Skákheimar loga stafna á milli: FIDE hótar að svipta Carlsen titlinum – Fordæmalaust ástand segir Félag atvinnuskákmanna og hótar klofningi – Heimsmeistaramót kvenna í fullkomnu uppnámi

Kirsian

Kirsian Ilymuzhinov, forseti Alþjóða skáksambandsins (FIDE)

Það er skammt stórra högga á milli í skákheimum þessa dagana. Nýlega sagði Hrókurinn frá því að FIDE hefði hafnað beiðni liðsmanna Magnúsar Carlsens um að fresta heimsmeistaraeinvíginu sem á að hefjast þann 7. nóvember í bænum Sochi í Rússlandi.

Enn dregur til tíðinda því nú hefur lið Magnúsar aftur sent erindi til FIDE og óskað eftir að einvíginu verði frestað fram yfir áramót. Ástæður beiðninnar eru fjölmargar: Hið pólitíska ástand í Rússlandi, átökin í Úkraínu og samskipti Evrópusambandsins og Rússlands eru nefndar. Því til viðbótar hefur lið Magnúsar bent á að afar skammur tími sé til stefnu til undirbúnings einvígisins. Í því samhengi er nefnt að hinn skammi undirbúningstími komi niður á væntanlegum fréttaflutningi frá einvíginu, enda þurfi sjónvarpsstöðvar og aðrir sem fjalla um einvígið, langan tíma til undirbúnings.

Þessu til viðbótar bárust þau tíðindi á þriðjudaginn að Emil Sutovsky, forseti  Félags atvinnuskákmanna (Association of Chess Professionals, ACP), hefur sent Kirsan Ilymuzhinov, forseta FIDE (Alþjóðaskáksambandið) opið bréf þar sem hann óskar svara við fjölmörgum spurningum tengdum heimsmeistaraeinvíginu, Grand Prix mótaröðinni sem er undankeppni næsta áskorendamóts og vegna heimsmeistaramóts kvenna. Emil lýsir miklum áhyggjum félags atvinnuskákmanna tengdum þessum viðburðum, sem allir eru í miklu uppnámi. Gengur hann svo langt að segja að ef ekki verði leyst úr málum með tryggilegum hætti, þá sé hætta á að skákheimar klofni í tvær fylkingar og bendir á nýlegt fordæmi þess þegar Garrý Kasparov ásamt Nigel Short ákváðu árið 1993 að tefla heimsmeistaraeinvígi sitt án aðkomu FIDE og stofnuðu til þess samtökin PCA (Professional Chess Association). Ástæða klofningsins það skiptið var m.a. lágt verðlaunafé sem þeim félögum stóð til boða að tefla um. Um langt árabil á eftir sátu tveir heimsmeistarar samtímis á sitthvorum veldisstólnum.

Áhugavert er að setja orð Emils í samhengi við yfirlýsingu Garrýs Kasparov, sem inniheldur ákall til grasrótarinnar, eftir að sá síðarnefndi hafði beðið ósigur í forsetakosningum hjá FIDE nú fyrr í þessum mánuði, en fyrirsögn yfirlýsingarinnar var orðrétt „The Future of Chess, Not FIDE“.

 

Forsagan

anand-carlsen

Viswanathan Anand og Magnús Carlsen eru góðir félagar

Í nóvember 2013 tefldu Viswanathan Anand, þáverandi heimsmeistari, og Magnús Carlsen sem þá var í hlutverki áskorandans, einvígi um titilinn í Chennai á Indlandi, heimabæ Anands. Í stuttu máli fór sú orrusta þannig að Magnús vann einvígið mjög örugglega hlaut 6,5 vinninga en Anand aðeins 3,5. Einvígið var að öllu leyti gríðarlega vel heppnað; Þar tókust á tveir heiðursmenn og var einvígið skákíþróttinni  til mikils sóma í hvívetna. Einvígið vakti gríðarlega athygli; allur fréttaflutningur var með jákvæðum hætti og áhorf náði áður óþekktum hæðum, allt að milljarður manna fylgdist með einvíginu með einum eða öðrum hætti að mati mótshaldara.

