram og segjum ykkur fréttir af frábæru móti…

Nánar:

[slideshow_deploy id=’1438′]

Facebook athugasemdir