Ritstjóri vinsælasta skáktímarits heims: Fyrsta hátíðin á Grænlandi ógleymanleg

Cover_2003_6.vpDirk Jan Ten Geuzendam er án vafa einn reynslumesti og virtasti skákblaðamaður heims. Hann er aðalritstjóri New in Chess, ásamt Jan Timman, en tímaritið nýtur gríðarlegra vinsælda skákáhugamanna. Dirk Jan hefur margoft komið til Íslands og fjallað um stórviðburði, og hann var í föruneyti Hróksins þegar fyrsta skákmótið í sögu Grænlands var haldið í Qaqortoq sumarið 2003.

Dirk Jan hefur skrifað um skák í næstum 30 ár. Hann svaraði spurningum Hróksins meðan hann pakkaði ofan í ferðatösku til Tromsö.

,,Fyrsta viðtalið mitt birtist í New in Chess sumarið 1986, við dr. Niemeijer, sem átti eitt stærsta skákbókasafn allra tíma. Sú staðreynd að hann svaraði öllum spurningum mínum hvatti mig til að byrja að taka viðtöl við skákmenn. Sá fyrsti var Ljubomir Ljubojevic. Mér er í fersku minni að drjúgan hluta viðtalsins á var hann á ferðinni og átti erfitt með að sitja kyrr!“

Hver er lykillinn að velgengni New in Chess, nú þegar flest prentuð tímarit eru í öldudal?

DSC_0189

Gamlir Grænlandsfarar. Össur og Dirk Jan voru báðir í Qaqortoq 2003.

,,Við höfum fyrsta flokks greinarhöfunda er ástæða númer eitt, en líka sú staðreynd að við reynum ekki að keppa við Internetið. Við reynum að búa til fallegt (ég vil næstum segja rómantískt) tímarit sem býður upp á skákskýringar fremstu meistara heims. Við leggjum líka áherslu á greinar frá helstu stórviðburðum, skrifaðar af mönnum sem eru á staðnum. Blaðið býður líka upp á pistla og greinar sem þú finnur ekki á netinu. Bættu við þessa uppskrift vænum skammti af húmor, ríkri áherslu á fyrsta flokks myndefni og blaði sem fer vel í hendi, svo útkoman á að vera veisla fyrir áskrifendur okkar.“

Þú hefur tekið viðtöl við flesta helstu skákmenn síðustu áratuga. Hverjir eru minnisstæðastir?

DSC_0215

Fjölmiðlastjörnur. Þóra Arnórsdóttir og Dirk Jan á N1 Reykjavíkurmótinu í Hörpu.

,,Þetta er ómöguleg spurning! Ef ég yrði að velja þrjú viðtöl, þá væru þau við Miguel Najdorf, David Bronstein og síðan tvöfalt viðtal sem ég tók í lok heimsmeistaraeinvígis Kramniks og Kasparovs. Með Najdorf eyddi ég ógleymanlegum degi í Buenos Aires, þar sem við heimsóttum meðal annars skákklúbbinn hans. Bronstein heimsótti ég þrjá daga í röð á heimili hans í Moskvu. Við áttum langt og efnisríkt samtal, eilítið kryddað með vodka. Tvöfalda viðtalið tók ég daginn sem Kasparov tapaði titlinum til Kramniks í London 2000. Fyrst ræddi ég við hinn fallna meistara og það var svakaleg reynsla. Svo fór ég og hitti nýja meistarann, sem hespaði viðtalinu af, og pantaði svo allar tiltækar kræsingar handa okkur!“

Eru bestu skákmenn heims öðruvísi en ,,venjulegt“ fólk?

,,Já og nei. Aðalmunurinn er trúlega sá að þeir eru svo mikið á ferðinni að  þeir lifa í afmörkuðum heimi stóran hluta ársins. Svo eru þeir flestir með gríðarlega gott minni.“

2222 2 261

Heimsókn í Vin árið 2003, þegar starf Hróksmanna í athvafinu var að hefjast.

Hvað heldurðu um einvígi Anands og Carlsens? Á Anand einhverja von um að endurheimta titil sinn?

,,Eins og flestir aðrir býst ég við að Anand berjist af mun meiri hörku en í Chennai. Það stendur kannski Carlsen fyrir þrifum að hafa að ,,litlu“ að keppa, svo maður gæti freistast til þess að halda að Anand eigi möguleika á að ná krúnunni aftur. Ég held nú samt að ef Carlsen kemur vel undirbúinn og í keppnisskapi til leiks (og því skyldi hann ekki að gera það?) þá ætti hann að vinna sannfærandi.“

Dirk Jan hefur ferðast um allan heim til að fjalla um stórviðburði og taka viðtöl við meistarana. Við hljótum því að spyrja hvert sé mesta skákland í heimi — og tökum fram að hann þurfi ekki að nefna Ísland!

,,Besta skákland í heimi er Rússland. Þangað er alltaf frábært að koma, og finna hve skákin á djúpar rætur í rússnesku samfélagi. En það eru fleiri mikil skáklönd, og Ísland er sannarlega eitt þeirra og einn af mínum uppáhalds áfangastöðum. Willard Fiske-safnið í Þjóðarbókhlöðunni, Einvígi allra tíma og fleira og fleira kemur upp í hugann. Ég mun snúa aftur!“

[slideshow_deploy id=’1144′]

Hver er svo minnisstæðasti skákviðburður sem þú hefur orðið vitni að?

,,Önnur spurning sem ómögulegt er að svara, eftir að hafa farið svo víða um allan heim. En einn er sá viðburður sem ég nefni alltaf, þegar ég er spurður þessarar spurningar, og það var hátíðin í Qaqortoq á Grænlandi 2003. Ég hafði fyrst hitt Hrafn Jökulsson á Ólympíumótinu í Bled 2002. Hann spurði hvort mig langaði til Grænlands, og ég bjóst satt að segja ekki við að heyra meira um málið. En fáeinum mánuðum síðar hafði hann samband og útkoman varð sægur af frábærum minningum frá Grænlandi. Annað var heldur ekki hægt: Hugsið ykkur bara hvernig það er að líða á báti innan um ísjakana, með stórmeistarana Nick deFirmian og Predrag Nikolic sem við skutluðum upp á einn jakann til að þeir gætu tekið skák. Þetta var snemma morguns og skipstjórinn notaði tækifærið til að höggva mola úr ísnum til að bjóða okkur upp á með viskílögg. Það gerist ekki miklu betra.“

Dirk Jan Ten Geuzendam

Facebook athugasemdir