Sjávarvík: Er Vassily Ivanchuck hættur að fylgjast með?

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni að nú um mundir fer fram sannkallað ofurmót í Sjávarvík – hið svokallaða Tata Steel mót sem gjarnan er nefnt Wiijk ann Zee sökum staðsetningar þess.

euwe-wins-1941-de-courant-het-nieuws-van-den-dagMótið á sögu að rekja aftur til ársins 1938 en í þá daga var mótið haldið í bænum Beverwijk. Mótið hefur farið fram árlega allar götur síðan, ef frá er talið árið 1945, en það ár geysaði heimsstyrjöld í Evrópu líkt og þekkt er og kom hún í veg fyrir mótshald það ár.

Mótaröðin hófst á nýjan leik árið 1946. Mikill matarskortur var í Evrópu á þessum tíma vegna stríðsátakanna árin á undan og var því ófært að bjóða upp á stórfenglegar matarveislur samhliða taflmennskunni. Sem dæmi var aðeins hægt að bjóða upp á baunasúpu í lokahófinu. Þeirri hefð hefur verið viðhaldið allar götur síðan og er baunasúpa ávallt forréttur á lokahófinu.

Okkar maður, stórmeistarinn Friðrik Ólafsson, vann mótið í tvígang. Fyrst árið 1959, en þá fór mótið fram í Beverwijk og svo aftur árið 1976 í Sjávarvík ásamt júgóslavanum Ljubomir Ljubojević.

Vassily Ivanchuck

Vassily Ivanchuck er mikið ólíkindatól. Hann hefur um langt árabil verið meðal fremstu skákmanna heims og hefur afar skemmtilegan skákstíl svo ekki sé minnst á persónutöfra. Það er alþekkt að andstæðingar hans eiga afar erfitt með að undirbúa sig fyrir skák gegn Sjúkka, enda teflir hann oftast bara það sem honum dettur í hug þegar hann sest niður.

WesleySo

Wesley So

Í 8. umferð Tata-Steel mótsins mætti Sjúkki hinum nýbakaða ameríkana, Wesley So. Sá síðarnefndi hefur farið mikinn undanfarið ár og er nú í 6. sæti heimslistans með 2785 skákstig og er þar með orðinn stigahæsti skákmaður Bandaríkjanna, fjórum sætum og níu stigum fyrir ofan Hikaru Nakamura (2776) sem lengi hefur borið það sæmdarheiti.

Skák þeirra félaga úr 8. umferð var um margt merkileg. Ekki síst fyrir þær sakir að Sjúkki féll í gildru sem ætti að vera öllum atvinnuskákmönnum kunn. Upp kom staða líkt þeirri sem Wiswanathan Anand fékk gegn Levon Aronian í kandídatsmótinu í fyrra. Levon missti þar af vænlegri leið fyrir svartann og tapaði skákinni. Um skákina var mikið skrifað og rætt og rataði hún í áramótauppgjör Jan Gustafsson á síðunni Chess24. Þar og víðar var bent á að svartur átti sterkan leik í stöðunni sem upp kom og Levon missti af: Rf4 með hugmyndinni að fórna riddaranum á g2!

Hið ótrúlega gerðist að Sjúkki virðist alls ekki hafa áttað sig á þessari umræðu og féll rakleitt í gildruna. Að vísu á hvítur þvingað jafntefli (líklega) í stöðunni, en þar sem vinur okkar þekkti ekki stöðuna, þá snartapaði hann skákinni.

Áramótauppgjör Jan Gustafsson

Wesley So fer yfir skákina úr 8. umferð

Lokahnykkurinn í skákinni er afar glæsilegur.

wesley_so_ivanchuck

Df3! – Svartur hótar Hxg3 og ef t.d. fxg3 þá De2 með óverjandi máti. En hvítur á leik, ef hann reynir Be3 sem er líklega eina vitræna tilraunin því leikurinn opnar fyrir hrókinn á a1 sem valdar þá reitinn h1, á svartur einfalt svar. Dxe3! ef fxe3 þá Hd2 og svartur vinnur.

Heimsmeistarinn Magnus Carlsen leiðir mótið með 6 vinninga af 8 mögulegum, en hann hefur nú unnið 5 skákir í röð! Í næstu umferð, sem fram fer á þriðjudag, mætir Carlsen Timor Radjabov og n.k. miðvikudag teflir Carlsen við sjálfan Ivanchuck. Það verður eitthvað!

Facebook athugasemdir