Polar Pelagic-skákhátíð Hróksins á Grænlandi: Með gleðina að leiðarljósi

Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins efna næstu vikuna til skákveislu á Grænlandi, sem markar upphafið að 13. starfsári félagsins hjá okkar næstu nágrönnum. Leiðin liggur til Kulusuk og Tasiilaq, þar sem efnt verður til skákhátíða auk þess sem Hróksmenn munu færa heimilum og athvörfum fyrir börn mikið af vönduðum og góðum fatnaði og öðrum gjöfum. Kjörorð leiðangursmanna er: ,,Með gleðina að leiðarljósi.“

3Hátíðin hefst í Kulusuk miðvikudaginn 11. febrúar og lýkur í Tasiilaq viku síðar. Kulusuk er tæplega 300 manna þorp og þar búa næstu nágrannar Íslendinga. Tasiilaq er höfuðstaður Austur-Grænlands og þar eru íbúar nú liðlega 2000. Hróksmenn hafa á liðnum árum margoft heimsótt báða bæina og eiga þar vinum að fagna. Haldinn verður hátíðlegur ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands“ á báðum stöðum.

Starf Hróksins á Grænlandi einskorðast ekki við skák, enda markmið félagsmanna að auka samvinnu og vináttu grannþjóðanna á sem flestum sviðum. Hrókurinn efndi í haust til fatasöfnunar í þágu barna á Austur-Grænlandi og hafa undirtektir verið frábærar. Búið er að senda mikið magn af fatnaði til nokkurra þorpa á austurströndinni og í farangri leiðangursmanna verður mikið af vönduðum fötum fyrir börn í Kulusuk og Tasiilaq.

2Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi og Jón Grétar Magnússon, margreyndur Grænlandsfari.

Aðalbakhjarl hátíðarinnar er grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic A/S sem er að þriðjungshluta í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Flugfélag Íslands stendur að hátíðinni í samvinnu við Hrókinn en FÍ hefur tekið þátt í skáklandnáminu á Grænlandi frá upphafi. Meðal annarra bakhjarla eru Nói Síríus, 66°NORÐUR, Landsbankinn HENSON, Ísspor og 12 tónar.

Fréttir og myndir frá hátíðinni verða birtar hér á heimasíðunni á næstu dögum.

Facebook athugasemdir