Saga Hróksins: Meistarinn sem átti hugmyndina

Hrókurinn var upphaflega stofnaður á Grandrokk við Klapparstíg á ofanverðri síðustu öld. Hugmyndina átti sænskættaði snillingurinn Dan Gunnar Hansson (1952-1999). Hér má lesa minningarorð Hrafns Jökulssonar um Dan, sem birtust í Morgunblaðinu 1. september 1999.

Við uxum úr grasi með glitrandi vonir,
en gleymdum oftast að hyggja að því
að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi
úr sæ hvern einasta dag eins og ný.

Nú bíðum við þess að bráðum komi
þessi broslausi dagur – og svo þetta högg.
Þegar líf okkar er að lokum aðeins
eitt lítið spor í morgundögg.

(Matthías Johannessen.)

,,Það vinnur enginn skák með því að gefa hana!“ Hversu oft gullu ekki þessi orð, á óaðfinnanlegri íslensku með eilítið smámæltum, sænskum hreimi, þar sem ég sat kófsveittur og reyndi að forðast þær gildrur sem Dan Hansson egndi fyrir mig á skákborðinu. Á meðan hallaði meistarinn sér makindalega aftur og þurfti varla að líta á borðið, ellegar hann hélt uppi hrókasamræðum við áhorfendur að ógæfu minni á reitunum sextíu og fjórum.

Það er erfitt að sætta sig við þá tilhugsun að Dan Hansson hafi teflt síðustu skák sína í þessu lífi. Hann var rétt byrjaður á miðtaflinu, og þótt staðan væri kannski í járnum var engin ástæða til að ætla annað en lífsskák hans myndi standa lengi enn ­ því Dan var einfaldlega þeirrar náttúru að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Dan Hansson var drifkraftur á bak við stofnun Skákfélags Grandrokk. Einhverjum mun hafa þótt glapræði, svo stappaði nærri guðlasti, að lítill bar í Reykjavík tæki sig til og sendi lið til keppni í Íslandsmótinu í skák. En sú var tíð að öldurhús voru helsta athvarf skákarinnar: þar sátu helstu meistarar heimsins og tefldu við gesti og gangandi. Stéttaskiptingin í skákinni er seinni tíma fyrirbæri.

Dan Hansson sat í stjórn Skákfélags Grandrokk og átti sinn þátt í að móta einfalda en skýra hugmyndafræði félagsins: Að færa skáklistina nær upphafinu, dusta af henni yfirbragð hátíðleikans og færa hana aftur í búning leikgleðinnar. Skákfélag Grandrokk lét sig ekki muna um að senda tvær sveitir fremur en eina til þátttöku í 4. deild. Það segir sína sögu um styrk A-sveitarinnar að Dan Hansson, sem árið 1983 sigraði á sjálfu skákþingi Íslands, tefldi á 2. borði. En það gerði hann með stæl og átti sinn þátt í að sveitin sigraði og vann sér rétt til keppni í 3. deild nú í vetur. Ekki var öllum skemmt yfir uppgangi hins nýja félags, en enginn hló innilegar að forpokuðum úrtöluröddunum en Dan Hansson. Hann var stoltur af sínu félagi og félagið var stolt af honum.

Fyrir tveimur árum jafnaði Dan Íslandsmet Helga Ólafssonar stórmeistara, þegar hann tefldi tíu blindskákir samtímis. Flestir áhugamenn í skák eiga fullt í fangi með að halda þræði í einni skák í huganum, og því er tæpast hægt að ímynda sér hvílík þolraun það er að sitja í margar klukkustundir og tefla til þrautar tíu skákir án þess að sjá borðin eða snerta taflmennina. En þetta gerði Dan Hansson með glæsibrag ­ og auðvitað á Grandrokk.

Í vor sigraði Dan á sterku atskákmóti Skákfélags Grandrokk og varð þar með fyrsti meistarinn í sögu félagsins. Það fór vel á því: Fyrstur manna hlaut hann titilinn Grand-master, og ég er ekki frá því að hann hafi verið að minnsta kosti jafn ánægður með þá nafnbót og sigurinn á skákþingi Íslands um árið.

Við þekktumst aðeins í fáein ár en á þeim tíma mynduðust vináttubönd sem ég mat mikils. Dan stóð með vinum sínum, hvernig svo sem veröldin valt. Hann brýndi menn til dáða í mótlæti og samgladdist innilega þegar vel gekk. Sjálfur fékk hann að kynnast hvorutveggja í stærri skömmtum en flestir aðrir.

Dan Hansson var að upplagi viðkvæmur aristókrat. Hann var stoltur en hafði ekki þykkan skráp. Ef honum þótti að sér vegið tók hann það nærri sér, rétt eins og ég held að hann hafi átt erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér mistök í lífinu. Hann skorti alla eiginleika til að geta verið harðsvíraður þegar nauðsyn krafðist. Hann var enda fagurkeri og kunni að meta allt frá góðum skáldskap og listilega tefldum skákum til annarra og ívíð háskalegri lífsnautna.

Það var skemmtilegt að tala við Dan, enda voru áhugamálin mörg og gáfurnar leiftrandi. Meistaraleg tök hans á íslensku vöktu oft aðdáun mína. Orðaforði hans var til muna drýgri en flestra sem aldrei hafa talað annað en íslensku og málfræðin var óaðfinnanleg. Hann hafði líka ótrúlega næmt eyra fyrir blæbrigðum tungumálsins og gat verið kostulega hnyttinn og orðheppinn; jafnt á eigin kostnað og annarra. Dan var húmoristi af náð og snjall sögumaður, og á góðum stundum var hann allra manna glaðastur. Á stund sorgarinnar er gott að geta leitað í sjóð lifandi minninga um góðan dreng.

Fyrir hönd félaga og vina í skákfélaginu færi ég dætrum Dans Hanssonar og öðrum ástvinum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Minningin lifir.

Facebook athugasemdir