SKÁKSÖGUFÉLAGIÐ – NÝ VEFSÍÐA OPNUÐ

bordi

Hið íslenska skáksögufélag var stofnað fyrir rúmu ári síðan með það að markmiði að stuðla að því að sögu manntaflsins og skáklistarinnar á Íslandi, að fornu og nýju, verði sem best til haga haldið. Jafnframt skyldi félagið beita sér fyrir því að saga fræknustu skákmeistara okkar og helstu skákviðburða hérlendis yrði skráð, auk þess að vinna að varðveislu hvers konar skákminja og muna, eftir föngum. Ærin verkefni sem óvíst er hvort félagið eða stjórnarmenn þess fái nokkurn tíma undir risið nema með öflugum stuðningi skákunnenda og annarra.

SSF-001Stjórn félagsins er því mikið ánægjuefni að greina frá því að tekist hefur að ljúka fyrsta stóra viðfangsefni þess, að byggja upp mikla og efnisríka vefsíðu tileinkaða fyrsta stórmeistara okkar FRIÐRIKI ÓLAFSSYNI og glæstum skákferli hans.

Heimasíðan var formlega opnuð af Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, á afmælisdegi Friðriks, 26. janúar, sem jafnframt er íslenski skákdagurinn honum helgaður, í upphafi vikulegs skákmóts eldri borgara í félagsheimili FEB, Ásgarði við Stangarhyl, þar sem Friðrik Ólafsson, var heiðursgestur.

Um er að ræða afar fjölbreytta upplýsingasíðu með ótal gömlum blaðafréttum, greinum og viðtölum við meistarann, auk yfirlits um öll mót hans, með flestum skákum hans og úrslitum gegn einstökum mótherjum. Síðan er ríkulega myndskreytt með ljósmyndum frá ferli Friðriks auk fjölda annarra úr íslensku skáklífi frá miðbiki síðustu aldar fram til þessa dags.

Þeir Hrafn Jökulsson, skákfrömuður m.m. og Tómas Veigar Sigurðarsson, vefhönnuður, eiga mestan heiður af gerð hennar en til verksins naut félagið fjárstyrks frá hinu opinbera.

Helstu efnisþættir:
ÆVIFERILL – þar er stiklað á helstu æviatriðum Friðriks og skákferill hans rakinn í tímaröð. GREINAR – um Friðrik og glæstan afreksferil hans, sem á eftir að fjölga. HELSTU MÓT – þar sem fjallað er um einstök mót með ítarlegum hætti, með fréttum og mótstöflum. Allar skákir hans eru birtar með fáeinum undantekningum, sem hægt er að skoða rafrænt. ÁRABILIN – þar er hægt að nálgast fréttir um mót og viðburði eftir áratugum með auðveldum hætti. FORSETI FIDE – fréttir og myndir frá þeim tíma sem Friðrik gengdi hinu virðulega embætti forseta Alþjóðaskáksambandsins. SARPURINN – gamlar fréttir, fjölmargar frásagnir og skákpistlar frá árum áður. TÖLFRÆÐI – Skákmót og Mótherjar geysilega viðamikil samantekt um öll skákmót sem Friðrik hefur tekið þátt í. Ítarleg skrá um alla mótherja hans og árangur gagnvart hverjum og einum. Þá fylgir mjög ítarleg ATRIÐISORÐASKRÁ til að hagræðis fyrir áhugasama lesendur með nær óendalegu efnisvali. Efni síðunnar er ríkulega myndskreytt – auk þess sem sérstakt MYNDASAFN fylgir bæði frá ferli Friðriks, af ýmsum viðburðum, frænknum skákmeisturum og fjölmörgum þátttakendum í íslensku skáklífi.

Síðuna má nálgast hér: www.skaksogufelagid.is eða www.fridrikolafsson.com

ESE – 26.01.16 Skáksögufélagið: http://hrokurinn.is/flokkar/skaksogufelagid/

Facebook athugasemdir