Jóhann Hjartarson og Nigel Short að tafli í Nuuk Center. Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands fylgist með.

Short sigraði Jóhann í Flugfélagseinvígi Hróksins í Nuuk

Nigel Short bar sigurorð af Jóhanni Hjartarsyni í æsispennandi Flugfélagseinvígi Hróksins í Nuuk. Einvígið markaði upphafið að árlegri skákhátíð í höfuðborginni, en þetta er þriðja ferð liðsmanna Hróksins til Grænlands á árinu.

Asii Chemnitz Narup borgarstjóri í Nuuk flutti setningarávarp og sagði að Hrókurinn væri ávallt sérstaklega velkomin til Grænlands. Hún rifjaði upp að skáklandnámið hefði byrjað árið 2003 og síðan hefði Hrókurinn skipulagt um 50 ferðir til Grænlands, og kynnt töfraheim skáklistarinnar fyrir þúsundum barna og fullorðinna.

Mikill fjöldi lagði leið sína í Nuuk Center til að fylgjast með meisturunum. Tefldar voru fjórar atskákir og voru þær allar afar spennandi og skemmtilega tefldar. Tveimur fyrstu skákunum lauk með jafntefli, en Jóhann vann góðan sigur í þriðju skákinni. Short tókst að jafna metin í lokaskákinni og því voru tefldar tvær hraðskákir til að fá úr því skorið hvor yrði Flugfélagsmeistarinn 2016. Meistararnir unnu hvor sína skákina, og þurftu því að tefla hreina úrslitaskák um titilinn. Þar vann Short með vel útfærðri sókn.

Næstu daga heimsækja liðsmenn Hróksins skóla, athvörf og fangelsi, auk þess sem Short teflir fjöltefli við liðsmenn skákfélagsins í Nuuk og slegið verður upp hraðskákmóti.

Facebook athugasemdir