Simen Agdestein hættur: Sérvitringur sem neyddist til að tefla – Hættir á toppnum

Simen_AgdesteinSimen Agdestein einn þekktasti skákmaður Noregs, fyrir utan Carlsen kannski,  hefur ákveðið að hætta á toppnum sem atvinnumaður og snúa sér alfarið að kennslu. Hann hefur átt nokkuð litríkan feril, bæði sem knattspyrnumaður og sem atvinnuskákmaður og er því rétt að líta aðeins yfir farinn veg. Simen er mikill örlagavaldur norskrar skáklistar – bæði sem skákmaður og þjálfari, en frægt er að hann var einn þeirra sem mótuðu Magnús litla á yngri árum. Hefst þá lesturinn:

1982: 15 ára gamall; Skákmeistari Noregs.

1984: Í öðru sæti á Evrópumóti unglinga, á eftir Salov. Spilaði fyrsta leikinn fyrir U/18 landsliðið og fyrsta leikinn fyrir Lyn, sem þá var í 2. deild.

1985: Fyrsti stórmeistari Noregs og sá yngsti í heiminum!

1986: Deilt 1. sæti á Evrópumóti unglinga, fyrir ofan Bareev, Anand og Piket, en lenti í öðru sæti eftir stigaútreikning á eftir kúbverska Arencibia.

1988: Þriðja  sæti í Hoogovens mótinu, og fyrsti leikurinn sem sóknarmaður fyrir Norska landsliðið gegn Ítalíu.

1989: Hafnar tilboði um atvinnumannasamning við Tyrkneska liðið Besiktas svo hann gæti teflt í Interpolis mótinu – Tapar sætinu í landsliðinu fyrir vikið.

1991: Slítur liðband í hné og aftur ári síðar, en það skiptið sneri hann ekki aftur á fótboltavöllinn.

 

Simen-Agdestein (1)Þar sem knattspyrnuferlinum var lokið, var ekki annað að gera en að snúa sér alfarið að skákinni. Hann var alla tíð frekar latur við skákrannsóknir, leiddist einveran, en hélt þó góðum skákstyrk þrátt fyrir að hafa einbeitt sér meira að fótboltanum árin á undan. Til marks um áhugaleysið á skákrannsóknum, kallaði Kasparov hann gjarnan sterkasta skákáhugamann heims! (titill sem Luke McShane er gjarnan spyrtur við í dag).

Liðsfélagar hans í fótboltanum kölluðu hann gjarnan sérvitring, viðurnefni sem hann ól gjarnan á sjálfur í viðtölum og útliti. Síðar sagði Simen um sjálfan sig:

áðurfyrr hegðaði ég mér gjarnan undarlega í viðtölum, nú til dags er ég bara feginn ef einhver nennir að tala við mig.

Knattspyrnuferillinn átti eftir að reynast skákíþróttinni happadrjúgur, enda var hann fyrsti frægi skákmaður landsins. Frægð hans vakti skákáhuga og almenningur áttaði sig á að skákmenn voru ekki bara einhverjir vitleysingar með einhverfuröskun.

Endurkoman að skákborðinu var þó ekki þrautarlaus – Noregur var að fara að keppa á HM í knattspyrnu (1994) og það án hans! Þetta reyndist honum þungur ljár í þúfu og gekk hvorki né rak á reitunum 64. Síðar sagði Simen:

Eftirá að hyggja hefði ég átt að vera ánægður með að hafa neyðst til að hætta í boltanum og snúa mér að skákinni – Ég hefði reyndar átt að vera hættur áður en það gerðist, en eftir að hafa komist í A-landsliðið reyndist mér það erfitt. Ég var orðin illa farinn líkamlega, ekki bara í hnénu. Lífið fór á hvolf árin eftir meiðslin – það er ástæða þess að ég hrapaði á stigalistanum og allt annað fór til fjandans.