Í lok mars á þessu ári var ljóst að fyrverandi heimsmeistarinn Viswanathan Anand hafði sigur í áskorendamótinu sem fram fór í Khanty-Mansiysk í Rússlandi og yrði því næsti áskorandi Magnúsar Carlsens heimsmeistara og skyldi einvígið fara fram í nóvember á þessu ári.

Alþjóða skáksambandið auglýsti eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér mótshaldið, en í því felst að leggja til keppnisaðstöðuna og styrktarfé, sem er eftir atvikum fengið frá þriðja aðila sem telur atburðinn hentugan til að auglýsa starfsemi sína.

Þau undur og stórmerki gerðust að ekkert tilboð barst, áhugi virtist ekki vera til staðar til að halda þennan risaviðburð sem stór hluti jarðarbúa fylgist með á síðasta ári. FIDE brá á það ráð að framlengja umsóknarfrestinn, sem dugði ekki til, enn bólaði ekkert á áhugasömum mótshaldara. Alþjóða skáksambandið birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni um að ekkert tilboð hefði borist í mótið

Ekkert tilboð barst fyrir lok umsóknarfrestins þann 30. apríl, 2014. Frekari yfirlýsing verður gefin fljótlega

Kirsian virðir fyrir sér auglýsingaskilti Kasparovs

Kirsian virðir fyrir sér auglýsingaskilti Kasparovs

Á meðan á þessu gekk, var kosningabarátta Kirsians Ilyumzhinovs og Garrýs Kasparovs um forsetaembættið hjá FIDE í algleymingi. Kasparov sótti fast að Kirsian og kenndi ófaglegum vinnubrögðum mótherjans um og sagði að fjölmörg vestræn fyrirtæki hefðu mikinn áhuga á einvíginu en treystu sér ekki í samstarf við FIDE, Kirsian og kóna hans sem sumir sættu viðskiptaþvingunum vegna ástandsins í Rússlandi.

Málið var því allt hið vandræðalegasta fyrir Kirsian og varð til þess að þann 11. júní (sléttum tveim mánuðum fyrir forsetakosningarnar þann 11. ágúst) boðaði hann til blaðamannafundar þar sem hann lýsti því yfir að heimsmeistaraeinvígið færi fram í borginni Sochi og að 3 milljónir dollara yrðu lagðar í verðlaunapottinn. Sú upphæð er helmingi lægri en teflt var um á Indlandi á síðasta ári.

Strax var ljóst að Magnús Carlsen og liðsmenn hans voru ósáttir með þessa niðurstöðu líkt og áður hefur verið rakið hér. Þeir höfðu þó bundið vonir við að fyrv. heimsmeistarinn Garrý Kasparov bæri sigur úr bítum í kosningabaráttunni en sá hafði á stefnuskránni að falla frá þessu ráðabruggi Kirsians og fresta mótinu til næsta vors og leita samstarfs við vestræna styrktaraðila. Þeim varð ekki að ósk sinni, enda sigraði Kirsian nokkuð örugglega og situr því áfram í embætti Forseta Alþjóða skáksambandsins og heldur fyrri áætlunum um einvígi í Sochi í nóvember til streitu.

 

Verður Carlsen sviptur titlinum?

Norskir fjölmiðlar greina frá því að Magnús Carlsen hafi enn ekki skrifað undir samning vegna heimsmeistaraeinvígisins við Viswanathan Anand sem á að hefjast þann 7. nóvember n.k. í borginni Sochi í Rússlandi. Þá er greint frá því að Carlsen hafi yfirgefið Noreg og sé nú í Bandaríkjunum í þeim tilgangi að taka þátt í Sinquefield Cup í borginni Saint Louis, en Hrókurinn hefur áður fallaðu um mótið. Espen Agdestein, umboðsmaður Magnúsar Carlsens, segir að nú þurfi Magnús að einbeita sér að skákmótinu og allar ákvarðanir varðandi heimsmeistaraeinvígið verði ræddar að mótinu loknu, en því lýkur þann 7. september eða sléttum tveim mánuðum áður en heimsmeistaraeinvígið á að hefjast (7. nóvember).

