Skákhátíð á Ströndum 2015: Gleðin að leiðarljósi

Djúpavík2009 813Skákhátíð á Ströndum verður haldin dagana 26.-28. júní. Efnt verður til þriggja skákmóta auk ýmissa viðburða, og er hápunkturinn Minningarmót Böðvars Böðvarssonar, laugardaginn 27. júní í samkomuhúsinu í Trékyllisvík. Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir hátíðinni, og verður tækifærið notað til að kynna verkefnaskrá Hróksins á Grænlandi næstu 12 mánuði.

Hátíðin hefst föstudaginn 26. júní kl. 20 með tvískákarmóti í samkomuhúsinu í Trékyllisvík. Daginn eftir kl. 14 hefst Minningarmót Böðvars Böðvarssonar, trésmíðameistara og skákáhugamanns. Tefldar verða 9 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Böðvar var einn af stofnendum Hróksins árið 1998 og einn af dyggustu liðsmönnum félagsins alla tíð. Hann lést á síðasta ári, og minnast Hróksmenn hans með hlýju. Sunnudaginn 28. júní kl. 13 verður svo hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði.

IMG_5421Auk skákviðburða verður gestum Skákhátíðar á Ströndum boðið í kynnisferð um sveitina undir leiðsögn Hrafns Jökulssonar og heimamanna, efnt verður til knattspyrnuleiks milli gesta og félaga í Ungmennafélaginu Leifi heppna, slegið upp brennu og grillveislu.

Þátttaka í skákhátíðinni er ókeypis. Matur í grillveislu kostar 3000 kr. fyrir fullorðna. Ókeypis er fyrir 20 ára og yngri.

Gisting er í boði í Finnbogastaðaskóla, þar sem nóttin kostar um 3500 kr. Þar eru góð rúm, fínt eldhús og í alla staði prýðileg aðstaða. Þá er 6 manna herbergi til reiðu í Bergistanga á Norðurfirði, og fleiri gistiúrræði eru í boði. Enn má nefna að mjög góð tjaldstæði eru í Djúpavík, Trékyllisvík og Norðurfirði.
Verðlaunagripir á Skákhátíð á Ströndum koma frá meistara Guðjóni Kristinssyni, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar gefa verðlaun og gjafir.

Gestir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, hjá Róbert Lagerman eða Hrafni Jökulssyni í netföngin chesslion@hotmail.com og hrafnjokuls@hotmail.com.

Meðal keppenda á Skákhátíð á Ströndum 2015 eru skákmeistarar á borð við Jóhann Hjartarson, Henrik Danielsen, Róbert Lagerman og fleiri kempur. Markmið okkar er að halda skemmtilega skák- og fjölskylduhátíð, sem skilur eftir sig góðar minningar.


 

Myndasafn – Smella á myndir til að stækka

Facebook athugasemdir