Sláturtíð hjá Caruana – Með örugga forystu

Ítalinn Fabiano Caruana heldur áfram að vinna skákir í Sinquefield Bikarnum og hefur nú unnið allar fjórar skákir sínar! Á ýmsum stigum skákarinnar er ekkert stórkostlega merkilegt að vinna fjórar skákir í röð en þegar komið er í elítuna þá er ekki margir sem ná því. Carlsen hefur að sjálfsögðu náð viðlíka árangri og greinarhöfundi detta í hug Topalov og Ivanchuk og svo að sjálfsögðu meistara Kasparov.

Mót Ivanchuk var að vísu örlítið veikara þó mjög sterkt  hafi verið. Garry Kasparov talaði um í bók sinni Garry Kasparov on Garry Kasparov: Part II 1985-1993 að hann hefði yfirleitt hitt á vegg eftir fimm vinningsskákir í röð. Nú er að sjá hvað gerist hjá Caruana eftir fjórar skákir en ljóst má vera að hræringar eru að eiga sér stað á toppnum. Caruana er að stimpla sig inn rækilega sem #2 í heiminum og hver veit nema hann geti veitt Carlsen keppni á næstu árum!

Carlsen-Caruana (3.umferð)

Allra augu beindust að þessum tveimur stigahæstu skákmönnum heims í þriðju umferðinni. Carlsen hafði byrjað rólega með tveimur jafnteflum með svart og þurfti því helst að vinna Caruana sem hafði byrjað á tveimur sigurskákum. Carlsen þurfti sigur en varð augljósa að lúta í gras.

Carlsen_Caruana_1Enn og aftur fór Carlsen í rólegar og minna troðnar slóðir þegar hann valdi Biskupsbyrjun (e. Bishops Opening). Munurinn á að leika biskpunum strax í öðrum leik til c4 og hinum þekkta Ítalska leik þar sem byrjunarleikirnir eru 1.e4 e5 2.Rf3 Rc6 3.Bc4 er auðvitað sá að svartur þarf ekki að leika riddarnum á c6 í Biskupsbyrjun og getur því undirbúið framrásina til d5 með því að leika peði sínu til c6 (eins og örvarnar sýna). Caruana átti ekki í neinum erfiðleikum með að jafna taflið.

Carlsen_Caruana_2Carlsen kom því nokkuð á óvart þegar hann fórnaði manni á f7 snemma tafls. Fórnin virðist vera vafasöm ef hún er skoðuð svona eftirá en ákvörðunin er virkilega athyglisverð. Í kjölfarið hefði hvítur getað haft hrók og einhver peð fyrir tvo menn en þess í stað náði Caruana að einfalda stöðuna þannig að jafnt var á liði en hann hafði allt frumkvæðið sökum veikrar kóngsstöðu hvíts.

Carlsen_Caruana_3Hér var 19…Bg4 flottur leikur sem fljótlega leiddi til þessarar einföldunar.

Carlsen_Caruana_4

Carlsen hafði reynt að fá mótspil með e-peðinu en svartur var með öll svör á reiðum höndum og hér lék Carlsen af sér. Hann hefði getað borið drottninguna fyrir með 31.Dh2 en þá kemur 31…De8 og svartur hirðir e-peðið í kjölfarið. Þess í stað tapaði Carlsen strax eftir  31.Rh2?? þar sem 31…Hd1+ leiðir til þess að hvítur tapar bæði riddarnum og e-peðinu og frekari barátta er óþörf.

Gríðarlega mikilvægur sigur hjá Caruana!

Önnur úrslit í þriðju umferð voru á þann veg að Caruana jók við forskot sitt. Umferðin var mjög skemmtileg og kíkjum á brot úr hinum skákunum:

Vachier-Lagrave – Aronian (3.umferð)

Frakkinn var nýbúinn að tapa fyrir Caruana en hann kvittaði það út mjög sannfærandi gegn Armenanum. Vachier-Lagrave fórnaði snemma peði.

