Róbert sigraði á Vin Open – Afmælismóti Finns Kr. Finnssonar

SAM_2134Róbert Lagerman sigraði á Vin Open, afmælismóti Finns Kr. Finnssonar, sem Vinaskákfélagið og Hrókurinn efndu til á mánudag. Finnur varð áttræður í febrúar en hann hefur um árabil auðgað skáklífið á Íslandi, jafnt með keppni og kennslu. Heiðursgestur á afmælismótinu var frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

Mótið hófst með ræðu Róberts, sem er forseti Vinaskákfélagsins og varaforseti Hróksins. Hann sagði afar ánægjulegt að fá tækifæri til að heiðra heiðursmanninn hógværa, Finn Kr. Finnsson sem sjaldan lætur sig vanta á stórmótin í Vin og er auk þess driffjöður í skáklífi eldri borgara.

SAM_2143Frú Vigdís lék svo fyrsta leikinn fyrir afmælisbarnið. Sjálf kann Vigdís góð skil á leyndardómum skáklistarinnar, enda lærði hún ung að tefla. Gestir Vinjar og aðrir keppendur á mótinu kunnu svo sannarlega vel að meta heimsókn hins ástsæla forseta, og gaf Vigdís sér góðan tíma til að fylgjast með mótinu og kynna sér starfið í Vin.

Róbert sigraði á mótinu eftir uppgjör við Sæbjörn Guðfinnsson, sem stóð sig með miklum glæsibrag og hreppti silfrið, en þriðji varð hinn harðsnúni Þorvarður Ólafsson.

Sigurvegarar hlutu nýjar bækur í verðlaun og afmælisbarnið fékk að sjálfsögðu bók líka.

SAM_2160Afmælismót Finns var jafnframt einn af sérviðburðum hinnar miklu skákveislu í kringum Reykjavíkurskákmótið og á mótinu var m.a. teflt um keppnisrétt í fjöltefli við hinn mikla meistara Shakriyar Mammadyarov.

Róbert ákvað að hið eftirsóknarverða sæti í fjölteflinu við skáksnillinginn frá Azerbæjan kæmu í hlut Harðar Jónassonar, sem er einn ötulasti liðsmaður Vinaskákfélagsins. Hörður sýndi hug sinn í verki til Vinaskákfélagsins á dögunum þegar hann borgaði tífalt árgjald til félagsins!

Afmælismót Finns Kr. var skemmtileg veisla í alla staði og að vanda var boðið upp á ljúffengar veitingar.

Lokastaðan:

 1  Róbert Lagerman       2300   5.5   14.5 21.5  19.0
 2  Sæbjörn Guðfinnsson     1756   5    14.5 23.0  19.0
 3-4 Þorvarður Ólafsson      2263   4    14.5 22.0  15.5
   Siar Wahedi         2287   4    13.5 19.5  15.0
 5  Gísli Gunnlaugsson      1845   3.5   14.5 20.5  11.5
 6-8 Hörður Jónasson       1562   3    12.5 19.0  12.0
   Halldór Gíslason       1000   3    11.0 17.0  8.0
   Hjálmar Sigurvaldason    1450   3    11.0 16.0  10.0
9-10 Finnur Kr. Finnsson     1456   2.5   10.5 15.5  7.0
   Björgvin Kristbergsson    1229   2.5    9.5 13.5  5.0
11-12 Jóhann Jóhannsson      1200   2    12.0 17.0  6.0
   Haukur Halldórsson      1575   2    10.5 16.5  10.0
 13  Hörður Björnsson       1250   1.5   11.0 14.5  4.5
 14  Jón Gauti Magnússon     1000   1    11.0 16.0  5.0

Facebook athugasemdir