Róbert efstur á HT Vinaskákmótinu

1Róbert Lagerman sigraði á HT Vinaskákmótinu sem fram fór í Vin á mánudag, hlaut 5 vinninga af sex mögulegum. Gunnar Björnsson hlaut líka 5 vinninga en varð ögn lægri á stigum og þriðji varð Ólafur B. Þórsson. Að mótinu stóðu Hrókurinn og Vinaskákfélagið.

Heiðursgestur mótsins var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og hún lék fyrsta leikinn fyrir Róbert gegn hinum knáa Hjálmari Hrafni Sigurvaldasyni. Eygló mátti velja leikinn sjálf og sveiflaði að sjálfsögðu fram drottningarpeðinu. Fram kom í ávarpi Eyglóar að hún lærði ung að tefla og að skáklistin er í hávegum höfð í hennar fjölskyldu.

Á HT Vinaskákmótinu var vígð splunkunýtt vöfflujárn sem Heimilistæki færðu athvarfinu að gjöf, og því lagði undursamlegan ilm um húsið meðan Ingi Hans sýndi enn einu sinni snilld sína í eldhúsinu.

Í humátt á eftir efstu mönnum komu Hjálmar Hrafn, Arnljótur Sigurðsson, Haukur Halldórsson, Finnur Kr. Finnsson, Hörður Jónasson, Björgvin Kristbergsson, Davíð Ingimarsson og Gunnar Gestsson.

Fastar skákæfingar eru í Vin á mánudögum og þar er teflt flesta daga. Allir eru hjartanlega velkomnir í Vin.

Facebook athugasemdir