Lagrave_Aronian

Hér drap Frakkinn með drottningu á d2. 10.Dxd2! dxc4?! 11.Rg5! cxb3 12.Rxe6 fxe6 13.De3! bxa2 14.Dxe6+ Kh8 15.Dxa2

Lagrave_Aronian_2

Hvítur stendur eftir með hið margrómaða biskupapar og sterkt miðborð. Athugið að svartur getur ekki drepið á d4 með biskup þar sem hvítur leppar það einfaldlega með hrók. Í kjölfarið fékk Lagrave óáreittur að ýta miðborðspeðum sínum og pressa á opnum línum á drottningarvæng. Fljótlega hafði staðan algjörlega snúist við og nú var Frakkinn kominn peði yfir.

Lagrave_Aronian_3

Auk þess að vera peði yfir standa menn hvíts allir betur og c-peðið er gríðarlega sterkt frípeð. Mótsspyrna Aronian stóð ekki lengi yfir. Fínn sigur hjá Frakkanum sem hefur verið að tefla skemmtilega í mótinu þrátt fyrir eina skák gegn Caruana sem hann komst aldrei inn í.

 

Topalov – Nakamura (3.umferð)

Þessi skák varð mjög skörp. Eftir Arkhangelsk afbrigði í Spænska leiknum virtist Nakamura vera vel undirbúinn og standa betur.

Topalov_Nakamura_1

Þetta er í raun krítíska augnablik skákarinnar.  Nakamura hefur yfirleitt mjög gott auga fyrir taktík en hér af einhverjum orsökum missir hann af mjög sterkum leik. Svartur gat leikið 21…Bxf2! og í framhaldinu myndi hann verða peði yfir. T.d. 22.Kxf2 Dd4+ 23.He3 (ef Kf1 þá er Rg3 mát!) 23…Hxe5 og drepur svo á g5.

Þess í stað urðu miklar flækjur með mistök á báða bóga. Topalov greip þó tækifærið þegar það gafst og er vafalítið ánægður að komast á blað eftir að hafa tapað tveim fyrstu skákunum.

Kíkjum aðeins á fjórðu umferð.

Carlsen – Topalov (4. umferð)

Tilþrifalítil skák hjá Heimsmeistaranum og aftur varð honum ekkert ágengt með hvítu mönnunum.  Sumir tala um lægð hjá Carlsen en greinarhöfundur er ekki sammála því. Á Ólympíumótinu var hann að tefla á styrkleika sínum þar til hann tapaði klaufalega sinni síðustu skák.  Vissulega byrjar hann ekki vel hér í Sinquefield Bikarnum en athugum þó að ýmislegt gæti verið að trufla hann „utan vallar“ vegna skrípaleiksins í kringum Heimsmeistaraeinvígið. Bætum svo við þetta að Carlsen er hugsanlega að fela sínar byrjanir og hefur verið að tefla mjög ókrítískar og sjaldgæfar byrjanir undanfarið.

Magnus tefldi þessa skák tilþrifalítið eins og áður sagði og varð lítið ágengt. Í raun átti Topalov möguleika í endataflinu og viðbrögð hans mjög fyndin þegar Carlsen sagði honum frá leik sem höfðu mögulega getað valdið Carlsen vandræðum.

Topalov heyrir eftir skákina að hann hefði getað leikið leik sem hugsanlegu setti Magnus í vandræði

Topalov heyrir eftir skákina að hann hefði getað leikið leik sem hugsanlegu settu Magnus í vandræði


Vachier-Lagrave – Nakamura  (4.umferð)

Önnur tilþrifalítil skák sem verðskuldar ekki stöðumynd 🙂

Nakamura tefldi sömu byrjun og gegn Topalov og þrátt fyrir leikjavíxl snemma stóð hann alltaf vel og jafnaði taflið nokkuð auðveldlega. Frakkanum varð ekkert ágengt og jafntefli niðurstaðan í 30. leik.

