Sjö ungir kappar tryggðu sér rétt til að glíma við Short í Smáralind

3Sjö knáir keppendur á firmamóti Breiðabliks tryggðu sér rétt til að mæta enska snillingnum Nigel Short í MótX-fjölteflinu, sem fram fer í Smáralind föstudaginn 20. maí. Bárður Örn Birkisson sigraði á mótinu, hlaut 6,5 vinning af sjö mögulegum, Vignir Vatnar Stefánsson varð í 2. sæti með 6 og Björn Hólm Birkisson varð þriðji með 5,5 vinning.

Aðrir sem tryggðu sér rétt til tefla við Short voru Stephan Briem, Robert Luu, Örn Alexandersson og Arnar Milutin Heiðarsson

Keppendur voru alls 30 og fór mótið afar vel fram undir styrkri stjórn Halldórs Grétars Einarssonar og Birkis Karls Sigurðssonar, sem nutu liðsinnis Hróksmanna við undirbúning og framkvæmd mótsins. Hrókurinn stendur fyrir MótX-einvígi Shorts og Hjörvars Steins Grétarssonar í Salnum í Kópavogi, helgina 21.-22. maí, en daginn áður en einvígið hefst mun Short tefla fjöltefli við 14 áskorendur í Smáralind.

2Bárður Örn var vel að sigrinum kominn, enda tapaði hann ekki skák og lagði Vigni Vatnar í spennandi viðureign. Allir keppendur stóðu sig með sóma, og var taflmennskan í heild ljós vottur þess að skáklífið í Kópavogi er með miklum blóma; þökk sé kraftmiklu starfi skákdeildar Breiðabliks og markvissri þjálfun í mörgum grunnskólum bæjarins.

Þrír efstu á mótinu voru leystir út með 10 þúsund króna gjafabréfum frá Tölvulistanum / Heimilistækjum, og aðrir keppendur fengu Syrpur og Andrésblöð frá Eddu útgáfu, auk þess sem allir fengu buff frá MótX.

Tíu fyrirtæki tóku þátt í firmakeppninni og tefldi sigurvegarinn Báður Örn undir merki MótX, Vignir Vatnar var fulltrúi Góu Lindu og Björn Hólm tefldi fyrir BYKO. Önnur fyrirtæki sem lögðu skákdeild Breiðabliks lið voru Arion banki (Benedikt Briem), ÁF Hús (Freyja Birkisdóttir), GA Smíðajárn (Gunnar Erik Guðmundsson), GT Óskarsson (Róbert Luu), HS Orka (Ólafur Örn Olavsson), Suzuki bílar (Halldór Atli Kristjánsson) og Heimilistæki (Arnar Milutin Heiðarsson).

Lokastöðuna á mótinu má sjá hér.

Facebook athugasemdir