nU1dkswrzHSd6YzduVoTqwyux8EZkKc54wEpu_gzPJkg

Espen Agdestein var óhress með niðurstöðu forsetakosninganna

Espen hefur aftur sent erindi til FIDE og nú farið þess á leit að einvíginu verði frestað fram yfir áramót, enda sé augljóst að sá undirbúningstími sem eftir verður, fari svo að Magnús skrifi yfir höfuð undir undir samninginn, sé allt of skammur fyrir fjölmiðla sem hyggjast fjalla um einvígið og ýmsa aðra jaðaraðila sem koma að mótshaldinu.

Því má skjóta hér inn að Norska Ríkissjónvarpið hefur fjallað mikið um skák á rás sinni undanfarin ár og m.a. sýnt beint frá heimsmeistaraeinvíginu sem fram fór á Indlandi fyrir ári og frá Ólympíumótinu í skák sem fram fór í Straumsey í Noregi í byrjun ágúst. Þá mun Ríkissjónvarpið sýna beint frá Sinquefield Cup mótinu sem hefst á morgun í Saint Louis og er Magnús þar á meðal þátttakenda. Þá hyggst Ríkissjónvarpið sýna beint frá Heimsmeistaraeinvíginu í Sochi í nóvember. Þessar útsendingar hafa verið afar vinsælar í Noregi enda má segja að skákæði hafi gripið um sig í landinu eftir fordæmalausa velgengni Magnúsar í íþróttinni.

FIDE hefur svarað þessu nýjasta erindi Espens og tekið af allan vafa um að einvígið skuli fara fram þann 7. nóvember í Sochi og ef Magnús mæti ekki til leiks, þá verði hann einfaldlega sviptur titlinum! Í framhaldi hefur Espen tilkynnt FIDE að Carlsen hafi frestað ákvörðunartöku í málinu þar til eftir að mótinu í Saint Louis lýkur, þann 7. september.

 

Verður Karjakin heimsmeistari?

Svo gæti farið að Karjakin taki sæti Magnúsar

Svo gæti farið að Karjakin taki sæti Magnúsar

Norskir og rússneskir fjölmiðlar hafa í dag rýnt í stöðuna og kemur þar fram að fari svo að Magnús neiti að tefla í Sochi og verði sviptur titlinum og réttinum til þess að tefla einvígið, þá komi það í hlut Sergey Karjakins að taka sæti Magnúsar. Því er ekki útilokað að í nóvember verði nýr heimsmeistari krýndur sem hingað til hefur ekki átt sæti við einvígisborðið.

Sergey Karjakin er stórmerkilegur skákmaður, hann hefur í tvígang sigrað á stórmóti sem fram fer árlega í Noregi, þrátt fyrir að Magnús hafi þar verið meðal keppenda og á heimavelli! Þá er Karjakin, sem er 10 mánuðum eldri en Magnús Carlsen, yngsti stórmeistari heims frá upphafi, en hann var aðeins 12 ára og sjö mánaða þegar hann náði þeim áfanga! Til samanburðar var Magnús 13 ára, fjögurra mánaða og 27 daga þegar hann var útnefndur stórmeistari.

 

Slæmt fyrir ímyndina að tefla í Sochi

Carlsen og Liv Tyler tolla í tízkunni.

Carlsen og Liv Tyler tolla í tízkunni.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að Carlsen er ekki sérlega áfjáður í að tefla í Rússlandi. Þegar hafa verið nefndar ýmsar pólitískar ástaður, ástandið í Úkraínu, samskipti ESB og Rússlands og 50% lækkun verðlaunafés frá einvíginu fyrir ári.

Norskir fjölmiðlar hafa gert því skóna að í raun sé önnur ástæða fyrir þessu sem þó tengist þeim sem áður sagði. Magnús sé nefnilega að reyna að skapa sér ímynd í Bandaríkjunum og það að fara að tefla í Rússlandi í núverandi ástandi þjóni þeim áætlunum illa.

