Sinquefield Bikarnum lokið – Fádæma yfirburðir

Fabiano Caruana var orðinn sigurvegari mótsins þegar tvær umferðir voru eftir og má segja að mótið hafi klárast á rólegu nótunum. Í síðustu umferðunum var einungis spurning hversu góður og sögulegur árangur Caruana yrði.

Í síðustu tveimur umferðunum enduðu allar skákirnar með jafntefli og var það í fyrsta skipti í öllu mótinu sem það gerðist.  Þrátt fyrir það var mótið gríðarlega fjörugt og gríðarlegur fjöldi sigurskáka gerði mótið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með. Einungis Carlsen og Topalov reyndu á 30-leikja regluna þegar kemur að jafnteflum. Þeir endurtóku leiki þrisvar sinnum fyrir þrjátíu leiki og voru þeir einu sem gerðu það allt mótið!

Aftur að Caruana. Hann byrjaði með 7 vinninga af 7 mögulegum en endaði svo mótið á þremur jafnteflum. Það sem var eiginlega mest magnað var að í öllum þremur skákunum stóð hann betur og á móti Hikaru Nakamura í 9. umferð gerði hann sig sekan um líklega aðeins eina af tveimur slæmu yfirsjónum í mótinu þegar hann missti af nokkuð einfaldri vinningsleið.

Garry Kasparov var í viðtali í beinni netútsendingu mótsins og þar talaði hann mjög vel um frammistöðu Caruana. Hann bar árangurinn saman við sinn árangur í Wijk aan Zee þar sem hann byrjaði á jafntefli og vann svo 7 skákir í röð og svo auðvitað Anatoly Karpov í Linares 1994 sem við höfum áður fjallað um. Garry sagði að andstæðingar Caruana væri tvímælalaust sterkari og auk þess benti hann á að bæði hann og Karpov hefðu þurft smá heppni á meðan Caruana hefði aldrei í mótinu verið í neinum vandræðum og alltaf með traustar stöður!

Niðurstaðan er því í raun viðurkennd. Við vorum vitni að einni bestu mótaframmistöðu allra tíma. Caruna hækkar um 35 stig í mótinu sem er nánast óhugsandi fyrir skákmann með yfir 2800 elóstig. Hann fer í 2836 elóstig, þriðju hæstu stig allra tíma og er nú #2 í heiminum. Frammistaðan í mótinu samsvarar vel yfir 3000 elóstigum! Gaman verður að sjá í framhaldinu hvort hann geti gert atlögu að krúnu Magnusar Carlsen!

Carlsen endar mótið í öðru sæti og í fyrsta skipti sem hann er ekki með +2 eða +3 í sigurskákum í langan tíma í elítumótum. Það sýnir hvað Carlsen er hafður í hávegum að hann er talinn eiga lélegt mót að enda með +1 í sigurskákum í stigahæsta móti sögunnar!

Aðrir áttu í raun ekki gott mót. Veselin Topalov getur ágætlega við unað eftir slæma byrjun og Maxime Vachier-Lagrave þarf að venjast betur elítuumhverfinu en hann hefur allt til að bera til að halda sér þar!

Lev Aronian og Nakamura vilja klárlega gleyma þessu móti sem fyrst en hvorugur náði sér á strik.

Nakamura hristir hausinn, ekki í fyrsta skipti í mótinu!

Nakamura hristir hausinn, ekki í fyrsta skipti í mótinu!

Capture

 

Mótið á Chess24

 

Facebook athugasemdir