Sókndirfska Sævars

Kári Elíson skrifar

Kári Elíson skrifar

Allir íslenskir skákmenn þekkja á einn eða annan hátt til Sævars Bjarnasonar. Hann er búinn að vera virkur skákmaður í marga áratugi og hefur teflt yfir þúsund skákir reiknaðar til stiga. Sævar fagnaði á síðasta ári sextugsafmæli sínu og hefur nú pistill verið skrifaður um menn af minna tilefni en það.

Sævar sem varð alþjóðlegur meistari árið 1985 hefur unnið fjölda móta á ferli sínum og kann ég nú eiginlega ekki nægjanleg skil á öllum þeim sigrum. Sævar varð snemma mjög góður og varð Norðurlandameistari unglinga 1971. Skákmeistari Reykjavíkur varð hann 1982 og 1984 og hefur einnig orðið Skákmeistari TR og fleira.

world_open_1987Þó er það vitað mál að fræknasti sigur Sævars var í B flokki á World Open í Bandaríkjunum árið 1987 og vakti það mikla athygli á sínum tíma og geymist í fagurri minningu íslenskra skáksögu. Kappinn vann m.a. hinn kunna eldhuga Perenyi frá Ungverjalandi í skák sem gekk undir nafninu Fangelsaða drottningin og var birt í Mogganum.

Sævar hefur teflt á fjölmörgum alþjóðamótum í gegnum tíðina og veitt mörgum stórmeistaranum skráveifu. Hann hefur einnig verið virkur og vinsæll skákskríbent í DV hér áður og í Tímaritið Skák. Nú á dögum skrifar hann fróðlegar reynslusögur úr skákheiminum á síðuna Íslenskir skákmenn á Facebook og birtir þar þrautir og fleira.

Á seinni árum hefur Sævar verið þekktur fyrir að tefla eins og skriðjökull sem sígur áfram hægt og öruggt. Það er samt með hann eins og aðra gamla  reynslubolta að þeir kunna líka að tefla sómakæra sókn.

saevar_bjarnasonÞegar okkar jaxl var ungur tefldi hann Kóngsbragð og hvössustu afbrigðin bæði í Sikileyjarvörn og Franskri. Fyrir mér hefur alltaf ein skák Sævars verið í nokkru uppáhaldi sökum skemmtilegrar sóknartaflmennsku og hún var tefld þegar Sævar var tæplega tvítugur 1973. Þar kom við sögu eitt þekktasta Najdorf afbrigði Sikileyjarvarnar B-99 sem var í tísku og örri þróun þegar skákin var tefld og menn þekktu ekki alla refilstigu þess eins og nú. Sjá t.d. stöðuna eftir 25.Rf5!

Andstæðingur hans ungmennakennarinn mikli Ólafur H Ólafsson varð nýlega sjötugur sem er merkur áfangi en hann réð ekki við sviptivindana sem blésu um hann þetta kvöld á Grensásveginum….

Skákþing Íslands 1973

Hvítt: Sævar Bjarnason
Svart: Ólafur H Ólafsson

Gefið 1-0

Það voru margit fallegir sóknarleikir Sævars í þessari skák og vörnin svörtum erfið og hann spriklaði heldur betur spræklega með drottningunni. Ljóst þótti að riddarafórnin á d5 var óljós og að svartur lék af sér með 13.Bxd5? En þetta er allt saman sniðugt!

Facebook athugasemdir