Skákmaraþon Hróksins í Hörpu í þágu sýrlenskra flóttabarna

[Zaatari-2013]Tamara-16Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir Skákmaraþoni í Hörpu föstudaginn 6. mars og laugardaginn 7. mars til að styðja við söfnun Fatimusjóðs og UNICEF á Íslandi í þágu skólahalds fyrir sýrlensk flóttabörn.

Hrafn Jökulsson teflir föstudaginn 6. mars og laugardaginn 7. mars frá klukkan 9 til 24 og skorar á alla sem vettlingi valda að mæta í Hörpu og taka skák í þágu þessa góða málstaðar. Fulltrúar Fatimusjóðs og Unicef taka við framlögum sem renna óskert í söfnunina.

Öllum er velkomið að mæta í Hörpuna og spreyta sig gegn Hrafni, sem teflir við einn áskoranda í senn og mun samtals sitja að tafli í 30 klukkustundir. Skákkunnátta er algert aukaatriði og byrjendur fá tilsögn í taflinu hjá Hrafni og liðsmönnum Hróksins í Hörpu.

[Zaatari-2013]Tamara-22Samhliða skákinni verður söfnun UNICEF og Fatimusjóðs kynnt og til sölu verða póstkort með myndum frá Sýrlandi og fleiri löndum, sem Prentsmiðjan Oddi hf. leggur til. Þá verða ýmsar bækur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur til sölu, og rennur söluandvirði í söfnunina.

Margir hafa þegar bókað sig í skákmaraþonið og í þeim hópi eru m.a. Benedikt Erlingsson, Erpur Eyvindarson, Vigdís Hauksdóttir, Einar Kárason, Sirrý Arnardóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhannes Kristjánsson. Kunnir skákmeistarar hafa líka boðað komu sína, sem og sum efnilegustu skákbörn landsins. Þá mun forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, mæta í maraþonið síðdegis á föstudag.

[Zaatari-2013]Tamara-23Með maraþoninu vill Skákfélagið Hrókurinn leggja góðu og brýnu málefni lið, í anda einkunnarorða skákhreyfingarinnar: „Við erum ein fjölskylda”.

Hrókurinn hvetur alla sem geta til að leggja söfnuninni lið. Hægt er að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.490 kr.) og gefa þannig flóttabarni pakka af skólagögnum. Þá er hægt að leggja frjáls framlög inn á reikning Fatimusjóðsins, 0512-04-250461, kennitala 680808-0580.

Facebook-síða skákmaraþonsins: https://www.facebook.com/events/749484025148271/

Facebook athugasemdir