Safnar fyrir börn í Jemen í minningu móður sinnar

,,Ástandið í Jemen er skelfilegt. Ég held að ekkert land hafi staðið hjarta móður minnar nær, af þeim næstum hundrað löndum sem hún heimsótti. Við viljum leggja okkar af mörkum,“ segir Hrafn Jökulsson forseti Hróksins sem dagana 11. og 12. maí mun tefla skákmaraþon og safna framlögum og áheitum í þágu barna í Jemen. Allt sem safnast fer óskert í neyðarsöfnunina.

Jóhanna Kristjónsdóttir, móðir Hrafns og stofnandi Fatimusjóðsins, lést 11. maí á síðasta ári, og maraþonið er helgað minningu hennar.

,,Mamma var óþrjótandi baráttukona fyrir betri heimi, og sýndi með fordæmi sínu hvað ein manneskja getur gert. Hún er mér innblástur í öllu mínu starfi,“ segir Hrafn.

Hræðilegt ástand ríkir nú í Jemen, þar sem stríð hefur ríkt um árabil og milljónir barna stríða við hungur og sjúkdóma.

,,Það er skylda okkar að koma samborgurum okkar til hjálpar í þessum heimi, einkum saklausum börnum,“ segir Hrafn. Hann segir að send séu út bréf til mörghundruð fyrirtækja og einstaklinga, með beiðni um stuðning. ,,Við erum stolt af því að ekki króna fer í kostnað. Allt er unnið í sjálfboðavinnu. Króna í söfnunina er króna til barnanna í Jemen.“

Hrafn hvetur alla sem geta og vilja til að vera með, og leggja inn á Fatimusjóðinn eða heita á hann í maraþoninu.

Hér er hægt að heita á Hrafn: 

Skákmaraþon 2018 – Áheit

Upplýsingar um Fatimusjóðinn:

  • Reikningsnúmer: 0512-04-250461
  • Kennitala: 680808-0580

Facebook athugasemdir