Eftir áfallið var Simen ekki einu sinni stigahæsti skákmaður Noregs, hvað þá einn af sterkustu skákmönnum heims.

 

— Endurkoman

Simen2Árið 1999 varð viðsnúningur þegar  Simen sigraði aftur á stórmóti, nefnilega Cappelle la Grand; Efstur 104 stórmeistara og með árangur sem samsvaraði 2789 stigum! Árið 2003 vann hann svo sterkt skákmót á eyjunni Mön.

Simen á langan feril að baki sem landsliðsmaður í skák og hefur sem slíkur teflt á fjölmörgum ólympíumótum, átta í heildina þegar mótið í Tromsö er talið. Fyrst á 25. Ólympumótinu í Lucerne í Sviss árið 1982, en þar mætti hann dýrvitlaus til leiks og krækti sér í gull fyrir frammistöðu sína á 4. borði – tefldi 12 skákir, vann átta, tvö jafntefli og tapaði tveim; 9 vinningar af 12 og árangur upp á 2520 stig!, ekki svo slæmt fyrir 15 ára gamlan og nýkrýndan skákmeistara Noregs með 2280 stig.

Á fyrstu sjö Ólympíumótunum, 1982 – 2008 tefldi hann samtals 76 skákir – vann 31, 29 jafntefli og tapaði aðeins 16, sem er 59,9% vinningshlutfall. Hann tefldi lang oftast á 1. borði, en varð þó að lúffa árið 2004 fyrir nýfermdu 14 ára undrabarni sem varla þarf að kynna til leiks, það var einmitt hinn rúsínubryðjandi og appelsínusafasötrandi Magnús litli Carlsen! þá yngsti stórmeistari heims.

carlsen1_1158836988Þá hefur hann oft sigrað á Noregsmótinu í skák – Fyrst árið 1982, þá 15 ára líkt og tæpt var á að ofan, og aftur 1986, 1988 og 1989. Hlé varð á sigurgöngu hans í áratug eða svo en árþúsundaárið gerði hann sér lítið fyrir og endurtók leikinn; og reyndar aftur árin 2002 og 2005. Árið 2005 þurfti hann að vísu að tefla einvígi við unglinginn Magnús en sá varð um síðir að lúta í gras

Árið 2006 urðu þeir aftur efstir og jafnir, en það skiptið vann Maggi örugglega.

 

— 2600 stiga múrinn, aftur!

Árin 2013 var svo eitt af hans betri skákárum, ef ekki það besta. Hann byrjaði á að vinna opna Sant Martímótið í Barcelona með 8,5 vinninga af 9, árangur sem samsvaraði 2901 stigi! Sá árangur reyndist ekki tilviljun því stuttu seinna varð hann sigurvegari á minningarmótinu um Håvard Vederhus í Osló með 7 vinninga af 9.

Þessi ótrúlega velgengni hins hundgamla undrabarns (46 ára) fleytti honum yfir 2600 skákstig! en svo mörg stig hafði hann ekki haft síðan hann var lítill og krúttlegur.

DSC_01411

Þetta getur ekki verið mikið mál

Sergey Karjakin, Magnus Carlsen, Alexander Grishuk, Fabiano Caruana, Veselin Topalov, Levon Aronian, Peter Svidler, Anish Giri, Vladimir Kramnik og Simen Agdestein?? Hvað er nú um að vera?

Jú – eftir að hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem einn af sterkustu skákmönnum Noregs og á topp 200 í heiminum, tók hann þátt í úrtökumóti um laust sæti á No Logo súperstórmeistaramótinu sem var að hefjast í Stavangri. Þar gerði hann sér lítið fyrir og hafði sigur gegn norðmanni nr. 2 – hinum unga Jon Ludwig Hammer.

