Skákþing Norðlendinga 1957: Minningarmót Sveins Þorvaldssonar skákmanns

Eftir: Svein Kristinsson
Þjóðviljinn, sunnudagur 3. nóvember 1957

Skákþing Norðlendinga hefur að þessu sinni verið auglýst á Sauðárkróki og er það í fyrsta sinn, sem mér er kunnugt um að Sauðkræklingar hafi staðið fyrir þessu móti.

Langoftast hefur það verið háð á Akureyri, en einhverntíma á Húsavík, að mig minnir og ef til vill á Siglufirði. Er það vel til fallið að skipta annað slagið um keppnisstað fyrir mótið og gef a á þann. veg sem flestum færi á að sækja það og jafna þannig aðstöðumun manna út um hinar dreifðu byggðir.

Sveinn Þorvaldsson

En það eru fleiri stoðir, sem renna undir það, að mótið er að þessu sinni haldið á Sauðárkróki. Það er nefnilega helgað minningu skagfirzka skákmeistarans Sveins Þorvaldssonar, sem lézt af slysförum árið 1935 aðeins 25 ára að aldri, en hafði þá um margra ára skeið verið einn af færustu skákmönnum landsins og skákmeistari Norðlendinga um hríð.

—–

Nánar má glöggva sig á sögu Sveins Þorvaldssonar í Skagfirðingabók, en þar segir meðal annars um Svein:

„Sveinn Þorvaldsson óx upp í föðurhúsum. Eftir barnaskólanám sat hann einn vetur í Unglingaskóla Sauðárkróks, en gekk úr því að algengum störfum til sjós og lands. Hann var góður verkmaður og vann heimili sínu það, er hann mátti. Nokkur sumur starfaði hann í verksmiðju á Siglufirði, og síðast taldi hann sig til heimilis þar í kaupstaðnum.

Sveinn Þorvaldsson tók ríkulega í arf mannkosti og gáfur foreldra sinna. Hann var ágætlega viti borinn og veittist skólanám létt, og þá reikningsnám ekki sízt. Kom það fyrir vetur hans í unglingaskólanum, þegar meira reyndi en áður á stærðfræðilega hugsun, að hann tæki kennara sínum fram í þeirri grein. Hann var og heilsteyptur í lund og reglusamur, neytti til að mynda hvorki víns né tóbaks, mjög stilltur og dagfarsprúður, og var hverjum manni hlýtt til hans.

Sveinn var hlédrægur, dulur og alla jafna fáskiptinn, þó aldrei afundinn eða þóttalegur. A vinafundum átti hann til létta gamansemi og fjörgaðist þá allur, en hömlulítinn gáska kunni hann síður að meta og hélt aftur af vinum sínum, ef honum þótti þeir geysast um of. Hann kunni að smíða vísur, en notfærði sér það víst sjaldan. Eitthvert sinn fylgdist hann með tveimur mönnum, er sátu að tafli, og mælti þá:

Ekki er að spyrja að aflinu:
Óðum hrókum slengdi.
Tímanlega í taflinu
tók hann frúna og hengdi.“

—–

Skákferill Sveins var hinn glæsilegasti þótt stuttur væri. Má til. marks um hinn bráða þroska hans nefna, að á fyrsta skákmótinu, sem hann tók þátt í, Skákþingi Íslendinga á Akureyri 1927, hlaut hann 5 vinninga af 10 mögulegum í efsta flokki, og gerði meðal annars jafntefli við sjálfan íslandsmeistarann Eggert Gilfer og vann annan færasta meistara landsins, Stefán heitinn Ólafsson. Var Sveinn þá aðeins 16 ára að aldri. Hefur naumast nokkur skákmaður okkar, að undanskildum Friðriki Ólafssyni, náð slíkum þroska jafn ungur að árum.

En því miður hafði Sveinn ekki aðstöðu Friðriks til að þroska snilligáfur sínar sem skyldi. Alla sína stuttu ævi stundaði hann erfið og slitsöm störf og hafði auk þess ekki aðstöðu til að þjálfa sig svo neinu næmi við sér sterkari menn eða jafn sterka. Er ekki vafi á því, að ef Sveinn hefði haft betri aðstöðu og enzt líf til frekari skákiðkana, þá hefði hann náð langt í listinni.

Það fer vel á því að helga Skákþing Norðlendinga hinum látna snillingi að þessu sinni.

Er þess að vænta, að Norðlendingar fjölmenni á þingið og geri þetta minningarmót Sveins Þorvaldssonar sem glæsilegast og minnisstæðast. Það væri honum samboðið.

Ég birti að þessu sinni skák þá, sem Sveinn vann af Stefáni heitnum Ólafssyni, fyrrverandi skákmeistara Íslands á Skákþingi Íslendinga á Akureyri 1927. Sveinn var þá eins og fyrr segir aðeins sextán ára að aldri.

Hvítt: Sveinn Þorvaldsson.
Svart: Stefán Ólafsson.

Drottningarpeðs-byrjun
(óregluleg).

Facebook athugasemdir