Skákhátíð Hróksins í ísbjarnarbænum mikla

Ittoqqortoormiit. Afskekktasta þorp Grænlands.

Þrír liðsmenn Hróksins halda um páskana til Ittoqqortoormiit, þar sem slegið verður upp hátíð 12. árið í röð. Öll börnin í bænum eiga von á páskaeggjum og öðrum glaðningi. Skákkunnátta er hvergi almennari en í þessum afskekktasta bæ Grænlands.

Ittoqqortoormiit, sem er við Scoresby-sund á austurströndinni, hefur verið mjög í fréttum að undanförnu, þar sem ísbirnir gera sig nú mjög heimakomna í bænum. Nítján birnir hafa verið felldir í bænum eða nágrenni hans síðan í janúar. Íbúar bæjarins eru á fimmta hundrað og þar búa margir harðsnúnustu veiðimenn Grænlands.

Hátíð Hrókins hefst þriðjudaginn 27. mars með heimsókn á dvalarheimili aldraðra og leikskóla bæjarins. Næstu daga rekur hver viðburðurinn annan í íþróttahúsi bæjarins. Róbert Lagerman leiðangursstjóri teflir Norlandair-fjöltefli, haldið verður BÓNUS-páskaeggjamót, Meistaramót Ittoqqortoormiit og að vanda lýkur hátíðinni með ,,Degi vináttu Íslands og Grænlands“.

Öll börnin í Ittoqqortoormiit kunna að tefla.

Auk skákviðburðanna verður listsmiðja fyrir börn og unglinga, sem Joey Chan annast, og verða myndirnar sýndar í Reykjavík nú í vor.

Þetta er önnur ferð Hróksliða til Grænlands á þessu ári, en í febrúar var Polar Pelagic-hátíð í Kulusuk. Í byrjun júní verður svo hin árlega Air Iceland Connect-hátíð í Nuuk. Og fleira er í farvatninu, að sögn Hrafns Jökulssonar:

,,Nú eru 15 ár síðan skáklandnámið á Grænlandi hófst og því fögnum við með margvíslegum hætti. Markmið okkar er ekki bara að útbreiða skák og skapa gleðistundir fyrir börn og ungmenni, heldur að efla samvinnu og vináttu þjóðanna á sem flestum sviðum.“

Blindi skáksnillingurinn Paulus Napatoq með Joey Chan á hátíð Hróksins 2017.

Hrafn segir að Hrókurinn eigi mörgum vinum að fagna í Ittoqqortoormiit: ,,Trúlega er þetta mesta skákþorp Grænlands. Hvert einasta barn í bænum kann mannganginn, og gott betur. Og þarna býr sterkasti skákmaður Austur-Grænlands: Paulus Napatoq. Hann er blindur en lærði 16 ára að tefla í fyrstu heimsókn okkar til Ittoqqortoormiit fyrir tólf árum. Ótrúlegur snillingur.“

Fjölmargir aðilar á Íslandi og Grænlandi leggja Hróknum lið við hátíðahöldin, allt frá prjónahópnum í Gerðubergi til sveitarfélagsins Sermersooq. Aðrir bakhjarlar eru m.a. Norlandair, Air Iceland Connect, BÓNUS, Cintamani, Grænn markaður, Ellingsen, Tele-Post og Úrsus.

Hægt verður að fylgjast með gangi mála á heimasíðu Hróksins og Facebook-síðu félagsins.

Facebook athugasemdir