Magnús er með fjölmennt lið starfsfólks sem vinnur að ýmiskonar ímyndar og markaðsmálum fyrir hans hönd. Sem dæmi þá  hefur hann m.a. starfað sem fyrirsæta fyrir fataframleiðandan G-Star Raw. Hann ætlar sér því stærri og meiri hluti í framtíðinni en að vera eingöngu heimsmeistari í skák – hann ætlar að vera frægasti heimsmeistarinn.

 

Opið bréf Félags atvinnuskákmanna til FIDE

Í dag bættist enn í söguna – sem líkist æ meir sögunni endalausu – þegar Emil Sutovsky Forseti Félags atvinnuskákmanna sendi Kirsian Ilyumzhinov Forseta Alþjóða skáksambandsins opið bréf þar sem hann lýsir miklum áhyggjum af ástandinu í einvígismálinu og bætir við að nú sé Grand Prix mótaröðin og heimsmeistaramót kvenna einnig í uppnámi.

Emil byrjar á því að lýsa því að þróun mála varðandi heimsmeistaramótin (kvenna og karla) sé skákheimum mikið áhyggjuefni og telur sér því ekki annað fært en að rita opið bréf til Kirsians.

Emil Sutovsky er hreint ekki ánægður með stöðuna

Emil Sutovsky er hreint ekki ánægður með stöðuna

Í fyrsta lagi nefnir Emil að vitað sé að það hafi tekið langan tíma að finna styrktaraðila fyrir einvígi Magnúsar og Anands í Sochi. Vegna algers áhugaleysis á einvíginu hafi verðlaunapotturinn verið skertur um 50% sé miðað við einvígið fyrir ári, en það sé langt því frá eina vandamálið sem við blasir. Þá lýsir Emil miklum áhyggjum af því að þrátt fyrir að hann eigi sæti í heims og ólympíumótaráði FIDE, sem fer almennt með mál tengd slíkum keppnum, þá fái hann engar upplýsingar um stöðu mála þessu tengt og gagnrýnir skort á gagnsæi og hugsanlegar afleiðingar þess.

Hann kallar því eftir því að Kirsian leiti lausnar á deilunni með öllum tiltækum ráðum, svo ekki komi til klofnings í skákheimum, líkt og gerðist í nýliðinni fortíð.

Í öðru lagi nefnir Emil að Grand Prix mótaröðin, sem er undanfari áskorendamótsins á næsta ári, sé einnig óvissu háð. Verðlaunapotturinn í mótaröðinni hefur einnig verið skertur um 50% og fleiri vandamál séu aðsteðjandi. Emil nefnir að til stóð að dagsrá mótaraðarinnar lægi fyrir í lok árs 2013, en hafi fyrst núna í ágúst verið endanlega staðfest. Væntanlegir þátttakendur og þ.m.t. næsti áskorandi heimsmeistarans, hefði því aðeins viku til að staðfesta þátttöku sína.

Í þriðja lagi nefnir Emil að ótrúlegt sé að engar fréttir og engin dagskrá eða staðfesting liggi fyrir um heimsmeistarakeppni kvenna sem á að hefjast eftir rúman mánuð. 64 væntanlegir þátttakendur geti hvorki undirbúið sig fyrir mótið né heldur skipulagt sig og samþykkt tilboð frá mótshöldurum vegna  einstaklingsmóta, tímabilið frá september til nóvember af þessum sökum. Fordæmalaust ástand segir Emil og krefst þess að Kirsian, Forseti Alþjóða skáksambandsins annað hvort staðfesti að mótið fari fram ellegar fresti mótinu tafarlaust.

Athygli vekur að enn hefur ekkert heyrst úr herbúðum Viswanathans Anands um hver hans afastaða er til einvígisins í Sochi – Þó er ljóst að hann hefur heldur ekki skrifað undir samninginn.

 

 

Facebook athugasemdir