DSC_0361

Alexander Grischuk leggur á ráðin

Þátttaka Simens (47 ára) þótti ekki merkileg í fyrstu, enda lang lang stigalægstur og lang lang elstur!; hið ótrúlega (eða hvað) gerðist þó og hver ofurstórmeistarinn á fætur öðrum spriklaði eldrauður í framan, lagði fyrir hann allskyns gildrur og lét öllum illum látum; en allt kom fyrir ekki – Simen sat og sat, leysti allar þrautir sem fyrir hann voru lagðar og gerði jafntefli við þá alla, eða allt þar til í síðustu tveim að honum brást úthaldið og varð að lúta í gras gegn Topalov og vini sínum honum Magnúsi Carlsen í lokaumferðinni. Simen vann ekki skák, en þrátt fyrir það gat hann státað af árangri upp á heil 2710 skákstig og gekk glaðbeittur frá borði með rúmlega níu stig í vasanum. Árangurinn er enn merkilegri en ella fyrir þær sakir að sá gamli var fárveikur allt mótið – Reyndar svo að hann þurfti að leita sér aðstoðar lækna og taka inn allskyns meðöl á meðan á mótinu stóð.

 

— Ólympíumótið í Tromsö

_MG_7123

Ekkert stress – bless

Ólympíumótið í Tromsö sem lauk á fimmtudaginn var það áttunda sem hann tefldi. Fyrir mótið voru miklar væntingar gerðar til liðsins, í að hluta til vegna þess að í liðinu var þrefaldur heimsmeistari og ekki síst vegna þess að mótið var haldið í Noregi.

Simen tefldi níu skákir (af 11) og stóð sig með ágætum. Hann hóf sprettinn með sigri á 1. borði í fjarveru Magga, gegn alþjóðameistaranum Basheer Qudaimi (2396). Jafntefli fylgdu í kjölfarið í 2.-4. umferð en í 5. umferð tapaði hann fyrir stórmeistaranum Gabrial Sargissian (2686). Í 7. umferð reyndist hann jafnoki þjóðverjans GM Daniel Fridman (2639) sem hann fylgdi eftir með sigri í 8. umferð gegn stórmeistaranum Emir Dizdarevic (2522). Stórmeistarinn Emre Can (2529) frá Tyrklandi reyndist of erfiður í 9. umferð.

Chess Olympiad rd 11 501Þá víkur sögunni að 11. og lokaumferð mótsins. Norska sveitin hafði með engu móti staðið undir þeim væntingum sem gerðar höfðu verið og voru langt því frá í því sæti sem til stóð. Andstæðingarnir voru því mun stigalægri sveit Malasíu. Magnús Carlsen hafði fengið sig fullsaddann af bransanum, enda lokað hjá Bjargráðasjóði og kvaddi því eftir 10. umferð eins og áður hefur verið greint frá.

Það var því okkar maður, sem fékk það hlutverk að ljúka mótinu á 1. borði, þar sem hann hóf mótið. Verkefnið vafðist lítið fyrir honum enda vann norska sveitin öruggan 4-0 sigur.

Árangur Simens (2630) eftir þrjá sigra, fjögur jafntefli og tvo ósigra samsvarar 2556 stigum sem þýðir 8 stiga tap.

 

— Hættir á toppnum

Chess Olympiad rd 11 203Að lokinni glæsilegri skákveislu í Tromsö ákvað hann að nóg væri komið og sendi frá sér tilkynningu um að nú væri hann hættur atvinnumennsku. Í viðtali við norska fjölmiðla sagði hann að hann vildi hætta á toppnum; hann væri orðinn of gamall til að vera á meðal þeirra bestu en ætlar þess í stað að styðja við komandi kynslóðir norskra skákmanna sem kennari við (Norwegian College of Elite Sport), en þar kenndi hann áður en hann gerðist atvinnu skákmaður og þjálfari.

Verkefnið núna er að gera hina klára fyrir næsta Ólympíumót

Hann á þó vafalítið eftir að sjást við skákborðið aftur, enda segir hann sjálfur að hann hafi margoft ætlað að hætta..

 

 

Facebook athugasemdir