Skólamenn á einu máli: Skákin hefur frábær áhrif á börnin

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir stýrði nefnd sem gerði tillögur um skákkennslu í grunnskólum. Skólafólk segir margt gott fylgja skákinni.

,,Við byrjuðum í fyrra að vera með skák sem valgrein 2-3 sinnum í viku og er skemmst frá að segja að skákin svínvirkar á þau, þau ná ró og þjálfa athygli og átta sig á að skákin þarf að vinnast í ró og friði. Þetta eru ekki börn sem nokkur hefði trúað að gætu setið kyrr í hálfan eða einn tíma og hugsað sig um yfir skákborði….”

Þetta er haft eftir Reyni Hjartarsyni kennara í Hlíðaskóla, í skýrslu nefndar sem falið var að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum með sérstakri áherslu á áhrif skákkennslu á námsárangur og félagslega færni barna.

Nefndin var skipuð 2. janúar 2013, af Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Formaður nefndarinnar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fv. forseti Skáksambands Íslands og alþingismaður. Nefndin skilaðu skýrslu sinni sex vikum síðar, hinn 14. mars.

8 (2)

Skák eflir rökhugsun og reynir á sköpunargáfuna. Og skák er skemmtileg. Myndirnar af skákbörnunum, sem fylgja greininni, eru úr grunnskólanum í Grímsey.

Í skýrslunni var m.a. farið ítarlega yfir jákvæð áhrif skákar í skólastarfi, og umsögnum safnað frá skólafólki um reynslu af skákkennslu í skólum. Ljóst er, af umsögnum skólafólks, að skákin hefur margvíslegt gildi. Hér er skoðað hvað skólafólk hefur að segja.

,,Auk þess að vera skemmtileg íþrótt er ég þess fullviss að skákin þjálfar huga barnanna og þroskar og stuðlar að andlegum og líkamlegum aga,“ sagði Björn Pétursson, skólastjóri Melaskóla, og minnti eins og fleiri á að börnin skemmta sér um leið og þau efla með sér rökhugsun og sköpunargáfu í skákinni. Ingibjörg Rósa Ívarsdóttir, kennari við Lágafellsskóla tók í svipaðan streng:

,,Einn af stærri kostum skákiðkunar er að þeir sem hana stunda og þá sérstaklega börn gera sér ekki í hugarlund hvað að er margt sem ávinnst við taflborðið. Í skákkennslunni halda nemendurinir að þau séu bara að tefla og leiða ekki hugann að öllum þeim þroska sem tikkar inn á sama tíma og taflið á sér stað. Leikur er nám er orðatiltæki sem á vel við þegar skákkennsla á í hlut.”

3 (4)

,,Skákin er ekki bara skemmtileg heldur vekur hún líka upp hjá þeim, sem tefla, ákveðinn baráttuanda. Þér er ekki sama hvernig skákin fer, þú vilt vinna en ekki tapa.“

Björgvin Þór Þórhallsslon skólastjóri Klébergsskóla sér fjölmarga kosti við skákkennslu í skólanum:

,,Það er trú okkar, án þess að við höfum fyrir því staðfestar niðurstöður rannsókna, að skákiðkun þjálfi rökhugsun, sjálfsaga og einbeitingu. Þess utan er skákkennslan kærkomin viðbót við námsgreinar skólans og eykur mjög fjölbreytni. Loks gefur þessi viðbót ærin tilefni til að brjóta upp skólastarfið og auka fjölbreytni í félagsstarfinu með þátttöku á skákmótum, bæði innan skóla og utan.”

Björgvin Smári Guðmundsson kennari við grunnskólann á Hellu og formaður Skákfélags Selfoss og nágrennis, sem heldur úti mjög öflugu starfi, kafar eftir skýringum á því afhverju börn heillast af skákinni:

1a (2)

,,Allir eru jafnir við skákborðið og má segja að skákin eigi sitt eigið tungumál sem allir geta lært og skilið.”

