Pútín mætir á lokahófið í Sotsí! – Drekkur te með Magnúsi, Anand og Spassky!

magnus_anand_9umf

Viswanathan Anand og heimsmeistarinn Magnús Carlsen

Því hefur nú verið slegið föstu að Vladimir Pútín Rússlandsforseti mun heiðra heimsmeistarann Magnús Carlsen með nærveru sinni á lokahófinu sem fram fer á morgun kl. 18.

Magnús sigraði í gær í einvíginu gegn áskorandanum Viswanathan Anand, með því að vinna 11. skákina (af 12) og komst þar með í 6,5 vinninga gegn 4,5 vinningum Anands. Því forskoti verður ekki náð í lokaskákinni og var því óþarfi að halda einvíginu áfram.

Skemmst er að minnast þess að Magnús Carlsen dró mjög lengi að undirrita samninga um að tefla einvígið í Sotsí; m.a. vegna ástandsins í Úrkraínu og á Krímskaga. Þá hafa vesturlönd samþykkt viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi vegna ástandsins.

Boris Spassky var heiðursgestur í Sotsí

Íslandsvinurinn Boris Spassky var heiðursgestur í Sotsí

Dagblaðið Verdens Gang greinir frá því að Pútin verði viðstaddur verðlaunaafhendinguna í Sotsí á morgun ásamt helstu leiðtogum Rússlands. Þá er staðfest að Pútín muni hitta Magnús Carslen, Viswanathan Anand og fv. heimsmeistarann Boris Spassky eftir athöfnina og drekka með þeim te.

Bæði Magnús Carlsen og Espen Agdestein umboðsmaður hans hafa sagt í viðtölum að þeir muni taka vel á móti Pútín ef tækifæri gefst.

Lokahófinu verður að líkindum sjónvarpað á heimasíðu mótsins og vafalaust á öllum helstu miðlum í Noregi.

Frétt VG

Facebook athugasemdir