 

Caruana – Aronian

Loks var það barátta hins nýja #2 í heiminum gegn þeim gamla! Caruana virðist nokkuð öruggur með að skipta um sæti við Aronian eftir þetta mót og hrifsa annað sætið á stigalistanum.

Caruana_Aronian_1

Enn var það Spænski leikurinn og hér var Caruna að leika nýjum leik, 15.Ra2!? Hugmyndin er að færa riddarann með krókaleiðum Ra2-c1-b3 og horfa til veiku reitanna á a5/c5 í svörtu stöðunni.

Í kjölfarið gerði Aronian sig líklega sekan um strategísk mistök með því að loka stöðunni á miðborðinu með …d4 framrás.

Caruana_Aronian_2Í betri stöðu tók Caruana hreint ótrúlega djarfa ákvörðun.  Hér var hann að enda við að leika 29.Ra5 sem svartur svaraði 29…Rxa5. Ljóst var fyrir þessi viðskipti að Caruana stóð betur en engu að síður tekur hann ákvörðun hér að fórna manni og lék 30.Rxe5! Í framhaldinu tók hann á g6 og loks varð fremri hrókurinn á f-línunni skotmark.

Caruana_Aronian_3

Caruana vann því liðið meira og minna til baka en það sem var mikilvægast var gríðarlega sterkur peðamassi hans á kóngsvæng og hann var fljótur að láta hann vinna og fékk sterkt frípeð á f-línunni.  Takið líka eftir hversu illa svörtu riddaranir standa og eru í raun áhorfendur í þessari skák!

Caruana_Aronian_4

Hér er staðan orðin gjörtöpuð og aðeins voru leiknir örfáir leiki til viðbótar.

Stórkostleg byrjun eins og áður sagði hjá Caruana og hreint með ólíkindum í svona sterku móti að eftir fjórar umferðir hefur hann heila TVO VINNINGA í forskot á næsta mann! Vachier-Lagrave hefur 2 vinninga en svo hafa allir hinir 1,5 vinning! Ótrúleg staða sem minnir á einn yfirburðasigur Kasparov í Linares 2001 þegar hann skildi alla eftir með -1 sem kallað er eða einni skák undir 50% skori. Kasparov var svo að sjálfsögðu með +5 þar!

Tekst Caruana að halda áfram slátruninni? Líklegast verður að telja að hann tefla af öryggi út mótið og tryggi sér öruggan sigur og annað sætið á Heimslistanum. Ljóst er að mikið þarf að gerast svo að Caruana vinni þetta mót ekki en við skulum ekki gera þau mistök að afskrifa Carlsen strax!

Í dag, sunnudag, fer fram 5. umferð. Á morgun, mánudag, er svo frídagur í mótinu og áfram verður haldið á þriðjudaginn.

5. umferð – 31. ágúst, 2014
Nakamura, Hikaru 2787 Caruana, Fabiano 2801
Aronian, Levon 2805 Carlsen, Magnus 2877
Topalov, Veselin 2772 Vachier-Lagrave, M 2768

 

Hægt er að fylgjast með beinum útsendingum víða. Þeir sem hafa aðgang að ICC geta fylgst með þar. Þeir sem hafa ekki slíkan aðgang velja gjarnan vefsíður á borð við ChessBomb þar sem hægt er að sjá skákirnar ásamt tölvustúderingum og stundum skýringum. Loks bendum við á Chess24 þar sem hægt er að sjá skákirnar einnig með tölvustúderingum ásamt flottum beinum útsendingum úr stúdíó í St. Louis með skýringum meistara Yasser Seirawan auk þess sem Jennifer Shahade og Maurice Ashley hjálpa til.

Rokk og ról, ekki missa af 5.umferðinni sem hefst klukkan 19:00. Nakamura með yfirlýsingar og ætlar að vinna gegn Caruana!

 

Facebook athugasemdir