,,Krakkar sem komast upp á lag með að tefla finnst það skemmtilegt. Það er miklu auðveldara að taka þátt og einbeita sér að einhverju sem er skemmtilegt. Skákin er ekki bara skemmtileg heldur vekur hún líka upp hjá þeim, sem tefla, ákveðinn baráttuanda. Þér er ekki sama hvernig skákin fer, þú vilt vinna en ekki tapa. Þessi barátta á skákborðinu vekur upp hjá iðkendum enn meiri einbeitingu.“

Þá leggur Björgvin áherslu á að allir geti blómstrað í skákinni:

,,Einnig vil ég nefna það sérstaklega að krakkar af erlendum uppruna hafa mætt í skákina og er gaman að sjá hvað þau njóta sín þar þrátt fyrir takmarkaða íslenskukunnáttu. Allir eru jafnir við skákborðið og má segja að skákin eigi sitt eigið tungumál sem allir geta lært og skilið.”

Sverrir Gestsson skólastjóri í Fellaskóla minnir á að skákin hentar öllum, án tillits til líkamsburða eða aldurs:

DSC_0304 - Copy

Heimsmeistarinn Hue Yifan og Katrín Jakobsdóttir, þv. menntamálaráðherra. Katrín skipaði nefndina sem kannaði kosti skákkennslu í grunnskólum.

,,Ég tel að skák sé ákaflega heppilegt viðfangsefni fyrir unga sem aldna og þeir kostir sem eftirsóknarverðasti eru að mínu áliti eru þessir: Skák er leikur/íþrótt/list sem reynir á rökhugsun en ekki síður ímyndunarafl. Það er ódýrt að stunda skák og hún er spennandi leikur/keppni. Hávaði og læti eiga ekki við þar sem skák er stunduð og hún reynir á aga og sjálfsaga þeirra sem hana stunda. […] Á efri árum er hægt að stunda skák af krafti þótt möguleikar þínr á mörgum öðrum sviðum fari dvínandi.“

Skákin hefur spilað stórt hlutverki í Salaskóla í Kópavogi, og lykilmaður þar er kennarinn Tómas Rasmus, sem unnið hefur að skákkennslu í áratugi. Hann nefnir einn hóp enn, sem getur fundið sig í skákinni:

,,Ég þekki nokkur dæmi þess að fá í hendur óþekktarorm sem virðist nokkuð skýr í kollinum en gengur illa að feta þær leiðir sem skólinn ætlar viðkomandi. Nokkrir slíkir hafa dottið í skákina og fengið útrás fyrir keppnisþörf og þörfina fyrir ögrandi verkefni. Þeir hafa síðan getað yfirfært þá vissu sína að þeir séu færir um að leysa flókin verkefni yfir á hefðbundið nám.”

Helgi Árnason skólastjóri í Rimaskóli, sem er líka stórveldi í skákinni, tekur í sama streng:

DSC_0666

Skákkrakkar í Grímsey.

,,Nemendur sem hafa átt erfitt með einbeitingu og ekki notið sín í námi, hafa fundið sig við skákborðið, bæði náð þar árangri og ekki síður haft ánægju af því að tefla. Þessir nemendur verða hinir meðfærilegustu á skákæfingum eða kennslustundum í skák og taka framförum. Þeir njóta þess að eiga áhugamál þar sem þeir eru jafningjar annarra.“

Þótt ekki liggi fyrir vísindalegar rannsóknir á Íslandi um áhrif skákiðkunar á námsárangur, ber allt að sama brunni í þeim efnum. Anna Kristín Jörundsdóttir kennari í Rimaskóla kemur með athyglisverða staðreynd:

,,Skák þjálfar rökhugsun og gerir nemendum gott t.d. þegar kemur að námi. Sem dæmi komu fjórar efstu einkunnirnar í samræmdu prófum sjöunda bekkjar frá börnum sem stunda skák eða hafa lagt stund á skák.”

Ítarefni: Skýrsla nefndar Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur 

Facebook athugasemdir