Skákmaraþon Hrafns og Hróksins í þágu stríðshrjáðra barna

Skákmaraþon Hrafns og Hróksins í þágu góðs málstaðar verður haldið dagana 12. og 13. maí n.k. í Pakkhúsi Hróksins. Hrafn Jökulsson mun freista þess að tefla 200 skákir á 30 klukkustundum og safna áheitum fyrir Fatimusjóðinn og UNICEF fyrir stríðshrjáð börn í Jemen og Sýrlandi, en þau búa við hræðilegar aðstæður, stríð og hungursneyð.

Safnað verður áheitum og renna öll framlög óskert í söfnunina, því tilkostnaður í kringum viðburðinn er 0 krónur og vaskur hópur sjálfboðaliða kemur að verkefninu.

Þrjár milljónir króna söfnuðust í fyrra í skákmaraþoni Hrafns í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem tefldi þá 222 skákir. Stefnan er að gera enn betur í ár.

Maraþonið fer fram í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11, við Reykjavíkurhöfn og hefst klukkan 9, föstudaginn 12. maí. Hrafn mun tefla við einn áskoranda í einu, og er umhugsunartími 5 mínútur.

Hægt er að skrá sig til leiks á Facebook-síðu maraþonsins og eru allir hjartanlega velkomnir, enda úrslit í einstökum skákum algjört aukaatriði.

Áheitum verður safnað meðal einstaklinga, félaga og fyrirtækja, auk þess sem fulltrúar Fatimusjóðs og UNICEF taka við framlögum á staðnum.

Samhliða skákmaraþoninu verða ýmsir viðburðir í Pakkhúsi Hróksins. Listamenn, kórar og skemmtikraftar koma í heimsókn og heitt verður á könnunni fyrir gesti og gangandi.

Nánari upplýsingar gefur Hrafn í síma 7631797.

Skákmaraþon 2017 – Áheit

Facebook athugasemdir